Það þurfa ekki allir að koma suður

Ég gekk upp að fallegu húsi á Völlum í Svarfaðardal þar sem rauður gamall traktor var við heimreiðina og falleg sumarblóm prýddu stéttina sem ekki höfðu látið á sjá eftir sólarleysið. Hjónin Bjarni og Hrafnhildur reka Litlu sveitabúðina í húsinu sem selur fjölda vara beint frá býli, ber, gæs, bleikju, ís, sultur og osta. Allt frá þeim eða nánasta nágrenni. Ég smakkaði gómsætu sulturnar þeirra og ísinn á meðan við áttum spjall um hvað betur mætti fara til að styðja við slíka framleiðslu og verslun. Dagurinn var bæði veisla fyrir bragðlaukana og nýjar hugmyndir.

Heimsóknin var hluti af dagskrá minni þegar ég var með skrifstofuna mína í Dalvíkurbyggð á dögunum. Þar kynntist ég nýju fólki og fyrirtækjum. Hélt opinn viðtalstíma, átti gott spjall við kennara og heimsótti rótgróin fyrirtæki og ný auk þess sem ég kynntist öflugustu hátæknivinnslu landsins. Ég sá spennandi áform og heyrði af áskorunum sem beinast að okkur stjórnvöldum.

Nú eru liðin tvö og hálft ár síðan ég ákvað að skrifstofa ráðherra sem og ráðuneytis þurfi ekki að vera bundin í Reykjavík – það þurfa ekki allir að koma suður! Störf eru auglýst óháð staðsetningu og ég hef fengið að hafa skrifstofuna mína á fjölbreyttum stöðum um land allt. Ég hef nú þegar farið í yfir tuttugu sveitarfélög á tveimur árum, kynnt mér og sýnt frá vinnukjörnum þar sem einstaklingar geta starfað óháð staðsetningu og reynt að ýta undir aukinn sveigjanleika ríkisins þegar kemur að staðsetningu starfa. Í lok árs verð ég búin að vera með skrifstofu mína í þrjátíu sveitarfélögum.

Við höfum einnig átt samtal við allar stofnanir ráðuneytisins um að tryggja þann sveigjanleika og auglýsa fleiri en færri störf óháð staðsetningu. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu með því að störf hjá ríkinu séu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.

Fátt er mikilvægara fyrir stjórnmálamann en að heyra beint frá fólki hvað á því brennur og hvar við getum gert betur. Ég fæ innblástur frá fólki sem ég hitti – um allt land – en ég verð mest agndofa þegar ég sé hvernig það getur sjálf leyst sín mál – og annarra – ef kerfið stendur ekki í vegi fyrir því. Hver einasti staður sem ég hef heimsótt hefur tekið mér ótrúlega vel og það er dýrmætt að fá að kynnast lífi og störfum fólks víðs vegar um landið okkar betur.

Ég er hvergi nærri hætt. Þessar heimsóknir hafa reynst ómetanlegar fyrir mig og skapað verðmæt tækifæri til að eiga samtal við íbúana sjálfa. Ég held áfram í haust og verð í Hveragerði mánudaginn 2. september næstkomandi.

Hlakka til að hitta ykkur um land allt.

Pistillinn „Það þurfa ekki allir að koma suður?” birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2024.