Ábyrgð fyrir framtíðina

Í dag er 148. löggjafarþingið sett á Alþingi Íslendinga. Nýr meirihluti hefur störf nú rétt fyrir jól og þingsins bíður það mikilvæga verkefni að klára fjárlög næsta árs um hátíðirnar. Grundvallaratriði er að í þeirri vinnu verði það sameiginlegt markmið okkar allra til að byggja upp til framtíðar. Þannig þarf að forgangsraða í þágu grunnstoða samfélagsins og á sama tíma draga verulega úr skuldum ríkissjóðs. Hægt er að gera hvort tveggja með ábyrgri stjórn ríkisfjármála samhliða því sem stjórnvöld tryggja að atvinnulífið í landinu fái að blómstra í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi vöxt hagkerfisins. Við höfum í gegnum tíðina séð of mörg dæmi þess að ekki sé hugsað til framtíðar og engin inneign sé fyrir útgjöldum stjórnmálamanna. Of auðvelt hefur reynst að senda reikninginn á skattgreiðendur framtíðarinnar. Það sem er spennandi við framtíðina er að við höfum öll tækifæri í höndunum til að vera áfram framúrskarandi þjóð á fjölmörgum sviðum og gera enn betur. Til að svo megi verða má ekki gleyma að skoða hvernig krónum ríkisins er varið og hvort þær séu vel nýttar. Það er ekki sjálfgefið að gæði opinbers rekstrar aukist með auknu fjármagni. Sú þjónusta sem ríkið ákveður að veita verður ávallt að vera með besta móti.

Á meðan umtalsverð orka hefur farið í það að ræða tekjuhlið ríkisfjármála, skattheimtu og fleira þá gleymist oft að ræða og skoða enn frekar útgjaldahliðina. Það skiptir máli að rýna með sama hætti í þær tölur og tryggja að hvergi sé verið að sóa fjármunum. Það á við um öll útgjöld ríkisins. Við þurfum að tryggja að það fjármagn sem varið er til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála sé vel nýtt og gagnist sem flestum.

Ef sóun á sér stað í kerfinu munu aukin fjárframlög lítið gagnast viðkomandi málaflokkum og alls ekki þeim sem á þá treysta, almenningi í landinu. Það sama á við um samgöngumál, stjórnsýslu og þannig mætti áfram telja. Það hlýtur að vera markmið allra stjórnmálamanna, hvar sem þeir raðast á hinu pólitíska litrófi, að vilja nýta það fjármagn sem til staðar er með sem bestum hætti. Síðustu ár hafa verið góð þegar tekið er mið af öllum helstu hagtölum. Að öllu óbreyttu verða næstu ár það líka, svo lengi sem við fylgjum ábyrgri fjármálastefnu. Við þurfum því að hafa kjark til að sýna ábyrgð í ríkisfjármálum.

Við þurfum að horfa til sölu ríkiseigna sem nauðsynlegrar leiðar til að grynnka á skuldum og lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Ríkissjóður er betur í stakk búinn til þess að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar vegna þess að gengið hefur vel að lækka skuldir ríkissjóðs, en betur má ef duga skal. Fjármunum hins opinbera er betur varið í menntun, velferð, heilbrigðismál og innviði en vexti. Það má öllum vera ljóst og því gildir það sama hvað þetta varðar, við erum öll ábyrg fyrir því að grynnka á skuldum ríkisins.

Pistillinn „Ábyrgð fyrir framtíðina” sem birtist í Morgunblaðinu í dag 14. desember.