ÁHERSLUR

LAND TÆKIFÆRANNA

Heimurinn hefur tekið miklum breytingum á liðnum áratugum. Við vitum ekki hvernig breytingarnar munu þróast en við vitum að þær verða. Þess vegna þurfum við að vera tilbúin og óhrædd að takast á við framtíðina. Hér á síðunni má finna áherslur mínar í stjórnmálum sem ég mun bæta við í baráttunni.

ÖFLUGT MENNTAKERFI

Lífsgæði okkar til frambúðar byggjast á því að menntakerfið hér á landi sé framúrskarandi. Þannig byggjum við grunn undir framtíðina. Ungt fólk á Íslandi þarf að standa jafnfætis jafnöldrum sínum erlendis. Við viljum eiga þess kost að fara í sama framhaldsnám, sækja um sömu störf og hafa burði til að takast á við þau verkefni sem okkur eru falin.

Ég vil auka sveigjanleika í menntakerfinu á Íslandi, gefa ungu fólki aukið val um námsleiðir frá unga aldri og auka valfrelsi foreldra þegar kemur að því að velja skóla fyrir börnin sín.Ég vil líka leggja aukna áherslu á iðn- og tækninám. Ungt fólk á að eiga þess kost að velja sér spennandi nám við hæfi, hvort sem það er bóklegt háskólanám, tækninám eða iðnnám.

Á undanförnum árum höfum við séð fjölmörg ný störf verða til og önnur úreldast. Sú þróun mun halda áfram og við þurfum að undirbúa okkur og framtíðarkynslóðir til að takast á við hana.

Ég hef beitt mér fyrir því að horft sé til annarra þátta en stúdentsprófs við inngöngu í háskóla, enda eru fjölmargir aðrir þættir sem skipta máli við undirbúning háskólanáms, s.s. starfsreynsla, iðnmenntun og fleira.

Við þurfum einnig að byggja upp öfluga valkosti þegar kemur að endurmenntun þannig að fólk eigi þess kost að auka við hæfni sína síðar á starfsferlinum.

FJÖLBREYTT ATVINNULÍF

Fjölbreytt og öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar. Það er atvinnulífið sem býr til störf og verðmæti og við þurfum á því að halda til að byggja undir velmegun. Þegar við tölum um fjölbreytt og öflugt atvinnulíf erum við ekki eingöngu að tala um stór fyrirtæki, því við eigum líka að leggja áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki sem borga um það bil 70 prósent af launum í landinu.

Veitingastaðir, tæknifyrirtæki, bifvélaverkstæði og hárgreiðslustofa eru allt dæmi um fyrirtæki sem þurfa að fá að blómstra með sama hætti og stórverslanir, iðnfyrirtæki og bankar.

Stjórnmálamenn búa ekki til störf eða verðmæti. Þeir geta hins vegar búið til skýrar leikreglur og tryggt að aðstæður hér á landi séu með þeim hætti að fyrirtæki geti blómstrað. Það gerum við með lágum sköttum, regluverki sem er skýrt en ekki íþyngjandi, alþjóðasamningum og skilvirkni.

Við þurfum líka að byggja upp gott menntakerfi þar sem einstaklingar öðlast hæfni og getu til að takast á við fjölbreytt verkefni í atvinnulífinu.Hvort sem það er iðnaður, hugverk, nýsköpun eða þjónustustörf – þá þurfum við að skapa þau tækifæri þar sem það er eftirsóknarvert að hefja fyrirtækjarekstur og skapa ný störf. Það gerir Ísland að landi tækifæranna.

STERKT VELFERÐARKERFI

Við erum heppin að búa á Íslandi, velmegunarsamfélagi sem býður upp á gott velferðarkerfi. Með því að tryggja fjölbreytt og öflugt atvinnulíf fjármögnum við sterkt velferðarkerfi sem grípur þá sem þurfa á því að halda. Þeir sem glíma við örorku, þurfa á endurhæfingu að halda, treysta á lífeyrisgreiðslur af hálfu hins opinbera eða þurfa á viðeigandi aðstoð að halda sökum fötlunar eða annarra þátta – eiga að geta treyst því að geta lifað við góðar aðstæður.

Þannig eigum við að tryggja að greiðslur dugi til framfærslu án þess að draga úr hvata þeirra sem geta unnið að einhverju marki. Við eigum líka að fjölga möguleikum fólks til að bæta kjör sín, ýmist með því að bjóða upp á fjölbreytt úrræði við vinnu, tryggja endurhæfingarúrræði eða möguleika á menntun.

