Vikulokin: Umræðu um veiðigjöldin hvergi nærri lokið

Að sjálfsögðu er umræðu um veiðigjöld hvergi nærri lokið enda þarf enn að breyta kerfinu svo gjaldið taki mið að raunveruleikanum.

Umræðan um veiðigjöld er oft á tíðum út á þekju. Veiðigjaldið er ekki hefðubndinn skattur, heldur afnotagjald sem verður að fylgja afkomu greinarinnar. Annað brýtur forsendur gjaldtökunnar. Nú hefur orðið mikill samdráttur í greininni, m.a. hafa útflutningsverðmæti dregist saman um 68 milljarða. Gjaldið í dag byggist á 2-3 ára gömlum upplýsingumum afkomu, það kemur verst niður á minni fyrirtækjum.

Þetta snýst um að finna sanngjarnt verð fyrir aðgang að auðlindinni en ekki innheimta ofurskatta. Það þurfa að vera tækifæri til að sækja fram og fjárfesta í greininni. Það er forsenda þess að íslenskur sjávarútvegur sé samkeppnishæfur á alþjóðlegum markaði þar sem hann keppir m.a. við ríkisstyrkta sjávarútvegi.

Við þurfum að lagfæra þessa annmarka svo veiðigjöldin taki tillit til afkomu og gjaldið sé einfalt, stöðugt og fyrirsjáanlegt. Á sama tíma fær ríkissjóður hlut af arðsemi auðlindarinnar og sjávarútvegnum gert kleift að vaxa og dafna. Það er brýnt verkefni fyrir haustið.

Í Vikulokunum um helgina var þetta meðal annars á dagskrá, þar reyndi þingmaður að spyrja hvort ég vissi eitthvað um hvað ég væri að tala með því að spyrja hvort ég hafi unnið í fiski á ævi minni. Því var auðsvarað, sumarið 2016 fór ég á túr á uppsjávarskipi það var ekki einungis lærdómsríkt heldur líka skemmtilegt þó ég viti að einn túr gefi ekki alla myndina.

Sjá nánar: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/06/09/umraedu_um_veidigjold_hvergi_naerri_lokid/?fbclid=IwAR3bkZOjRkoLLDqtexv6bjmTFcv11B1XnmTjBBe47G1ntqjh1yOmGV3MsHA