LÝSA: Tækifærin og áskoranir í ferðaþjónustunni á Norðurlandi

Tækifærin og áskoranir í ferðaþjónustunni á Norðurlandi voru ræddar á fundi Sjálfstæðisflokksins á Lýsa á Akureyri í gær. Hér er hluti af erindi mínu frá fundinum.

Það er gaman að fá tækifæri til að koma hingað norður og tala um ferðamál. Þegar maður er við það að lenda hér er maður minntur á það hversu mikil tækifæri eru hér fyrir norðan þegar kemur að ferðaþjónustu. Ég er þó meðvituð um það að hér á þessu svæði er nú þegar rekin öflug ferðaþjónusta - hér á Akureyri, á Tröllaskaganum, í Skagafirðinum, við Mývatn og Húsavík og þannig mætti áfram telja.

Þrátt fyrir að ferðaþjónustan sé orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins stöndum við alltaf frammi fyrir nýjum áskorunum. Við höfum náð góðum árangri við að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann og ná þannig fram betri nýtingu yfir árið. Það, að það sé betri nýting yfir árið í heild, gagnast hótelum, leiðsögumönnum, afþreyingaraðilum og öðrum birgjum.

Við erum öll sammála um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum nú betur um landið. Ríflega fjórðungur þeirra ferðamanna sem koma til Íslands sækja Norðurlandið heim og ég held að við séum öll sammála um að auka það hlutfall enn frekar. Sem fyrr segir er nú þegar rekin öflug ferðaþjónusta hér á Norðurlandi. Hér hefur verið unnið gott og mikið starf á vegum Markaðsstofu Norðurlands, hér eru mörg flott fyrirtæki á öllum stigum stigum ferðaþjónustunnar og hér eru þó til staðar tækifæri til að efla hana enn frekar. Hér höfum við fjöll, fossa og firði sem allir bjóða upp á einstaka upplifun fyrir bæði landsmenn og erlenda ferðamenn.

Þrátt fyrir að við stjórnmálamenn séu gjarnir á það að eigna okkur það sem vel gengur þá er staðreyndin sú að stærstur hluti ferðaþjónustunnar er byggður á framtaki einkaaðila; dugnaðarfólki sem er stolt af landinu, menningunni og sögunni hér á landi, fólki sem er tilbúið að leggja mikið á sig, taka áhættu og byggja upp þjónustu og afþreyingu sem gerir ferðina til Íslands ógleymanlega.

Það eru þó verkefni sem við stjórnmálamenn eigum og þurfum að sinna. Við þurfum að tryggja skýrar leikreglur og gott rekstrarumhverfi, svo dæmi séu tekin - og það fellur í hlut stjórnvalda að tryggja öfluga uppbyggingu innviða hér á landi. Innviða sem þurfa að vera í lagi. Það er ekki þar með sagt að öll uppbygging sé á kostnað skattgreiðenda, en það er þó þannig að hið opinbera þarf að leggja línurnar með það í hvaða verkefni er farið og hvenær. Eitt af þessum verkefnum er uppbygging flugvallarins hér á Akureyri og í því samhengi þurfum við að veita viðeigandi aðstoð við að byggja upp alþjóðaflug í gegnum Akureyrarflugvöll. Það kemur flugþróunarsjóður meðal annars við sögu og ég get fullyrt að það er fullur vilji stjórnmálanna, og ég get sagt að það er fullur vilji hjá ráðherra ferðamála, að leggja sitt af mörkum til að láta það verða að veruleika.