Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að nýta sem best krafta allra, óháð kyni, hvort sem er í atvinnulífinu eða í pólitíkinni.
Í blaðinu 100 Áhrifakonur sem Frjáls verslun gaf út í sumar var ég spurð hvers vegna konur stýri ekki fleiri stórfyrirtækjum og hvort stöðnunar gæti í kvennabaráttunni. Svarið mitt var eftirfarandi:
Ég veit ekki hvers vegna kynjahlutfallið er eins og það er. Ég sé ekki að eigendur og stjórnendur fyrirtækja hafi nokkra ástæðu til að ráða ekki konur til jafns við karla í æðstu stöður. Það eru 40 ár síðan fyrstu jafnréttislögin voru samþykkt hér á landi. Mér finnst fjórir áratugir vera mjög ríflegur aðlögunartími og vona að honum fari fljótlega að ljúka. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að nýta sem best krafta allra, óháð kyni, hvort sem er í atvinnulífinu eða í pólitíkinni.
Hvað stöðnun í kvennabaráttunni varðar – nei, ég tel að hún sé í stöðugri þróun. Baráttan er öflug og hefur gengið í endurnýjun lífdaga með ungum feministum af báðum kynjum og valdeflingu kvenna sem neita að láta viðteknar venjur skilgreina sig og hegðun sína. Mér finnst frábært að tilheyra nýrri kynslóð sem er mjög meðvituð um þessi mál, um leið og ég er þakklát þeim sem ruddu brautina.