Á meðan heilbrigðiskerfið er einn mikilvægast þáttur mannlífsins hér á landi er það um leið eitt stærsta bitbein pólitískra átaka. Öll erum við sammála um að vilja gott og öflugt heilbrigðiskerfi en okkur greinir á um hvernig kerfið á að vera uppbyggt, hver á að veita þjónustuna og svo er það auðvitað huglægt mat hvenær heilbrigðiskerfið nær þeirri stöðu að vera það gott að hægt sé að una því hvernig það er uppbyggt. Líklega komum við aldrei að þeim tímapunkti að lyfta upp þumalfingri og segja að nú sé kerfið orðið fullkomið. Líkt og svo margir aðrir þættir þróast heilbrigðiskerfið með tímanum, m.a. vegna tæknibreytinga og annarra lýðheilsuþátta. Við lifum lengur, nýir sjúkdómar gera vart við sig á meðan aðrir líða undir lok og þannig mætti áfram telja.
Til einföldunar mætti skipta heilbrigðiskerfinu upp í tvo þætti, annars vegar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og hins vegar veitingu þjónustunnar. Um það verður ekki deilt að allir eigi að hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag eða öðrum samfélagslegum þáttum. Þó að vissulega megi finna vankanta þá er mér óhætt að fullyrða að heilt yfir litið hefur okkur tekist vel í því að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það eru helst landfræðilegar aðstæður sem torvelda það aðgengi. Úr því má bæta og við þurfum að tryggja betra aðgengi landsbyggðarinnar að öflugri þjónustu. Hluti af þeirri lausn ætti að vera að efla fjarheilbrigðisþjónustu þar sem þess gefst kostur.
Samhliða aðgengi að þjónustunni erum við nokkuð sammála um að ríkið greiði meginþorra þjónustunnar, líkt og það gerir nú þegar. Það er hins vegar frekar deilt um það hver á að veita þá þjónustu sem landsmönnum stendur til boða. Það verður ekki séð með góðum rökum að ríkið eigi eitt að veita þá þjónustu. Við höfum nú þegar góða reynslu af rekstri og þjónustu einkaaðila í heilbrigðiskerfinu, t.d. Í öldrunarmálum og í rekstri einkarekinna heilsugæslustöðva. Þessa reynslu eigum við að nýta til að gera kerfið enn öflugra.
Síðastliðið ár hefur mikið verið rætt um kostnað við liðskiptaaðgerðir þar sem við erum að senda landsmenn til Svíþjóðar í liðskiptaaðgerðir í stað þess að gera samning við einkareknar skurðstofur hér á landi. Að senda sjúkling til Svíþjóðar í aðgerð er tvöfalt dýrara fyrir utan allt það rask sem fylgir ferðalaginu. Með öðrum orðum, þjónustan er hvort tveggja í senn dýrari fyrir ríkið og verri fyrir sjúklinginn. Það getur ekki verið pólitískt markmið að bjóða upp á lélega þjónustu í nafni þess að ríkið eigi eitt að veita heilbrigðisþjónustu.
Við þurfum að vera opin fyrir því að hugsa hlutina upp á nýtt, líka þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Markmiðið hlýtur að vera að bjóða upp á góða og um leið hagkvæma þjónustu. Það verður ekki gert með ríkið eitt beggja megin borðsins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. júlí 2018.