Framtíðin er okkar – kjósum!

Kæri kjósandi. Til hamingju með daginn!

Skiptir máli að kjósa? Mitt svar er: Já það skiptir máli að kjósa. Hvert atkvæði skiptir máli. Hvert atkvæði hefur áhrif. Með einu atkvæði höfum við val um framtíðina sem velferð okkar allra byggir á, hvort sem við erum ung eða gömul.

Framtíð ungs fólks veltur á velferð og tækifærum. Hún byggir á auðveldu aðgengi að námi, góðum atvinnumöguleikum, getu til að koma yfir sig þaki og svigrúmi til að ráðstafa eigin tekjum.

Sjálfstæðisflokkurinn vill gera ungu fólki kleift að koma undir sig fótunum án óhóflegrar skuldsetningar eða þröngra valkosta. Námsstyrkir í stað lána eru mikilvægt skref í því sambandi. Ungt fólk þarf öflugt og gagnsætt styrkjakerfi sem skilar sér í léttari greiðslubyrði en ella að námi loknu. Kostnaður við nám á ekki að ráða för um val leiða.

Tökum dæmi af nemanda í Háskóla Íslands sem lærir til framhaldsskólakennara. Eftir 5 ára nám í núverandi námslánakerfi myndi viðkomandi skulda 8,6 milljónir króna, miðað við fulla framfærslu og engar aðrar tekjur með námi. Afborgun af láninu myndi í upphafi vera 21 þúsund krónur á mánuði og hækka upp í 41 þúsund krónur út lánstímann.

Í nýja námsstyrkjakerfinu væri staðan önnur og betri. Nemandinn fengi 3 milljónir króna í beinan styrk, sem myndi lækka heildarlánið niður í 5,6 milljónir króna. Afborganir yrðu þá jafnar allan lánstímann eða 21 þúsund krónur á mánuði. Greiðslubyrðin yrði enn lægri í fimm ár ef viðkomandi nýtti sér heimild nýs kerfis til að safna sér fyrir eigin íbúð eða eiga auðveldara með að standast greiðslumat.

Einna mikilvægast fyrir þennan námsmann og annað ungt fólk að loknu námi er frelsi til að ráðstafa sínum eigin tekjum, aukin geta til að eignast þak yfir höfuðið, fjölbreytt tækifæri á atvinnumarkaði, til að stofna fyrirtæki eða gera það sem hugur manns stendur til. Þá þurfa grunnstoðir hvers þjóðfélags að geta nýst öllum, bæði sem afl til að taka stökkið en líka öryggi þegar á bátinn gefur.

Tækifærin liggja víða og ungt fólk á Íslandi hefur sjaldan haft úr jafn mörgu að velja og nú. Framtíðin er spennandi þó hún sé ekki alltaf greinileg. Það sem skiptir þó mestu máli er að hafa öryggi til að geta látið drauma sína rætast. Háar skuldir og óvissa að loknu námi draga úr þessu öryggi. Við kjósum örugga velferð, lægri skatta og öflugt atvinnulíf sem skapar fjölbreytt tækifæri og betra samfélag.

Fyrst og fremst viljum við þó öll frelsi til að taka ákvarðanir um okkar eigin framtíð. Þess vegna kjósum við Sjálfstæðisflokkinn.

Birtist í Morgunblaðinu 28. október 2017.