Þjónustan fór og börnin líka

Það eru ákveðnir lykilþættir í þjónustu hins opinbera sem hafa mikil áhrif á vellíðan og lífsgæði fjölskyldna. Þar á meðal er biðin eftir leikskólaplássi, sem er mun lengri í Reykjavík en annars staðar. Í höfuðborginni varð sú stefna ofan á að leggja áherslu á niðurgreiðslu á kostnað þjónustustigs leikskólanna. Sú stefna hefur litlu skilað nema vandræðum.

Þrátt fyrir að íbúum Reykjavíkur hafi fjölgað um 16% frá 2014 hefur börnum á leikskólaaldri fækkað um 9%. Vinstri meirihlutinn hefur með því að fækka plássum um 940 á einum áratug hrakið frá sér fjölda barnafjölskyldna.

Þessi vanræksla gagnvart barnafjölskyldum hefur orðið til þess að Reykjavík hefur velt vandanum yfir á nágrannasveitarfélögin, þar sem reynt er að hugsa í lausnum. Þar hafa leikskólagjöld tekið hógværum hækkunum en fv. borgarstjóri sá sérstakt tilefni til þess að gagnrýna þær breytingar nágranna sinna og benda á að Reykjavíkurborg yrði áfram það sveitarfélag sem yrði hagstæðast að búa í fyrir fjölskyldufólk. Það mætti kannski benda fv. borgarstjóra á að á 10 mánuðum verður fjölskylda á meðallaunum fyrir 6,6 milljóna króna tekjutapi. Það tekur ansi mörg ár að vinna það tjón til baka vegna langra biðlista í borginni. Það er ekki hagstætt að vera með börn í borginni.

Samanburðurinn hefur verið borginni erfiður. Þegar mæling á ánægju íbúa borgarinnar var í frjálsu falli síðasta áratug var lausnin að hætta einfaldlega að mæla hana. Árið 2018 mældist Reykjavíkurborg langneðst í þjónustukönnun Gallup í samanburði við önnur sveitarfélög þegar kom að þjónustu leik- og grunnskóla, en einnig í þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlaða og heildaránægju íbúa.

Það sama er nú að gerast í málefnum grunnskóla. Enginn samanburður og engar upplýsingar um ólíkan árangur skóla og sveitarfélaga. Jöfn tækifæri nemenda til náms, valfrelsi og heilbrigð samkeppni á milli skóla er sanngirnismál. Og ef fólk hefur ekki upplýsingar um stöðuna er minni umræða, óskýrari forgangsröðun og engin samkeppni.

Við verðum að stuðla að jöfnum tækifærum til náms og tryggja að fjármunir samfélagsins séu nýttir á þann hátt að þeir bæti raunverulega menntun og hag barna okkar til framtíðar.

Við skuldum fjölskyldufólki að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla sé brúað og að fjármunum sé forgangsraðað. Við eigum að styðja við þá sem þurfa á stuðningi að halda í stað þess að nýta skattfé til að styðja hátekjufólk. Það er auðvelt að segjast standa með fjölskyldum þegar kemur að fjármunum annarra en raunin er sú að þegar fjármunum er ekki forgangsraðað sitja foreldrar upp með miklu stærri reikning vegna getuleysis borgarinnar að leysa leikskólamálin. Hér kristallast sennilega munurinn á vinstri og hægri.

Pistillinn „Þjónustan fór og börnin líka” birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2024.