Síðustu mánuðir hafa ekki verið góðir fyrir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar eins og dæmin sýna. Nýlega féll dómur þar sem Reykjavíkurborg var dæmd til að greiða starfsmanni skaðabætur vegna framkomu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í garð hans. Í júlí komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að borgin hefði brotið jafnréttislög við ráðningu borgarlögmanns í fyrra. Vinnueftirlitið gerði athugasemd við ákvörðun mannréttinda- og lýðræðisráðs borgarinnar um að öll salerni skuli verða ókyngreind og umboðsmaður borgarbúa segir í nýlegu áliti að undirbúningur ákvörðunar menningar- og ferðamálaráðs um útleigu á Iðnó hafi ekki verið í samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti.
Alvarlegast er þó nýlegt álit umboðsmanns Alþingis þar sem fram kemur að meðferð (sem túlka má sem vanrækslu) Reykjavíkurborgar á utangarðsfólki og heimilislausum í borginni er brot á stjórnsýslulögum, almennum lögum, stjórnarskrá og fjölþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum.
Nú er sjálfsagt að skrifa margar greinar og halda langar ræður um óvandaða stjórnsýslu Reykjavíkurborgar en þegar fjöldi borgarfulltrúa telur á þriðja tug er rétt að láta þeim það eftir. Það verður þó að segjast eins og er að þögn þeirra sem iðulega hafa hvað hæst um óvandaða stjórnsýslu annarra er nokkuð æpandi. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Pírata þegja þunnu hljóði vegna málanna í borginni en þau hafa ekki sparað stóru orðin þegar þau vilja að aðrir axli ábyrgð. Það hefur ekki verið brugðist við þessum málum á opinberum vettvangi með nokkrum hætti.
Allt leiðir þetta hugann að öðrum málum innan stjórnkerfis borgarinnar. Í kjölfar kosninga vorið 2014 þurftu vinstriflokkarnir í borginni að auka við meirihluta sinn til að halda völdum. Þá var brugðið á það ráð að búa til nýtt ráð, stjórnkerfis- og lýðræðisráð, til þess eins að fá Pírata að borðinu. Eini borgarfulltrúi Pírata varð formaður ráðsins. Engin merki eru um að þetta nýja ráð hafi nokkuð gert til þess að bæta stjórnsýsluna í Reykjavík. Það er heldur ekki að sjá að stofnun ráðsins, með því umstangi og fjárútlátum sem fylgja, hafi bætt líf borgarbúa á nokkurn hátt. Það eina sem það gerði var að tryggja völd þeirra sem vildu áfram stjórna borginni.
Eftir kosningarnar nú í vor þurfti aftur að bæta við gamla meirihlutann svo hann héldi. Viðreisn fékk boð í veisluna og aftur var hróflað við ráðum og nefndum til að láta þetta smella saman. Hvort stjórnsýslan batnar á enn eftir að koma í ljós. Mér þykir þó líklegra að stjórnkerfið haldi áfram að stækka en þjónusta við borgarbúa fari áfram versnandi. Það virðist engu máli skipta hversu oft og hversu mikið hrært er í stjórnkerfi borgarinnar, íbúarnir tapa alltaf.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. ágúst 2018.