Í vor gerði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra tillögu til Alþingis um að Landsréttur yrði skipaður sjö konum og átta körlum. Jafnari verða hlutföllin ekki í 15 manna dómi. Alþingi staðfesti tillögu ráðherrans með góðum meirihluta greiddra atkvæða. Þingmenn höfðu allar forsendur til að staðfesta eða hafna tillögu ráðherrans og gera á þeim breytingar en kusu að gera það ekki.
Í greinargerð ráðherrans með tillögunni var þó hvergi vikið að kynjahlutföllum heldur voru aðrar ástæður nefndar sem röksemd fyrir henni, meðal annars reynsla af dómarastörfum, sem hlýtur að vega þungt þegar um slíkan áfrýjunardómstól er að ræða. Það er vonandi tímanna tákn að ekki hafi þurft að grípa til kynjakvóta til að út kæmi jafn hlutur kynjanna í svo mikilvægum störfum.
Þegar landsréttardómararnir 15 komu saman í sumar kusu þeir svo konu úr sínum hópi sem forseta réttarins.
Sem kunnugt er kröfðust tveir karlar sem fengu ekki dómaraembætti við Landsrétt þess að skipan landsréttardómaranna yrði ógilt með dómi. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu þeirri kröfu. Þá gerðu þeir kröfu um að fá bætur frá almenningi fyrir að hafa ekki fengið embætti. Héraðsdómur hafnaði kröfu þeirra um skaðabætur en Hæstiréttur dæmdi þeim miskabætur á þeim grunni að ákvörðun ráðherrans hefði getað bitnað á orðspori mannanna og orðið þeim þannig að meini. Nú hefur annar mannanna reyndar verið skipaður héraðsdómari svo það má ljóst vera að orðspor hans hefur ekki skaðast.
Það vekur athygli að þeir sem mestar hafa haft uppi kröfurnar um jöfn kynjahlutföll í hvívetna virðast ekki hafa fagnað því að Landsréttur verði skipaður með þessum jafna hætti og taki til starfa undir forsæti konu. Þingmenn Viðreisnar hreyktu sér af því í fjölmiðlum að hafa gert dómsmálaráðherra afturreka með tillögur hæfnisnefndarinnar. Það var ljóst að á þingi var ekki meirihluti fyrir óbreyttum 10 karla og fimm kvenna lista hæfisnefndarinnar. Það var því mjög undarlegt að fylgjast með þingmönnum Viðreisnar leggjast niður á sama plan og Samfylkingin og Píratar þegar málið var rætt nú í vikunni.
Landsréttur verður lokastöð í málarekstri flestra sem leita þurfa til dómstólanna í landinu. Hann verður ein af grunnstoðum réttarríkisins og þar með þjóðfélagsins. Líklega hefur aldrei áður verið sett á stofn svo mikilvæg stofnun á Íslandi með jöfnum hlut kynjanna frá fyrsta degi.
Greinin Landsréttur ein grunnstoða réttarríkisins birtist í Morgunblaðinu 3. febrúar 2018.