Forystuflokkur á landsvísu

Um liðna helgi náði Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn góðum ár­angri víðs veg­ar um land og er sem áður lang­stærsti flokk­ur­inn á landsvísu. Meðaltals­fylgi flokks­ins í þeim 34 sveit­ar­fé­lög­um, sem hann bauð fram í, er tæp 40% og hann er for­ystu­flokk­ur í öll­um stærri sveit­ar­fé­lög­um. Í níu sveit­ar­fé­lög­um náði Sjálfstæðis­flokk­ur­inn hrein­um meiri­hluta og er stærsti flokk­ur­inn í 23 sveit­ar­fé­lög­um.

Yfir þess­um glæsi­lega ár­angri má gleðjast. Á höfuðborgarsvæðinu er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn með yfir 30% fylgi í öll­um sveit­ar­fé­lög­un­um. Í Reykja­vík hef­ur flokk­ur­inn end­ur­heimt stöðu sína sem stærsti flokk­ur­inn á sama tíma og meiri­hluti vinstrimanna féll. Ákall borg­ar­búa um breyt­ing­ar er skýrt, í takt við þau sveit­ar­fé­lög þar sem sjálf­stæðis­menn hafa verið í for­ystu, þar sem grunnþjón­ustu er sinnt og fjár­mál í góðu jafn­vægi.

Ekki síst vill ungt fólk geta búið sér heim­ili í höfuðborg­inni og fá sam­bæri­lega þjón­ustu á leik­skól­um og veitt eru í nágrannasveit­ar­fé­lög­un­um. Það mun þó skýr­ast í meirihlutaviðræðum hvort af því verður eða hvort vinstri­menn fram­lengja taum­hald sitt á borg­inni.

Það er einnig gam­an að segja frá því hve marg­ar kon­ur hlutu kosn­ingu á list­um Sjálf­stæðis­flokks­ins nú um helg­ina. Alls hlutu 57 kon­ur kosn­ingu á veg­um flokks­ins og eru því ríf­lega 48% allra kjör­inna sveit­ar­stjórn­ar­full­trúa hans. Það seg­ir sína sögu um for­ystu­hlut­verk Sjálf­stæðis­flokks­ins að þessu leyti að í sveit­ar­stjórn­um lands­ins sitja nú fleiri kon­ur fyr­ir Sjálfstæðisflokk­inn en alla hina al­mennu stjórn­mála­flokk­ana sam­an­lagt.

Á marg­an hátt er það þó áskor­un fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn að koma stefnu sinni bet­ur til skila, enda eiga hug­sjón­ir sjálfstæðismanna hljóm­grunn meðal fólks um land allt. Við meg­um aldrei gleyma að í stjórn­mál­um líkt og líf­inu sjálfu, eru það mann­leg sam­skipti sem mestu skipta og þau mega menn ekki van­rækja þrátt fyr­ir breytta sam­fé­lags­hætti og tækni. Í heim­sókn­um mín­um um landið í aðdrag­anda kosn­ing­anna kynn­ist maður ekki aðeins skemmti­legu fólki, held­ur ólík­um viðhorf­um og aðstæðum. Stjórn­mál­in þurfa að mæta þess­um ólíku aðstæðum og það er sú áskor­un sem bæði sveitarstjórnar­menn og þing­menn standa frammi fyr­ir.

Nú þegar fram­boð og flokk­ar hafa aldrei verið fleiri þarf Sjálfstæðis­flokk­ur­inn að leggja enn meira á sig til að halda málstað sín­um á lofti bæði með kröft­ug­um mál­flutn­ingi en ekki síður með því að skila góðu verki við stjórn sveit­ar­fé­laga.

Ég hlakka til að fylgj­ast með byggðum lands­ins blómstra á næstu árum. Kosn­inga­bar­átt­an bar þess merki að hér á landi viðrar vel í efna­hags­mál­um og öll sveit­ar­fé­lög lands­ins, sem og ríkið, þurfa á næstu miss­er­um að mæta þeirri áskor­un að viðhalda stöðug­leika og efla efna­hag lands­ins. Þar leik­ur Sjálfstæðis­flokk­ur­inn mik­il­vægt hlut­verk.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2018.