FRAMTAK OG HAGSÆLD EINSTAKLINGSINS

Allir eiga að njóta árangurs af erfiði sínu. Það á að vera auðvelt að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi.

Við eigum að nýta krafta einkaframtaksins til að auka hagsæld og lífsgæði á Íslandi. Með því að virkja íslenskt hugvit náum við að byggja upp tækni- og þjónustufyrirtæki, aukna þjónustu í heilbrigðiskerfinu, nýjar leiðir í menntamálum og þannig má lengi áfram telja. Við tryggjum hagsæld með því að halda sköttum lágum, með góðri efnahagsstjórn, öryggi og fjölbreytileika.

Það að njóta árangurs á ekki síður við um einstaklinga. Við tryggjum hagsæld með því að halda sköttum lágum, með góðri efnahagsstjórn, öryggi og fjölbreytileika.

Því meira svigrúm sem einstaklingar hafa til athafna því betur mun okkur reiða af sem þjóðfélag. Við eigum að treysta einstaklingum til að taka skynsamar ákvarðanir um líf sitt og halda afskiptum ríkisins í lágmarki.

AÐ NJÓTA ELDRI ÁRANNA

Samhliða aukinni þekkingu, þróun og tækniframförum hafa lífslíkur aukist verulega hér á landi. Við lifum lengur og við betri heilsu en áður. Það er mikilvægt að þeir sem lokið hafa starfsævinni hafi fjárhagslega burði til að eiga áhyggjulaust ævikvöld.

Við eigum að tryggja fjölbreytni og valmöguleika þegar kemur að rekstri öldrunar- og hjúkrunarheimila en einnig að styðja við heimaþjónustu þannig að fólk geti búið lengur heima.Við eigum einnig að bjóða upp á sveigjanleg starfslok þannig að fólk hafi möguleika á því að starfa lengur án þess að það hafi of neikvæð áhrif á lífeyrisgreiðslur.


SAMKEPPNISHÆFNI

Samkeppnishæfni er ekki bara tískuorð heldur mæling á því hversu gott er að lifa og starfa á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Þess vegna skiptir máli að Ísland sé samkeppnishæft á öllum sviðum.

ALÞJÓÐASAMSKIPTI

Mestu framfarir heimsins hafa átt sér stað á síðastliðnum 200 árum, samhliða auknum alþjóðasamskiptum og alþjóðaviðskiptum. Þessir þættir skipta okkur Íslendingar miklu máli, hvort sem horft er til menntunar, viðskipta, þjónustu eða ferðalaga. Við byggjum hagkerfi okkar á viðskiptum við önnur ríki, við sækjum menntun erlendis, við sækjum ýmsa þjónustu og viljum hafa kost á ferðalögum.

Allt þetta kallar á öflug og skilvirk alþjóðsamskipti, ekki bara samningum á milli ríkja heldur samskiptum milli menntastofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Við eigum því að leggja áherslu á alþjóðasamskipti og alþjóðaviðskipti með afnámi viðskiptahindrana.

HAGKVÆMT SKATTAUMHVERFI

Skatta á eingöngu að nýta sem tekjuöflunartæki fyrir hið opinbera til að fjármagna þau verkefni sem hið opinbera þarf nauðsynlega að sinna.


Búa á um hnútana svo skattaumhverfið á Íslandi laði að sér bæði einstaklinga og fyrirtæki. Ísland er sem stendur í 30. sæti af 36 ríkjum hvað varðar samkeppnishæfni skattkerfa. Þá er horft til skatta á fyrirtæki, skatta á einstaklinga, neysluskatta, eignarskatta og skatta á erlenda aðila. Ísland flokkast þannig sem háskattaríki sem skerðir verulega samkeppnishæfni okkar. Háir skattar eru til þess fallnir að fæla erlend fyrirtæki frá því að fjárfesta hér á landi og erlenda sérfræðinga frá því að starfa hér.

Hagkvæmt skattkerfi hefur líka jákvæð áhrif íslensk fyrirtæki og einstaklinga. Það hefur hvetjandi áhrif á nýsköpun, fjárfestingar og rekstur fyrirtækja og ýtir undir dugnað og atorku einstaklinga.

EINFALT REGLUVERK

Það á að vera einfalt að stofna fyrirtæki á Íslandi. Mikilvægt er að atvinnulífið búi við skýrar leikreglur. Lagaumhverfið má ekki vera of íþyngjandi af þeirri ástæðu að það eykur kostnað atvinnulífsins, sem hamlar fjölgun starfa, nýsköpun og fjárfestingu – og veikir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegu umhverfi. 

