Í febrúar birtist við mig viðtal í Frjálsri verslun. Þar kom ég víða við í spjalli um stjórnmálin. Hér má lesa viðtalið í heild sinni:
Merkilegt hve frelsismálin mæta oft mikilli andstöðu
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eru upprennandi stjarna í íslenskum stjórnmálum. Hún er 25 ára, frjálshyggjukona og femínisti og hefur vakið athygli samherja sem mótherja fyrir málefnanlega rökræðu og aðlaðandi framkomu. Hún er ritari Sjálfstæðisflokksins og það er lagt að henni að fara í framboð. Sjálf talar hún um að yngja upp flokkinn og hressa hann við.
Texti: Gísli Kristjánsson Myndir: Geir Ólafsson
Áslaug Arna er ung sjálfstæðiskona og áberandi í umræðunni. Ef til vill sá ungliði í íslenskum stjórnmálum sem oftast kemur fram í fjölmiðlum. Hún sló í gegn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í fyrra með því bjóða sig óvænt fram til ritara og sitjandi þingmaður dró í kjölfarið framboð sitt til baka.
„Ég finn fyrir þrýstingi,“ segir hún um framboð til Alþingis, en bætir við að hún hafi ekki tekið ákvörðun enn. Það liggur á því aðdragandi kosninga er nokkuð langur á Íslandi með prófkjörum í upphafi. Frambjóðandi verður að berjast fyrir opnum tjöldum við félaga sína fyrir sæti á lista.
Áslaug er í meistaranámi í lögfræði við Háskóla Íslands – markmiðið er að ljúka námi á næsta ári – og hún viðurkennir að áætlanir um nám falli illa að prófkjörsslag og kosningabaráttu.
Ekki kynjaskipt flokksstarf
Áslaug er á leiðinni upp innan Sjálfstæðisflokksins og er þá ekki eðlilegt að hún feti í fótspor annarra sjálfstæðiskvenna, fari rétta leið, og leiti eftir forystuhlutverkum í flokksfélögum kynsystra sinna? Hvað með framboð til formanns i Hvöt, hinu gamalgróna félagi sjálfstæðiskvenna í Reykjavík?
„Nei, ég hef ekki hugsað mér að bjóða mig fram til formennsku þar,“ segir Áslaug og hlær greinilega innra með sér. Átti ef til vill von á spurningunni.
„Þessi skipting, sem var, hafði mikla sögulega þýðingu fyrir flokkinn en þetta er liðin tíð. Skipting í flokksfélög eftir kyni er ekki lengur það sem stjórnmál ganga út á. Ég vil starfa almennt á vettvangi flokksins óháð kyni,“ segir Áslaug.
Ertu þá femínisti?
„Já, ég er femínisti. Ótvírætt femínisti,“ svarar hún hiklaust.
Femínismi og frjálshyggja fara saman
„Í mínum huga fjallar femínismi um jafnrétti kynjanna. Það að vera femínisti er ekkert flóknara en það,“ segir hún enn fremur. En hún hefur ekki í hyggja að bylta skipulagi flokksins þótt hún sé komin þar í stjórn og hafi ótvíræð völd og áhrif í flokknum; það kom ótvírætt fram í sigri ungliðanna á landsfundi í fyrra. Hún er málsvari hinna ungu sem vilja breyta flokknum – en ekki endilega leggja niður gömul og gróin flokksfélög.
„Femínismi fjallar um að tryggja jafnan rétt allra, karla og kvenna. Launamisréttið er þar eitt mikilvægt atriði,“ segir Áslaug.
En – gríp ég fram í – en hvað með frjálshyggjuna? Rekast ekki frjálshyggja og femínismi á?
