Flestar ríkisstjórnir eiga sína hveitibrauðsdaga enda fylgir því nokkur eftirvænting þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum. Ráðherrar eru skipaðir, stjórnarsáttmáli og stefnuyfirlýsing er kynnt, ríkisráð fundar á Bessastöðum – allt vekur þetta athygli og um leið forvitni um það sem fram undan er.
Áherslur þeirrar vinstri stjórnar sem nú er að taka við völdum voru kynntar í fyrradag. Þær áherslur eru nokkuð almennar og í raun í litlu samræmi við áherslur þeirra þriggja flokka sem nú mynda ríkisstjórn eins og þær voru kynntar í nýafstaðinni kosningabaráttu. Að einhverju leyti er það nú samt ágætt, Samfylkingin gaf hugmyndir sínar um víðtækar skattahækkanir eftir og óraunhæfar hugmyndir Flokks fólksins um skattlagningu á lífeyrisþega koma ekki fyrir í stefnuyfirlýsingu, svo tekin séu dæmi. Þá hafa flokkarnir náð lendingu þegar kemur að umsókn um aðild að Evrópusambandinu, sem felur í sér að það á að sækja um aðild síðar þó ríkjasambandið glími nú við fleiri vandamál en nokkurn tímann áður. Það mætti tína til fleiri atriði úr stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar sem kalla fram fleiri spurningar en svör, en það mun auðvitað reyna á þetta allt saman á næstu vikum og mánuðum.
Eitt er það þó sem rétt er að víkja að strax. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að ríkisstjórnin ætlar að valda óvissu meðal tveggja af meginstoðum hagkerfisins, í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, með því að gefa út óljós skilaboð um aukna skattheimtu. Að því leytinu til er Viðreisn eins og aðrir vinstri flokkar, flokkur sem treystir á að verðmætasköpunin verði til hjá hinu opinbera og hefur horn í síðu þeirra sem hafa náð árangri í atvinnulífinu.
Sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan þurfa ekki, frekar en aðrar atvinnugreinar, á óvissu að halda. Reynsla síðustu ára ætti að hafa kennt okkur að það er ekkert sjálfgefið þegar kemur að þessum mikilvægu atvinnugreinum.
Ferðamennirnir koma ekki hingað til lands af sjálfu sér, þá þarf að sækja með öflugri markaðssetningu og kynningu – og þá þurfa að liggja fyrir fjárfestingar af hálfu einkaaðila í hótelum, afþreyingu og öðru. Að sama skapi liggur ekkert fyrir um árangur af fiskveiðum (þar nægir að horfa til loðnubrests síðustu ára) auk þess sem Ísland á í harðri samkeppni við mun stærri þjóðir um sölu og markaðssetningu á sjávarafurðum.
Þó það kunni að hljóma fjarstæðukennt í eyrum margra stjórnmálamanna, þá er það ekki löstur á atvinnugreinum að ná árangri, skila hagnaði, búa til verðmæti, fjárfesta í nýsköpun og svo framvegis. Um leið og það er sjálfsagt að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum, þá er rétt að minna á mikilvægi þess að styðja í raun og veru við öflugt atvinnulíf. Við þurfum meira á því að halda heldur en það á okkur.
Að því sögðu óska ég landsmönnum öllum gleðilegra jóla og mikillar farsældar á nýju ári.
Pistillinn ,,Óþarfa óvissa fyrir atvinnugreinar" birtist í Morgunblaðinu 23. desember 2024.