Ég vil að atvinnulífið hafi burði og getu til að þróast, fjárfesta og vaxa hér innanlands og á erlendum vettvangi þar sem það á við. Við höfum sem samfélag mikinn hag af því að atvinnulífið sé öflugt og hafi burði til að standa undir þeirri grunnþjónustu sem við veitum. 

OPIÐ SAMFÉLAG

Ég vil að Ísland sé opið þeim sem hingað vilja koma til að starfa eða stunda nám. Við þurfum að auðvelda útlendingum að fá atvinnuleyfi hér á landi og tryggja að Ísland sé eftirsóttur staður til að lifa og starfa á.

Það á líka að vera eftirsótt fyrir alþjóðleg fyrirtæki að starfa hér, senda sérfræðinga sína hingað til lands og fjárfesta í íslenskri atvinnustarfsemi – hvort sem er í mannauði, fasteignum eða fyrirtækjum. Til þess þarf skattkerfið að vera hagkvæmt og regluverkið einfalt.

TRAUST HAGKERFI

Til að tryggja samkeppnishæfni landsins þarf íslenskt hagkerfi að standa á traustum fótum. Til þess að svo sé er ábyrg hagstjórn ríkisins lykilatriði; að hér sé hagkvæmt að reka fyrirtæki, gjaldmiðillinn sé stöðugur og að ríkissjóði sem ráðstafað með skynsömum hætti.

Ísland stendur ekki vel að vígi í alþjóðlegum samanburði á samkeppnishæfni skattkerfis. Við þurfum því að gera umbætur á skattkerfinu til að tryggja öflugt atvinnulíf. Bæði einstaklingar og fyrirtæki þurfa að geta treyst því að skattaumhverfið sé hagkvæmt, að eignarrétturinn sé virtur og að efnhagsstjórn hér á landi sé góð. 


VALFRELSI

Við eigum að bjóða upp á aukið valfrelsi á öllum sviðum. Þannig náum við hvort í senn að bæta líf fólks og hagræða í rekstri hins opinbera.

VALFRELSI Í HEILBRIGÐISKERFINU

Heilbrigðiskerfið á fyrst og fremst að snúast um þá sem þurfa á því að halda, ekki kerfið sjálft. Við getum bætt heilbrigðiskerfið mikið með því að bjóða upp á aukið valfrelsi. Þannig getum við sparað fjármagn en það sem skiptir meira máli, við getum stórbætt þjónustu við þá sem þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda. Það hefur gefið góða raun að bjóða upp á aukið valfrelsi á heilsugæslum á Höfuðborgarsvæðinu og við eigum að horfa til þess að bjóða upp á aukið valfrelsi á fleiri sviðum.

Ég vil tryggja að einkaaðilar geti veitt aukna heilbrigðisþjónustu í samstarfi við hið opinbera. Heilusgæsla á Höfuðborgarsvæðinu hefur verið efld með aðkomu einkaaðila að þeim rekstri. Það sem skiptir mestu máli í því er að þjónusta við íbúa hefur stóraukist.

Við eigum að nýta sambærilega kosti á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar með hagsmuni þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda að leiðarljósi.

Fyrirséð er að breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og lífsstílssjúkdómar krefjast nýrrar nálgunar. Þróun undanfarinna ára hefur sýnt að heilbrigðiskerfið verður æ dýrara og stærra að umfangi.

Forvarnir og upplýsing skipta sköpum, auk innleiðingar tæknilausna. Mikilvægt er að innleiða nýsköpun inn í heilbrigðiskerfið.

VALFRELSI Á EFRI ÁRUM

Samhliða aukinni þekkingu, þróun og tækniframförum hafa lífslíkur aukist verulega hér á landi. Við lifum lengur og við betri heilsu en áður. Stór hluti öldrunarþjónustu er í dag veittur af einkaaðilum með góðum árangri. Við eigum að tryggja fjölbreytni og valmöguleika þegar kemur að rekstri öldrunar- og hjúkrunarheimila en einnig að styðja við heimaþjónustu þannig að fólk geti búið lengur heima. 


Það er mikilvægt að þeir sem lokið hafa starfsævinni hafi fjárhagslega burði til að eiga áhyggjulaust ævikvöld og njóti þeirrar þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Við eigum einnig að bjóða upp á sveigjanleg starfslok þannig að fólk hafi möguleika á því að starfa lengur án þess að það hafi neikvæð áhrif á lífeyrisgreiðslur.

VALFRELSI Í MENNTUN

Lífsgæði okkar til frambúðar byggjast á því að menntakerfið hér á landi sé framúrskarandi á öllum sviðum. Þannig byggjum við grunn undir framtíðina. Fjölbreytt rekstrarform hafa aukið fjölbreytni og valmöguleika fyrir nemendur og foreldra. Að sama skapi hefur fjölbreytt val um námsleiðir fjölgað möguleikum á endurmenntun og framhaldsmenntun.