„Það er nú eins með frjálshyggjuna og femínismann að andstæðingarnir reyna að klína á þessar stefnur einhverju öðru en þær standa fyrir. Frjálshyggja og femínismi rekast ekki á að mínu viti. Ég sé ekki að ríkisrekstur tryggi launajafnrétti. Þar standa einkafyrirtækin sig betur. Og ég sé ekki að kynjakvótar í atvinnulífinu skili konum jafnrétti. Það er betra að keppa á jafnréttisgrundvelli á frjálsum markaði. Frjálshyggjan leggur áherslu á að einstaklingurinn fái að njóta sín, óháð kyni, aldri, litarhætti eða trú. Þess vegna eru allir frjálshyggjumenn femínistar en það eru ekki allir sem kalla sig femínista frjálshyggjumenn. Frjálshyggjan leggur áherslu á jafnrétti og jafnræði allra, berst gegn forréttindum,“ segir Áslaug.
Hún er því bæði frjálshyggjukona og femínisti.
Virkar þungur og gamall
Kynjaskipting í flokkstarfinu er heldur ekki stefna Áslaugar og hún hikar aldrei í viðtölum við að segja að hressa þurfi uppá flokkinn. Hún talar um að gera hann nútímalegri. Flokkurinn virki þungur og gamall. Það á reyndar við um stjórnmál landsmanna yfirleitt.
„Fyrir okkur er þetta spurning um að koma málefnunum á framfæri en ekki að skipta um stefnu,“ segir Áslaug.
Breyttar aðstæður
Við tölum í framhaldi af þessu um það sem áður gerði Sjálfstæðisflokkinn aðlaðandi fyrir fólk. Aðlöðun er gamalt hugtak – affiliation á ensku – og náðist m.a. í gegnum skipulegt flokkstarf með félagsfundum og hlutverkum fyrir alla í flokksstarfinu – alveg frá því að skafa mótatimbur í Valhöll til þess að munnhöggvast við kommúnista.
Þetta starf skipti marga miklu máli og laðaði fólk að flokknum en nú virðist sem kjósendur séu uppteknir af öðru. Það er svo margt annað sem laðar fólk að sér. Og þá þarf að breyta starfsaðferðum.
„Ungt fólk horfir öðrum augum á heiminn en áður. Heimurinn er orðinn aðgengilegri og opnari. Því þarf að breyta starfsaðferðunum,“ segir Áslaug. „Það þarf að ná til fólks með öðrum hætti en var þegar skipulegt flokksstarf skipti mestu. En auðvitað skiptir öflugt innra starf miklu og almennir flokksmenn verða að geta treyst því að kjörnir fulltrúar hlusti og taki mark á því sem sagt er. Fólk sem tekur þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins – jafnt ungir sem þeir eldri – gera það til að hafa áhrif og eiga kost á því að taka þátt í að móta samfélagið. “
Litlu frelsismálin
Áslaug talar um að ímynd og einstök málefni skipti meira máli en áður – líka „litlu frelsismálin“ sem hún kallar svo.
„Stjórnmálamenn verða að vera trúverðugir og traust forysta í stjórnmálaflokki skiptir gríðarlega miklu máli. Kjósendur vilja samsama sig við frambjóðendur. Það þarf að fara milliveg og ræða „stóru málin“ í bland við „litlu frelsismálin“ sem eru ekki síður mikilvæg,“ segir hún og á þar við mál eins og t.d. sölu á áfengi í matvörubúðum.
„Annars finnst mér merkilegt hve frelsismálin mæta oft mikilli andstöðu. Þeim er fundið allt til foráttu. Þegar tekist var á um hvort leyfa ætti áfengan bjór var því haldið fram að unga fólkið yrði í stórkostlegri hættu, legðist í óreglu og myndi missa tökin á tilverunni. Reynslan er allt önnur og raunar hefur dregið verulega úr drykkju ungmenna frá því frelsið hafði betur í baráttunni. Sama er að segja um afnám einkaréttar ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri. Getur einhver ímyndað sér ástandið hér á landi ef „litla frelsismálið“ um að leyfa einkaðaðilum að reka útvarp og sjónvarp hefði ekki náð fram að ganga eftir áralanga baráttu Sjálfstæðisflokksins,“ segir Áslaug sem er sannfærð um að dropinn holi steininn.
