Kæru vinir og félagar.
Kæru sjálfstæðismenn.
Mikið er gaman að sjá ykkur öll hér í dag.
Þegar ég lít yfir salinn, þá verð ég fullviss um að Sjálfstæðisflokkurinn eigi bjarta framtíð.
Af því hér er fólk komið saman úr ólíkum áttum, úr öllum kjördæmum, ungir og eldri, reynsluboltar og glænýtt fólk, landsbyggð og höfuðborg, öll með fjölbreytta reynslu í farteskinu.
Því hvað er stjórnmálaflokkur annað en fólk sem sameinast um hugsjónir?
Stefnan lifir ekki án fólksins.
Og við erum svo heppin að hafa hvort tveggja.
En við höfum líka tekist á - ég sá fljótt styrkleika okkar í því að fólk tókst á og á landsfundum fór fram samkeppni hugmynda - og stundum hörð skoðanaskipti innan flokksins - en þau leystu úr læðingi pólitískan kraft og samheldni sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa hvorki skilið né upplifað.
Mér er hugsað til þess þegar ég sé fólk hér sem hefur stundum tekist á og sumir reyna að stilla upp í ólíkar fylkingar.
Pólitískum andstæðingum okkar leiðist það ekki. En við eigum ekki að láta þá koma upp á milli okkar!
Líkt og við megum ekki heldur leyfa pólitískum mótherjum að skilgreina okkur, skilgreina stefnu okkar og hugsjónir.
Þegar ég lít hér yfir salinn og hugsa til þeirra verkefna sem við eigum fyrir höndum, sannfærist ég enn betur um mikilvægi þess að við stöndum saman í baráttunni - sem snýst um grunnstef sjálfstæðisstefnunnar.
Sem minnir mig nú á þegar ég kynntist vini mínum fyrir 15 árum, sem er tíu árum eldri en ég, úr MR og hann var á þessum tíma orðinn sagnfræðingur - í grunninn eins ólíkur mér og hægt er - og á þeim tíma var ég rétt nýbúin í Verzló. Ég var stuttu seinna veislustjóri í brúðkaupinu hans - þar sem hann var með gjafaóskalista úr NEXUS!
Við gætum eiginlega ekki verið ólíkari. En af hverju er ég að segja ykkur þessa sögu?
Jú af því við kynntumst í Sjálfstæðisflokknum og ég áttaði mig á því að við þurftum bara að eiga eitt sameiginlegt,
Okkar einlægu trú á sjálfstæðisstefnunni.
Þið eigið sennilega mörg hér svipaða sögu
Ég er hér í dag vegna þess að ég trúi á þessa stefnu.
Kannski er það vinstri mönnum að þakka að ég stend hér. Ég hreifst nefnilega af stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar vinstri stjórnin var við völd eftir hrun. Það var augljóst fyrir mér, eins og mörgum fleirum, að vinstri var ekki svarið, ekki þá og ekki nú.
Svarið við vandamálum þess tíma var ekki þetta dyrabjölluat í Brussel, skattahækkanir á fólk og fyrirtæki, vonlaus vegferð með nýja stjórnarskrá. Vantraust á einkaframtakinu og enginn skilningur á því að nýsköpun og framtakssemi einkennir einkamarkaðinn, ekki hið opinbera.
Það sama á við nú, þegar á að taka upp ýmis hugðarefni gömlu vinstristjórnarinnar, þá er þessi nýja ríkisstjórn ekki heldur með svarið. Ég verð þó að hrósa henni fyrir að gera sér grein fyrir því og biðja um aðstoð.
Ég tók enda glöð þátt í því og hef sent henni nokkrar hagræðingartillögur.
…Þar er af nægu að taka.
En hver er þessi stefna sem ég hreifst svona af?
Sjálfstæðisstefnan sem byggir á frelsi einstaklingsins.
Frelsi til að velja.
Frjálsu markaðshagkerfi og minna ríkisvaldi.
Stefna sem gerir fólki kleift að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði, gerir því auðveldara að reka fyrirtæki og búa til verðmæti.