Ég vil auka sveigjanleika í menntakerfinu á Íslandi, gefa ungu fólki aukið val um námsleiðir frá unga aldri og auka valfrelsi foreldra þegar kemur að því að velja skóla fyrir börnin sín.

SAMGÖNGUR OG INNVIÐIR

Óháð því hvort við viljum ferðast með bíl, strætó eða hjóli, þurfum við að hlúa þannig að samgöngukerfinu í heild sinni að hver og einn komist leiðar sinnar á áreiðanlegan, markvissan og fljótan hátt. Það eru lífskjör.

Sem kjörinn fulltrúi Reykvíkinga hef ég gert það að verkefni mínu að auka lífskjör og valfrelsi þeirra. Það er mikilvægt verkefni stjórnmálamanna að búa þannig í haginn að notendur samgangna njóti góðs af þeim fjárfestingum sem framkvæmdar eru. Fjárfesting upp á 120 milljarða króna til 15 ára í uppbyggingarverkefni samkvæmt samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu verður til bóta allra ferðamáta. Sáttmálinn felur í sér innspýtingu í vegaframkvæmdir, átak í uppbyggingu hjóla- og göngustíga auk þess að almenningssamgöngur í sérrými munu líta dagsins ljós.

Í byrjun febrúar var tveimur hnullungum velt úr stað í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrsta lagi var kynnt tillaga að Sundabrú sem tengja á Reykjavík betur við byggðina austan Elliðaárósa. Í öðru lagi voru fyrstu frumdrög að nýju hryggjarstykki í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu kynnt, Borgarlínunni. Hvoru tveggja eru grunnforsendur samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu en bæði Sundabrú og Borgarlína munu koma til með að hafa bein áhrif á daglegar ferðavenjur borgarbúa. Mikilvægt er að borgarbúar geti valið sér ferðamáta við hæfi.

Óháð því hvort við viljum ferðast með bíl, strætó eða hjóli, þurfum við að hlúa þannig að samgöngukerfinu í heild sinni að hver og einn komist leiðar sinnar á áreiðanlegan, markvissan og fljótan hátt. Það eru lífskjör. Það er verkefni kjörinna fulltrúa Reykjavíkur að halda áfram að vinna að auknum lífskjörum borgarbúa. Þannig höfum við jákvæð áhrif á samgöngur Reykvíkinga alla daga.


FORGANGSRÖÐUN

Ég vil halda umsvifum ríkisins í lágmarki enda á ríkið að hafa sem minnst afskipti af lífum okkar. Aftur á móti á ríkið að sinna þeim verkefnum sem það þó sinnir af kostgæfni og skilvirkni. Öll þjónusta ríkisins á að vera til þess fallin að einfalda líf fólks og fyrirtækja.

BETRI ÞJÓNUSTA OPINBERA

Stofnanir ríkisins eiga fyrst og fremst að vera þjónustustofnanir. Sem dómsmálaráðherra kynnti ég til að mynda nýja framtíðarsýn fyrir embætti sýslumanna um land allt.

Embættin eiga að veita framúrskarandi og nútímalega þjónustu. Það sama má segja um aðrar stofnanir. Þær eru til fyrir fólkið í landinu en ekki öfugt.

STAFRÆNAR LAUSNIR

Ég vil auka stafræna þjónustu ríkisins til á að vera hægt að muna og einfalda þannig líf fólks og fyrirtækja enn frekar. Við höfum stigið ákveðin skref til þess, ökuskírteini eru nú rafræn, við getum þinglýst kaupsamningum með rafrænum hætti og við eigum að stefna að frekari lausnum með þessum hætti.

Öll samskipti okkar við ríkið eiga að geta farið fram með stafrænum hætti.

EINFALT LÍF

Ríkið á að einfalda líf okkar, ekki flækja það. Öll þjónusta ríkisins þarf að vera skilvirk og veitt með hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja að leiðarljósi.

Þá á við um heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir, samskipti við opinberar stofnanir, leiðbeiningar til einstaklinga og fyrirtækja, skráningar og umsóknir og þannig mætti áfram telja.

BETRI NÝTING Á FJÁRMAGNI

Við þurfum að tryggja að ríkið veiti bestu mögulegu þjónustuna. Um leið þurfum við að spyrja okkur að því hvort að við séum að nýta það fjármagn sem veitt er í þjónustu ríkisins með réttum hætti, hvort hægt sé að hagræða enn frekar en veita um leið framúrskarandi þjónustu.

