Flest, ef ekki öll, þekkjum við til einstaklings sem hefur greinst með krabbamein og háð baráttu við þann vágest sem sjúkdómurinn er. Það er áfall að greinast með banvænan sjúkdóm, líkamleg veikindi verða oft hjóm eitt samanborið við það andlega áfall sem því fylgir. Minna þrek, ekkert hár, eirðarleysi, ótti, leyfi frá störfum og lyfjameðferðir. Þær eru margar áskorarnar sem þarf að sigrast á bæði fyrir þá sem greinast en ekki síður fyrir aðstandendur þeirra.
Margt breytist við krabbameinsgreiningu og margvíslegur stuðningur er nauðsynlegur. Árið 2005 var stigið stórt skref þegar endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra var stofnuð undir merkjum Ljóssins. Markmið Ljóssins er að efla líkamlegt, andlegt og félagslegt þrek og auka þannig lífsgæði sjúklinga og færni til daglegra athafna. Það er mikilvægt bæði á meðan meðferð stendur enn ekki síður felst í því stuðningur til að snúa aftur út í lífið að henni lokinni. Nú sem fyrr er mikilvægt að slík starfsemi sé tryggð til handa öllum.
Þjónusta Ljóssins felst í fjölmörgum þáttum, m.a. aðstoð við að takast á við þær breytingar og aukaverkanir sem felast í veikindunum. Þarfirnar eru ólíkar en öllu þarf að sinna; minna starfsþreki, líkamlegum og andlegum breytingum sem og verkjum. Í Ljósinu starfar þverfaglegur hópur sem sinnir bæði krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra á öllum aldri, alveg niður í börn frá sex ára aldri. Iðju- og sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónusta, stuðnings- og fjölskylduhópar og endurhæfing er meðal þess sem er í boði. Einna mikilvægast er starfsendurhæfingin sem auðveldar fólki endurkomu á vinnumarkað. Það getur verið hægara sagt en gert að hefja störf á nýjan leik eftir áfall og þá þrautagöngu sem erfið veikindi eru.
Ljósið er eitt dæmi um hvernig einstakt einstaklingsframtak áorkar mörgu og gefur ríkulega af sér. Ljósið er eina endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðin fyrir krabbameinsgreinda á öllu landinu sem sinnir í senn líkamlegri og sálfélagslegri endurhæfingu og þjónustu. Ljósið hefur verið ómissandi þáttur fyrir svo margar fjölskyldur þar á meðal mína. Ljósið hefur aðstoðað þúsundir Íslendinga en verkefnin eru næg og á fleirum sviðum. Tækifærin eru mörg í starfsemi sem styðja við að endurheimta heilbrigði okkar. Bæði liggja þau í að víkka út starfsemi en ákjósanlegast væri ef hægt væri að sinna enn fleirum. Svarið felst í auknu samstarfi ríkis, sveitafélaga og einstaklinga við að aðstoða félagasamtök á borð við Ljósið að halda úti metnaðarfullu og mikilvægu starfi.
Ljósið ber svo sannarlega nafn með rentu, enda ljós í lífi margra á erfiðum tímum. Vinnum saman að heilbrigði okkar allra.
Birtist í Morgunblaðinu 16. nóvember 2017.