Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi skapað umræðu um þau ómældu tækifæri sem eru til hagræðingar hjá hinu opinbera. Það má hrósa fyrir það sem vel er gert. Fæstar hagræðingartillögur hafa þó á liðnum árum fengið stuðning meirihluta þingsins. Sá dapri veruleiki blasir við skattgreiðendum að meirihluti þingmanna vill fremur auka útgjöld en auka skilvirkni í rekstri ríkisins. Samfylkingin og Flokkur fólksins, sem nú sitja í ríkisstjórn, gagnrýndu fyrri ríkisstjórnir harðlega, og okkur sjálfstæðismenn sérstaklega, fyrir að ráðast ekki í aukin útgjöld. En batnandi mönnum er best að lifa – einnig stjórnmálamönnum. Ég hef alltaf talið það eina af grunnskyldum þingmanna að tryggja að vel sé farið með sameiginlega fjármuni og að rekstur ríkisins sé skilvirkur og hagkvæmur. Þess vegna mun ég styðja allar góðar tillögur um hagræðingu, minni ríkisumsvif og betri þjónustu hins opinbera. Á hverjum degi frá 5. janúar hef ég birt a.m.k. eina hagræðingartillögu sem ríkisstjórnin getur nýtt. Þrátt fyrir fortíð og útgjaldagleði stjórnarflokkanna vona ég að ríkisstjórnin standi við fyrirheit um sparnað, einfaldari stjórnsýslu og sameiningu stofnana. Hér eru nokkur dæmi um tillögur sem ég hef lagt fram um hagræðingu, sparnað og aukna skilvirkni í ríkisrekstri:
- Breytingar á lögum um réttindi opinberra starfsmanna
- Innleiðing sjálfvirkni hjá opinberum aðilum
- Innleiðing verklags nýsköpunarráðuneytis, minni yfirbygging, engir starfshópar og færri fundir
- Útgjaldaregla sett á
- ÁTVR lagt niður
- Hert löggjöf um þá sem sækja hér um alþjóðlega vernd og landamærin tryggð
- Einföldun regluverks og afnám gullhúðunar
- Útboðsferlar heilbrigðiskerfisins einfaldaði og boðnar út fleiri verkefni, fé fylgi sjúklingi og innleidd nýsköpun og tæknilausnir
- Umfang RÚV minnkað, Fjölmiðlanefnd lögð niður, felldir niður styrkir til einkarekinna fjölmiðla og þeim búið betra umhverfi
- Sala Íslandspósts og útboð alþjónustu
- 75 sjóðir sameinaðir í 5
- Sameining Samkeppniseftirlitsins, Fjarskiptastofu, Neytendastofu og neytendahluta Fjölmiðlanefndar
- Sameining nefnda ríkisins, úrskurðar og kærunefnda, afgreiðslu og eftirlitsnefnda, stjórna og ráðgefandi nefnda, sem eru nú 384
- Niðurfelling lagaskyldu um jafnlaunavottun
- Sameining háskóla
- Stóraukin innleiðing íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á sviði hins opinbera
- Sameining Persónuverndar, Jafnréttisstofu, Umboðsmanns barna og Mannréttindastofnunar
- Stórlækkuð ríkisframlög til stjórnmálaflokka og svigrúm þeirra til að standa á eigin fótum aukið
- Niðurfelling ráðstöfunarfjár ráðherra
Tillögurnar hef ég sent í samráðsgátt stjórnvalda með nánari útskýringum og útfærslum. Allt er þetta hægt ef það er raunverulegur vilji til hagræðingar. Þá mun það ekki standa á okkur Sjálfstæðismönnum að styðja slíkt.
Pistillinn ,,Ein hagræðingartillaga á dag" birtist í Morgunblaðinu 24. janúar 2025.