Stjórnendur ríkisstofnana mega aldrei líta svo á að skattgreiðendur séu endalaus uppspretta fjármagns heldur þurfa þeir að stefna að því að veita sem besta þjónustu miðað við það fjármagn sem þeim er falið.

EFLUM NÝSKÖPUN

Í mörgum tilvikum eru einkaaðilar betur til þess fallnir að veita þjónustu en ríkið. Það má taka dæmi um bifreiðaeftirlit, ýmsa heilbrigðisþjónustu, bankastarfsemi og þannig mætti áfram telja.

Með því að styðja við framtak einkaaðila búum við jafnframt til farveg fyrir frekari nýsköpun og þróun í þjónustu við almenning. Má þar nefna dæmi á borð við snjallapótekslausn Lyfju, Noona sem er íslenskt markaðstorg fyrir þjónustu og upplifanir, bankasnjallforritin Aur og Kass, og stöðumælasnjallausnir á borð við EasyPark og Parka.


FRAMFARIR

Það skeið sem við lifum nú í mannkynssögunni er það besta hingað til. Lífslíkur hafa aukist sem og menntun og hagsæld, við lifum lengur og við betri heilsu, fátækt hefur minnkað, samskipti aukist og þannig mætti áfram telja. Allt gerist þetta með auknum alþjóðasamskiptum, alþjóðaviðskiptum, tækniframförum og nýsköpun.

TÆKNIFRAMFARIR

Stjórnmálamenn leiða ekki tækniframfarir nútímans en þeir geta lagt sitt af mörkum til að tryggja frumkvöðlum og þeim sem vinna við tækniþróun farveg og hagsæld skilyrði til að þróa þekkingu sína og rekstur enn frekar.

Ég vil leggja mitt af mörkum í þeim efnum enda trúi ég því að við munum sjá enn frekari framfarir á næstu árum ef við höldum rétt á spilunum.

BETRI LÍFSGÆÐI

Við lifum lengur og við betri heilsu en við gerðum áður. Á sama tíma hefur okkur tekist að auka við menntun, við höfum náð fram auknu jafnrétti og fátækt hefur minnkað um allan heim.

Með því að einbeita sér að því sem skiptir raunverulega máli er kemur að lífsgæðum almennings geta stjórnmálamenn lagt sitt af mörkum til að bæta lífsgæðin enn frekar.

UMHVERFIS- OG LOFTSLAGSMÁL

Ferðalag okkar til móts við framtíðina byggist á getu okkar til þess að takast á við umhverfis og loftlagsmál. Þau eru ekki einkamál okkar einna sem nú lifum, heldur líka þeirra sem ókomnir eru. Samvinna allra er það sem gildir, enginn einn leysir vandann. Almenningur, fyrirtæki og stjórnvöld þurfa að taka höndum saman. Vilji til góðra verka er fyrir hendi, virkjum hann og verum hluti af lausninni, en ekki rót vandans. Við sem í stjórnmálum störfum verðum að skapa rými og hvata til þess að fólk geti lagt sitt af mörkum og flýtt fyrir nauðsynlegum og jákvæðum breytingum.

Þekkingin er til, við vitum hvað þarf að gera og hvernig hægt er að gera það. Og til að virkja fólk eru jákvæðir hvatar besta leiðin fram veginn. Það þarf hins vegar að gera öllum ljóst hvernig við hyggjumst ná markmiðum okkar. Förum okkur hægt í aukinni skattheimtu, drögum úr íþyngjandi aðgerðum, veitum fólki og fyrirtækjum færi á að fjárfesta í þágu loftslagsins.Hvað get ég gert fyrir umhverfið, er spurning sem allir ættu að spyrja sig að morgni dags. Hvað er ég að kaupa, hvaðan er það að koma, hvernig er það framleitt, af hverjum, hvernig kemst ég á milli staða. Allt snýst þetta um hegðun og viðhorf. Nauðsynlegar breytingar, eru forsenda blómlegra framtíðar fyrir okkur öll.

ORKUNÝTING

Með því að nýta þá orku sem til er í landinu hefur okkur tekist að stórauka lífsgæði hér á landi. Ísland er sér á báti þegar kemur að sjálfbærri orkunýtingu, hitaveitu og öðrum þáttum sem allir eru til þess fallnir að auka lífsgæði almennings og byggja upp öflugt atvinnulíf.

Við eigum að horfa til þess að gera orkuna sjálfa að útflutningsvöru og einnig þá þekkingu og reynslu sem við búum yfir.

ÁSLAUG ARNA

1. sæti