Stefna sem ýtir undir alþjóðaviðskipti og samstarf en gætir jafnframt að fullveldi þjóðarinnar.
Stefna sem tryggir fólki jöfn tækifæri um leið og hún leggur grunninn að öflugri velferð.
Við viljum tryggja innviði, til að fólk og fyrirtæki geti upplifað öryggi og traust.
Þetta er sjálfstæðisstefnan, sem við vinnum eftir.
Eins og við vitum öll hér, er hornsteinn hugmyndafræði okkar rétturinn til að ráða sínu eigin lífi og um leið skyldan til að virða rétt annarra til hins sama. Við virðum hvort tveggja en andstæðingar okkar eru oft uppteknari af eigin réttindum og skyldum annarra.
Kæru félagar.
Því miður höfum við séð það gerast að smám saman hefur þráðurinn trosnað á milli flokksins okkar og þeirra framtakssömu einstaklinga sem leggja allt undir til að skapa og búa til ný tækifæri.
Ég vil að flokkurinn verði Á NÝ skýr og ótvíræður málsvari minni atvinnurekenda og framtakssamra einstaklinga. Við viljum verðlauna dugnað. Við þurfum að láta atvinnurekendur í friði - en ekki íþyngja þeim með regluverki og álögum.
Okkar hlutverk, sjálfstæðismanna um allt land, er að vera öflugir málsvarar stefnunnar okkar, miðla henni til allra kynslóða og ná aftur til fólks, þar á meðal okkar fólks, sem farið hefur annað því það telur sig ekki finna lengur samastað í gamla flokknum sínum.
Ísland er á krossgötum, en það er Sjálfstæðisflokkurinn líka.
Flokkur sem vill vera leiðandi afl í samfélaginu þarf að vita hvaða erindi hann á. Hann þarf að þekkja á hverju hann byggir - en líka hvert hann ætlar. Við þurfum að vera miklu betur undirbúin fyrir framtíðina.
Ég veit að við erum sammála um að Sjálfstæðisflokkurinn getur gert miklu, miklu betur.
Og við megum engan tíma missa!
Og þá gildir einu hvort við lítum til landsmálanna, sveitarstjórna eða flokksins sjálfs.
Það þurfti sem fyrr segir ekki langan tíma undir stjórn vinstrimanna á eftirhrunsárunum til að minna fólk á hvers vegna slíkar stjórnir eru sjaldan myndaðar.
Og nú erum við með samskonar stjórn og eftir hrun. Tveggja flokka vinstristjórn. Með þessum tveimur flokkum eru líka einhvers konar félagasamtök, sem reyndar stefna að því að skrá sig sem stjórnmálaflokk fyrr eða síðar.
Þing er ekki hafið og það er strax farið að bera á brestum í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það hlýtur að vera Íslandsmet.
Og Samfylkingin ætlar að hækka skatta, en ekki á „venjulegt fólk”. Væntanlega þá bara á óvenjulegt fólk… eins og hárgreiðslufólk og iðnaðarmenn. 🙂
Viðreisn segist ekki vilja hækka skatta, en þau eru að sjálfsögðu mætt til Brussel.
Þar er þeim vel tekið, enda allir spenntir fyrir íslenskum auðlindum. Þjóðin er ekki alveg jafn spennt, enda voru kjósendur ekki upplýstir um að þetta hafi í raun verið;
STÓRA PLANIÐ.
Það má gera grín að ríkisstjórnarflokkunum - og oft er full ástæða til, en fullveldi þjóðarinnar er ekkert grín. Við erum ekki að fara að fórna sjálfsæði okkar, auðlindum og landamærum.
Kæru vinir.
Það er stutt í næstu kosningar. Þá er ég ekkert endilega að tala um skammlífa ríkisstjórn, þótt ég útiloki svo sem ekkert í þeim efnum, heldur er ég að tala um aðrar kosningar, ekki síður mikilvægar.
Sveitarstjórnarkosningar eru eftir rúmt ár. Þar reynir á að tryggja góðan árangur Sjálfstæðisflokksins, því það skilar betri árangri fyrir sveitarfélögin, betri árangri fyrir fólkið sem þar býr.