Áslaug viðurkennir að í stjórnmálaumræðunni geti hugtök eins og frjálshyggja orðið neikvæð. „Markmiðin verða það hins vegar aldrei,“ segir hún ákveðin.
„Markmiðið er að ríkisreksturinn verið sem minnstur og að fólk beri sem mesta ábyrgð sjálft á gerðum sínum. Ríkið er ramminn utan um almannaheill hvort sem það er í heilbrigðismálum, menntamálum eða almannatryggingakerfinu en það á ekki að skerða frelsi einstaklingsins. Stuðla þarf að því að Íslandi sé stjórnað með þeim hætti að við þessir fáu Íslendingar getum búið við góð lífskjör, lága skatta og velferð almennings sé tryggð. Þetta hefur verið stefna Sjálfstæðisflokksins síðan 1929 og ef flokkurinn er trúr þessari stefnu sinni þá trúi ég að hann eigi erindi við fólk,“ segir Áslaug.
Persónuníð á netinu
En hvernig svo sem orðið „frjálshyggja“ hljómar í eyrum manna hefur Áslaug ekki farið varhluta af illmælgi á netinu. Ljót orð, oft spyrt saman við stjórnmálastefnuna, hafa verið notuð um hana og raunar flesta sem eru áberandi í stjórnmálaumræðunni.
Þetta gerist á sama tíma og meira og meira af vitiborinni stjórnmálaumræðu fer fram á netinu. Hvernig tekur Áslaug þessu?
„Ég lít ekki á mig sem fórnarlamb og dvel ekki við það þótt eitthvað ljótt sé sagt um mig á samfélagsmiðlunum. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að talað sé illa um stjórnmálamenn. Samt fælir þetta frá og margir hugsa sig eðlilega um tvisvar og spyrja: Á ég virkilega að hætta mér út í þetta fen? Er það þess virði fyrir mig og mína nánustu? Illmælgi og níð er þjóðfélagsmein. Það er eins og sumir telji í eymd sinni rétt að ráðast á og svívirða samferðafók sitt. Skrápurinn er hins vegar að harðna og ég læt ekki illar tungur stjórna því sem ég geri og segi,“ segir Áslaug.
Ólst upp við Davíð
Átök á vettvangi stjórnmálanna eru heldur ekki ný af nálinni. Átakastjórnmál er hinn íslenski stjórnmálastíll.
„Ég var 14 ára þegar Davíð Oddsson hætti sem forsætisráðherra. Alveg frá því ég man fyrst eftir mér var Davíð sjálf stjórnmálin. Hann var alltaf miðpunkturinn,“ segir Áslaug þegar ég spyr hana um fyrstu kynni af stjórnmálum.
Hún ólst upp á heimili sjálfstæðisfólks og segir að hún hafi alist upp við umræður um þjóðmálin, fremur en beinlínis um stjórnmál, alveg frá fyrstu stund. Faðir hennar er Sigurbjörn Magnússon, sem í það minnsta á yngri árum í háskóla var áberandi í röðum frjálshyggjumanna. Móðir hennar er Kristín heitin Steinarsdóttir kennari.
Aldrei í stúdentapólitík
„Ég var ekki sérstaklega upptekin af stjórnmálum sem unglingur. Ég er stúdent frá Versló, en byrjaði ekki að taka beinan þátt í stjórnmálunum fyrr en eftir útskrift. Og ég hef aldrei verið með í stúdentapólitíkinni en alltaf haft þennan áhuga á þjóðmálunum, sem ég ólst upp við heima,“ segir Áslaug.
Áslaug birtist fyrst á vettvangi stjórnmálanna þegar hún bauð sig fram til formanns í Heimdalli sumarið 2012 og var sjálfkjörin.
Áslaug vakti athygli á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið eftir þegar Heimdallur seldi svokallaða „Jóhönnuklúta“ með mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á forsíðu Morgunblaðsins eftir að kosningar til stjórnlagaþings voru dæmdar ógildar.
