Um liðna helgi náði Sjálfstæðisflokkurinn góðum árangri víðs vegar um land og er sem áður langstærsti flokkurinn á landsvísu. Meðaltalsfylgi flokksins í þeim 34 sveitarfélögum, sem hann bauð fram í, er tæp 40% og hann er forystuflokkur í öllum stærri sveitarfélögum. Í níu sveitarfélögum náði Sjálfstæðisflokkurinn hreinum meirihluta og er stærsti flokkurinn í 23 sveitarfélögum.
Yfir þessum glæsilega árangri má gleðjast. Á höfuðborgarsvæðinu er Sjálfstæðisflokkurinn með yfir 30% fylgi í öllum sveitarfélögunum. Í Reykjavík hefur flokkurinn endurheimt stöðu sína sem stærsti flokkurinn á sama tíma og meirihluti vinstrimanna féll. Ákall borgarbúa um breytingar er skýrt, í takt við þau sveitarfélög þar sem sjálfstæðismenn hafa verið í forystu, þar sem grunnþjónustu er sinnt og fjármál í góðu jafnvægi.
Ekki síst vill ungt fólk geta búið sér heimili í höfuðborginni og fá sambærilega þjónustu á leikskólum og veitt eru í nágrannasveitarfélögunum. Það mun þó skýrast í meirihlutaviðræðum hvort af því verður eða hvort vinstrimenn framlengja taumhald sitt á borginni.
Það er einnig gaman að segja frá því hve margar konur hlutu kosningu á listum Sjálfstæðisflokksins nú um helgina. Alls hlutu 57 konur kosningu á vegum flokksins og eru því ríflega 48% allra kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa hans. Það segir sína sögu um forystuhlutverk Sjálfstæðisflokksins að þessu leyti að í sveitarstjórnum landsins sitja nú fleiri konur fyrir Sjálfstæðisflokkinn en alla hina almennu stjórnmálaflokkana samanlagt.
Á margan hátt er það þó áskorun fyrir Sjálfstæðisflokkinn að koma stefnu sinni betur til skila, enda eiga hugsjónir sjálfstæðismanna hljómgrunn meðal fólks um land allt. Við megum aldrei gleyma að í stjórnmálum líkt og lífinu sjálfu, eru það mannleg samskipti sem mestu skipta og þau mega menn ekki vanrækja þrátt fyrir breytta samfélagshætti og tækni. Í heimsóknum mínum um landið í aðdraganda kosninganna kynnist maður ekki aðeins skemmtilegu fólki, heldur ólíkum viðhorfum og aðstæðum. Stjórnmálin þurfa að mæta þessum ólíku aðstæðum og það er sú áskorun sem bæði sveitarstjórnarmenn og þingmenn standa frammi fyrir.
Nú þegar framboð og flokkar hafa aldrei verið fleiri þarf Sjálfstæðisflokkurinn að leggja enn meira á sig til að halda málstað sínum á lofti bæði með kröftugum málflutningi en ekki síður með því að skila góðu verki við stjórn sveitarfélaga.
Ég hlakka til að fylgjast með byggðum landsins blómstra á næstu árum. Kosningabaráttan bar þess merki að hér á landi viðrar vel í efnahagsmálum og öll sveitarfélög landsins, sem og ríkið, þurfa á næstu misserum að mæta þeirri áskorun að viðhalda stöðugleika og efla efnahag landsins. Þar leikur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt hlutverk.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2018.