Reykjavík, sem lengst af var stolt okkar allra undir styrkri stjórn Sjálfstæðisflokksins, líður nú fyrir fjölflokka vinstrimeirihluta. Þess vegna leitar ungt fjölskyldufólk í borginni nú að húsnæði í sveitarfélögunum sem stýrt er af okkar frábæra sjálfstæðisfólki í Kraganum.
Það er löngu ljóst að við, Sjálfstæðisflokkurinn, verðum að leggja allt undir til að borgarbúar fái þá borgarstjórn og þann borgarstjóra sem þeir eiga sannarlega skilið og þurfa á að halda.
Verkefnið er brýnt, við eigum að vera öflugri málsvarar sjálfstæðisstefnunnar, við eigum að leiða sterka stjórnarandstöðu gegn nýrri ríkisstjórn, við eigum að fara sterk og samheldin inn í sveitarstjórnarkosningar og við eigum að leiða Reykjavík að nýju.
Við eigum líka að líta inn á við, sameinast um verkefnið framundan, og gera tímabærar breytingar á flokksstarfinu til að laða að miklu stærri hóp, þora að stíga inn í framtíðina, nýta fólkið okkar og sætta ólík sjónarmið. (Og ekki gleyma því að hafa gaman í leiðinni)
Ekki síst þurfum við að tala meira við fólkið í landinu og hlusta á hvernig við getum gert betur.
Kæru vinir.
Ég var ung þegar ég fór í gegnum erfiða reynslu sem leiddi til þess að málefni samfélagsins fönguðu hug minn allan. Ég áttaði mig á því að það þýðir ekki að sitja hjá og bíða eftir að hlutir gerist.
Tækifæri og tímamót koma reglulega upp í lífinu en í daglegu amstri látum við þau stundum líða hjá. Finnum afsakanir fyrir því að nú sé ekki rétti tíminn til að láta á reyna.
En reynslan kenndi mér að þegar tækifærin banka upp á þá skiptir öllu máli að grípa þau með báðum höndum og af öllu hjarta <3 .
Með það að leiðarljósi hef ég gefið mig alla í verkefnin sem mér hefur verið trúað fyrir.
Ég hef sóst eftir embættum sem sumir sögðu að ég ætti ekkert með að sækjast eftir. Dæmi um það er að þegar ég fór í mitt fyrsta prófkjör - árið 2016 - og ákvað að sækjast eftir öruggu þingsæti, þá var sagt við mig með efasemdartón:
Er ekki betra að bíða?
Það sama var sagt þegar ég óskaði eftir oddvitasæti í Reykjavík.
Sömu efasemdaraddirnar komu fram, ekki síst þegar ég sagðist treysta mér að setjast við ríkisstjórnarborðið og í stól dómsmálaráðherra.
Jafnvel góðir vinir mínir (og AMMA Mín) sem vildu mér bara vel - hvísluðu að mér að leggja ekki allt undir heldur bíða aðeins lengur.
Eftir 5 vikur er komið að því að flokkurinn velji sér nýjan formann. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins til rúmlega 15 ára, tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri og mun nú kveðja þann vettvang sem stjórnmálin eru.
Ég dáist að þrautseigju hans og krafti, og ég veit að hann mun áfram verða reiðubúinn til skrafs og ráðagerða fyrir flokkinn.
Um leið og ég þakka Bjarna allt það dýrmæta traust sem hann hefur sýnt mér á liðnum árum sendi ég honum góða kveðju - reyndar afmæliskveðju því hann á afmæli í dag - og þakka honum fyrir mikilvæg og vel unnin störf í þágu lands og þjóðar!
Um leið þakka ég Þórdísi Kolbrúnu, fyrir ómetanlegt samstarf í tveimur ríkisstjórnum og í því hlutverki sem hún hefur gegnt sem varaformaður flokksins. Hún hefur sinnt því starfi við erfiðar aðstæður og vaxið við hverja raun. Hún hefur verið einstakur fulltrúi lands og þjóðar á alþjóðavettvangi - vakið athygli hvar sem hún kemur.
