Hvað verður frítt næst?

Virðingin fyrir skóladótinu er orðin engin,“ sagði grunnskólakennari við mig í sumar þegar við ræddum um gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum landsins. „Ég skil hugsunina og hugmyndin er falleg, en þegar þau eiga hlutina ekki sjálf hverfur tilfinningin fyrir ábyrgð,“ bætti hún við.

Æ oftar heyrir maður efasemdir meðal kennara, starfsmanna skólanna og sveitarstjórnarfólks um það hvort við séum á réttri leið með gjaldfrjáls námsgögn sveitarfélaganna. Það er mikilvægt að stuðla að jöfnum tækifærum óháð stöðu, en er besta leiðin að því markmiði að hafa allt frítt fyrir alla?

Nú hefur Hafnarfjörður ákveðið að falla frá ókeypis námsgögnum. Skólarnir safna of miklu magni af ónotuðum námsgögnum og börn koma heim með fullar töskur úr skólanum af ritföngum og öðru sem þau hafa ekki notað. Þessi saga endurtekur sig á hverju ári með tilheyrandi kostnaði og sóun.

Eignarréttur snýst ekki aðeins um lagalegan rétt til að eiga eitthvað, heldur einnig um tilfinningu fyrir ábyrgð og umhyggju fyrir því sem maður á og er grundvöllur einstaklingsfrelsis og sjálfstæðis. Þegar einstaklingar eiga hluti bera þeir ábyrgð á þeim, sjá um að viðhalda þeim og ganga vel um þá. Þegar öll námsgögn eru ókeypis er hætta á að tilfinningin fyrir því að passa dótið sitt og fara vel með hverfi. Börnin læra ekki að hlúa að því sem þau eiga, því þau eiga það ekki í raun. Í stað þess að efla ábyrgðartilfinningu skapar kerfið umhverfi þar sem virðingarleysi ríkir og eignir missa verðgildi sitt.

Þrátt fyrir að þessi stefna hafi leitt til fleiri skemmdra bóka, fleiri týndra stílabóka og illa farinna ritfanga hefur verið tekin ákvörðun um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Sú aðgerð mun kosta ríki og sveitarfélög, þ.e. skattgreiðendur, milljarða á ári hverju. Meginmarkmiðið er ekki að stuðla að hollari eða næringarríkari máltíðum fyrir grunnskólabörn landsins, heldur að tryggja að máltíðirnar skuli vera ókeypis fyrir öll börn, óháð efnahag fjölskyldna þeirra.

Of mikil orka hefur farið í það hjá stjórnmálamönnum að karpa sín á milli um hvernig best sé að framkvæma þessar aðgerðir, en of lítið rætt um það hvort þessi stefna sé yfir höfuð skynsamleg. Fæstir foreldrar þurfa á ókeypis skólagögnum eða skólamáltíðum að halda. Við eigum að einbeita okkur að því að aðstoða þá sem þurfa aðstoð. Það er vel hægt að stuðla að jöfnum tækifærum án þess að fórna öllum prinsippum um ábyrgð og eignarrétt.

Þetta er slæm meðferð á almannafé og kemur niður á öðrum mikilvægum verkefnum innan menntakerfisins. Við þurfum að hafa kompásinn rétt stilltan til að tryggja sjálfbæra framtíð menntakerfisins og koma í veg fyrir óþarfa sóun á skattfé. Hvað verður annars frítt næst sem enginn kann að meta?

Pistillinn „Hvað verður frítt næst?” birtist í Morgunblaðinu 9. ágúst 2024.