Við ræðum of oft um skatta út frá þörfum hins opinbera í stað þess að ræða um hvaða svigrúm þeir hafa sem greiða skattana, sem eru bæði einstaklingar og fyrirtæki. Sumir stjórnmálamenn kynna með reglubundnum hætti ýmis verkefni sem þeir ætla að ráðast í, gjarnan kostnaðarsöm verkefni, og þegar talinu víkur að því hvernig þeir ætli sér að fjármagna þau er niðurstaðan ofter en ekki sú að það eru skattgreiðendur sem að lokum fá reikninginn.
Við sáum keim af þessu í aðdraganda síðustu kosninga, þar sem Samfylkingin lagði áherslu á að loka hinu svonefnda ehf-gati, en þannig taldi Samfylkingin að bæta mætti afkomu ríkissjóðs um ákveðna upphæð. Þeir sem áttu síðan að loka gatinu voru einyrkjar, iðnaðarmenn og smærri atvinnurekendur. Nokkuð sem kallar á aukið eftirlit, fleiri ríkisstarfsmenn og aukinn kostnað – en allt er það svo sem í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar.
Það má vel vera að Samfylkingunni finnist það eftirsóknarvert að stækka báknið og ráða fleiri til að fara yfir nóturnar hjá iðnaðarmanninum til að athuga hvort að skórnir, verkfærin, síminn og fleira sé ekki örugglega réttlætanlegur hluti af rekstrinum. Við ættum þó frekar að ræða það hvernig við tryggjum að fleiri iðnaðarmenn stofni til reksturs og hvernig við getum auðveldað þeim að stofna fyrirtæki, einfaldað rekstrarumhverfið og minnkað reglugerðafarganið.
Þetta má auðvitað heimfæra á fleiri en iðnaðarmenn. Það á að vera eftirsóknarvert að stofna fyrirtæki á Íslandi, hvort sem það er í iðnaði, þjónustu, ráðgjöf, framleiðslu, heildsölu o.s.frv. Það er stundum ágætt að staldra við og horfa á hagkerfið, og reyndar samfélagið í heild, út frá fólkinu og fyrirtækjunum en ekki ríkinu. Það er ekkert ríki án fólksins og það er enginn ríkissjóður án fyrirtækjanna sem skapa verðmætin.
Við þekkjum það hvernig sumir stjórnmálamenn tala um einstaka atvinnugreinar og vilja þeirra sömu stjórnmálamanna til að leggja á aukna skatta. Það er þó ljóst að við þurfum að lækka skatta, einfalda regluverk og lækka tryggingagjald þannig að það sé auðveldara að ráða starfsmenn. Þá liggur alveg fyrir að þær upphæðir sem eru settar fram sem viðmið um reiknað endurgjald eru langt frá því að vera í samræmi við raunverulega stöðu fyrirtækja, þá sérstaklega þeirra sem hafa nýlega hafið starfsemi.
Hið ímyndaða ehf-gat er ekki vandamál. Það er hins vegar vandamál hversu mörgum finnst erfitt að reka fyrirtæki á Íslandi, hversu langt hið opinbera teygir sig í skattheimtu og reglugerðum, hversu þungur eftirlitsiðnaðurinn er orðinn og hversu háa skatta við innheimtum.
Þessu þurfum við að breyta, ekki í þágu ríkissjóðs eða stjórnmálanna heldur í þágu smærri fyrirtækja því þau eru grunnstoð atvinnulífsins, skapa störf og stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, nýsköpun og öflugra samfélagi.