Ég veit að þó að hún hafi nú ákveðið að gefa ekki kost á sér til forystu á landsfundi þá mun Sjálfstæðisflokkurinn áfram njóta krafta hennar - og hún mun áfram verða sú mikla fyrirmynd sem hún hefur verið mér og öðrum. Að deila svipaðri reynslu með henni hefur verið mér ómetanlegt.
Þúsund þakkir elsku vinkona!
Kæru vinir.
Nú, áratug eftir að ég helgaði mig stjórnmálunum og Sjálfstæðisflokknum, stend ég hér sem þingmaður til níu ára sem hefur gegnt tveimur ráðherraembættum.
Á meðan segja einhverjir enn – en blessunarlega eru þeir nú fáir – að það væri betra að bíða.
En ég get sagt af fullri alvöru:
Á þessari stundu hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki tíma til að bíða.
Við getum ekki frestað framtíðinni!
Við sjálfstæðismenn og raunar þjóðin öll, megum engan tíma missa. Á meðan núverandi stjórn er við völd, á meðan borgin er rekin á yfirdrætti, þegar flokkurinn þarf mest á því að halda að fá nýjan kraft og þegar erindið hefur aldrei verið brýnna - getum við ekki beðið!
Tíminn er núna! Tækifærið er núna!
Kæru vinir,
Það er þess vegna
Sem ég býð mig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins.
Þið sem þekkið mig vitið að ég er í stjórnmálum af ástríðu – ég nýt þess að eiga samskipti við fólk og nýt þess að kynnast lífi þess og störfum um land allt, eiga samræður og skoðanaskipti – og fátt er meira gefandi en að verða vitni að því þegar hugsjónum er hrint í framkvæmd – oft eftir áralanga baráttu.
Okkar sjálfstæðismanna bíður mikilvægt verkefni; að endurnýja sambandið við kjósendur og sækja nýjan kraft til að byggja flokkinn okkar upp. Kjósendur þurfa að skynja að við tölum frá hjartanu – við erum öll í þessu af ástríðu og sannfæringu.
Og ég segi við ykkur kæru vinir.
Ástríða og sannfæring, með frelsið í farteskinu, er besta uppskriftin að árangri í stjórnmálum.
Ég trúi á Ísland og þau tækifæri sem við höfum til að gera samfélagið okkar enn betra. Ef Ísland á að halda stöðu sinni sem framsækið land, land tækifæranna, þá verður Sjálfstæðisflokkurinn að vera þar í forystu
Ég ætla ekki að gefa mörg og stór loforð - en ég heiti ykkur því, að nái ég kjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins, mun ég leggja mig alla fram og virkja hvern einasta flokksmann til verka við að móta stefnuna og hrinda hugsjónum í framkvæmd.
Þetta gerir enginn einn. Breytingarnar sem þurfa að eiga sér stað, geta aðeins orðið með þátttöku ykkar allra og allra þeirra sem vilja vera hluti af næsta blómaskeiði Sjálfstæðisflokksins.
Þess vegna hef ég trú á verkefninu, vegna þess að við höfum stefnuna og við höfum fólkið í flokknum. Á ferðum mínum um landið allt, síðan ég var ritari fyrir áratug og svo sem þingmaður og ráðherra hef ég fundið fyrir því hvað við eigum öflugt fólk, í sveitastjórnum, grasrótinni, í fjölbreyttum störfum og með mikilvæga reynslu - á öllum aldri.
Ég hlakka til að fara aftur af stað um landið og hitta ykkur á næstu vikum.
Kæru vinir,
Ég læt það vera mín lokaorð hér í dag að fái ég til þess ykkar stuðning og traust þá er ég tilbúin til að standa í brúnni hjá leiðandi stjórnmálaafli sem blæs einstaklingum byr í brjóst.
Til að svo megi verða þá þurfum við að breyta. Hleypa fersku lofti inn.
Þétta raðirnar og sameinast undir merkjum sjálfstæðisstefnunnar.
Við þurfum að öðlast nýjan kraft!
Það er ekki eftir neinu að bíða!
Eg er tilbúin að leggja allt undir.
Gerum miklu, miklu betur fyrir fólkið, flokkinn og landið okkar.