Á ferðalögum mínum um landið að undanförnu hef ég alls staðar hitt sjálfstæðismenn sem eru að ræða við bæjarbúa um áherslur sínar næstu fjögur árin. Þar er á ferðinni öflugt fólk sem skilur að það er í okkar heimabyggð sem hjartað slær, þar höfum við fest rætur. Eftir viku göngum við til sveitarstjórnarkosninga og ráðum framtíð okkar nærumhverfis. Sveitarstjórnarmál eru þau stjórnmál sem skipta okkur oft mestu í daglega lífinu og við fáum að öllu jöfnu mestu um ráðið. Það eru þó ekki stjórnmálin ein sem gera heimabyggð okkar að þeim góða stað sem hann er heldur er það fólkið í hverju bæjarfélagi, frumkvæði þess, gleði og atorkusemi. Það er verkefni stjórnmálanna að búa til umgjörðina svo að fólk fái að dafna. Ef umgjörðin er ekki í lagi finna allir fyrir því, einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki. Það er þá sem þjónustan verður verri, vanrækslan eykst og útsvarið hækkar.
Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur með góða sögu í sveitarstjórnum um allt land, í hverju og einu sveitarfélagi, þekktur fyrir góða stjórnsýslu, stefnufestu og samfellu í störfum. Flokkur með öflugt félagsstarf og flokkur sem fólk treystir til góðra verka í þágu sveitarfélagsins og þeirra sem þar búa. Í þeim sveitarfélögum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihluta er starfsemin í blóma, grunnþjónustu við borgarana er sinnt af ábyrgð og fjármálin eru í góðu jafnvægi. Það er ekki sjálfgefið.
Þetta sjáum við vel í forystusveitarfélögum víða á landsbyggðinni og umhverfis höfuðborgina. Við höfum samanburðinn við önnur sveitarfélög þar sem aðrir hafa ráðið för – eins og í Reykjavík þar sem grunnþjónustan er vanrækt og fjármálin látin reka á reiðanum en gæluverkefnin og glæruverkefnin ganga fyrir. Á meðan borgaryfirvöld í Reykjavík láta stjórnkerfið í borginni vinna við að viðhalda sjálfu sér láta sjálfstæðismenn stjórnmálin snúast um fólkið eins og sést í þeim sveitarfélögum þar sem sjálfstæðismenn eru í meirihluta.
Ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn og hefur fengið svo góðan hljómgrunn hjá kjósendum er sú að við kunnum til verka, við leggjum áherslu á góða grunnþjónustu og umgöngumst fjármuni borgaranna af varúð. Þannig rekum við blómlega byggð og búum á sama tíma í haginn fyrir framtíðina. Það skiptir miklu máli hvernig haldið er á málum í sveitarfélögunum. Það skiptir máli að hafa yfirsýn yfir verkefnin, næman skilning á samfélaginu, sýna ráðdeild og forgangsraða í grunnþjónustu. Þannig eiga allar byggðir landsins tækifæri.