Um þessar mundir ganga glaðir stúdentar út í lífið fullir tilhlökkunar eftir fjölda ára í námi. Þeirra bíður nú að taka ákvörðun um hvort leggja eigi stund á frekara nám, hvort tími sé kominn til að sækja út á vinnumarkaðinn af fullum krafti eða jafnvel leggja land undir fót, fá reynslu og upplifun úr öðrum menningarheimum.
Flest ungt fólk er að eðlisfari bjartsýnt. Það hefur væntingar um framtíðina, að það fái að njóta góðra lífskjara og því bjóðist tækifæri á vinnumarkaði þar sem þau geta nýtt menntun sína, virkjað hæfileika, metnað og áhuga.
Ungt fólk á að gera ríkar kröfur til okkar sem sitjum á Alþingi. Við þurfum að tryggja frjóan jarðveg til framtíðar og að valfrelsi til orða og athafna sé tryggt. Það er stórt verkefni að marka stefnu um hvernig við búum ungt fólk undir það að mæta kröfum framtíðarinnar. Háskólamenntuðum einstaklingum hefur fjölgað hratt en á sama tíma þarf sérhæfðum störfum að fjölga bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði svo að ábati menntunarinnar minnki ekki.
Það er ekki hlutverk stjórnvalda að skapa störf, en það er hlutverk stjórnvalda að haga málum þannig að umgjörðin hér á landi ýti undir að hugvit og nýsköpunarstarfsemi blómstri. Það eru gömul sannindi og ný að frumkvöðullinn er drifkraftur framfara og bættra lífskjara. Hann kemur auga á tækifærin, býður upp á nýja vöru og þjónustu, skapar ný störf og eykur þannig lífsgæði samferðamanna sinna. Sprotafyrirtæki eru aflvakar framfara og breytinga. Þau mynda farveg frjórrar hugsunar og nýrra aðferða. Menntakerfið þarf að mæta kröfum framtíðar og ýta þannig undir sjálfstæði og hugsunarhátt frumkvöðla.
Það er ein skylda stjórnmálamanna að tryggja að ríkisvaldið setji ekki bönd á ungt framtakssamt fólk. Á þetta leggur ríkisstjórnin mikla áherslu, meðal annars með afnámi þaks á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar. Með því hættum við að senda þau skilaboð að nýsköpun eigi sér einungis stað í litlum fyrirtækjum, hugvit og nýsköpun á sér jafn mikilvægan sess í stærri og rótsettum fyrirtækjum.
Nú er einnig verið að setja á fót starfshóp um nýsköpunarstefnu með það að markmiði að efla nýsköpun í opinberum rekstri og einfalda regluverk. Það mun meðal annars hjálpa til við eflingu innviða sem verða sífellt dýrari ef aldrei er horft til meiri hagkvæmni í rekstri.
Með þessu erum við að stíga mikilvæg skref til að bæta enn frekar lífskjör almennings, byggja upp fjölbreyttara samfélag, með sérhæfðum störfum. Við erum að byggja upp samfélag fjölbreytileikans til að tryggja ungu fólki valfrelsi og góð lífskjör. Við erum með öðrum orðum að sinna því verkefni sem okkur er falið, að móta jarðveginn þannig að ungt fólk geti horft með björtum augum til framtíðar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2018.