Úreltur sósíalismi
Áslaug hefur því ekkert á móti því að það skerist í odda með andstæðingunum.
Núna hikar hún heldur ekki við að gangrýna samstarfsflokk Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.
„Mér finnst í lagi vekja athygli á muninum sem er á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum þótt þeir séu saman í ríkisstjórn núna,“ segir Áslaug.
Húsnæðisfrumvarp Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra er eitt. „Þetta húsnæðsfrumvarp er bara úreltur sósíalismi,“ segir Áslaug og vill að hennar flokksmenn leggist gegn því.
„Þetta eru ólíkir flokkar og ég ætla ekki að taka þátt í loforðaveislu Framsóknarflokksins fyrir næstu kosningar. Við erum ábyrgur flokkur og nú er svo komið að loforðabók okkar frá síðustu kosningum er nánast tæmd. Það er flottur árangur,“ segir Áslaug.
Ekki sátt við alla flokksfélagana
Áslaug gagnrýnir fleiri en Framsóknarmenn og stjórnarandstæðinga. Hún er ósammála mörgum af eigin flokksmönnum.
„Flokkurinn er breiðfylking og ég á ekki samleið með öllum í öllum málum. Mér finnst það styrkleiki Sjálfstæðisflokksins að þar mætast ólík sjónarmið og ólíkar skoðanir sem byggja samt allar á grunnhugmyndum um frelsi einstaklingsins og takmörkuð ríkisafskipti,“ segir Áslaug.
„Við verðum að geta tekist á um einstök mál eins og t.d. um stefnuna í málefnum flóttamanna og innflytjenda. Ég vil rétta fólki í neyð hjálparhönd og þess vegna eigum við Íslendingar að taka við flóttamönnum,“ segir Áslaug og bendir á um leið á að nauðsynlegt sé að gera greinarmun á flóttamönnum og almennum innflytjendum.
„Við eigum, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að bjóða velkomna útlendinga sem hingað vilja koma, aðlagast samfélaginu og taka þátt í að byggja upp öflugt samfélag á grunni frjálsræðis. Þetta er í takt við grunngildi Sjálfstæðisflokksins og trúna á einstaklinginn og getu hans til að bjarga sér sjálfur,“ segir Áslaug.
Hvernig er gert upp
Annað mál er uppgjör Sjálfstæðismanna við hrun fjármálakerfisins árið 2008. Þar hefur t.d. Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, sagt að hrunið hafi aldrei verið gert upp innan flokks.
„Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við Styrmi. Aðalatriðið er að læra af því sem miður fór svo það gerist ekki aftur. Um leið þarf að horfa fram á veg. Pólitísk uppgjör fara fram í kjörklefanum. Frá hruni hafa farið fram tvennar kosningar til Alþingis og tvennar sveitarstjórnarkosningar og það hafa orðið kynslóðaskipti í forystu Sjálfstæðisflokksins. ,“ segir Áslaug.
Vill markvissari vinnubrögð
Áslaug hefur líka gagnrýnt vinnubrögð á þingi þar sem mikill tími fer í þrætur og háværar deilur og málþóf – og undanskilur ekki sína eigin flokksmenn í að hafa mótað þessi vinnubrögð.
„Þetta gerir ekki Alþingi að aðlaðandi vinnustað. Fólk hefur ekki þolinmæði gagnvart svona vinnubrögðum. Það er ekki hægt að ræða mál endalaust. Þegar umræðum er lokið á að ganga til atkvæða og þar með er niðurstaða fengin,“ segir Áslaug sem á eftir að ákveða hvort hún vilji gera Alþingi að vinnustað sínum.
„Það eru vissulega mörg merki um óþol meðal kjósenda í garð gömlu stjórnmálaflokkanna – ekki bara hér á landi – og eftirspurn eftir nýju fólki með nýjar hugmyndir. Þessari eftirspurn verður Sjálfstæðisflokkurinn að mæta,“ segir Áslaug.