Forgangsröðun opinberra fjármuna er eitt mikilvægasta verkefni kjörinna fulltrúa. Samspil þess að ákveða hvað skuli fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum og vera verkefni hins opinbera og þá hvaða verkefni séu fremri öðrum er áskorun sem allir ábyrgir stjórnmálamenn standa fyrir. Því virðist þó öðruvísi farið hjá Reykjavíkurborg, sem hefur á undanförnum árum ekki mikið horft til forgangsröðunar þegar kemur að fjármunum borgarbúa. Það kristallast einna skýrast í 257 milljóna framúrkeyrslu þegar Reykjavíkurborg ákvað að verja, eða eyða eftir því hvernig á það er litið, fjármunum í endurbyggingu á bragga og tengibyggingum. Áætlað var að verja 158 milljónum króna í verkefnið en kostnaðurinn er nú þegar kominn í 415 milljónir – án þess að verkefnið sé fullklárað.
Kostnaður braggans er enn eitt dæmið um forystuleysi í Reykjavík. Enginn einstaklingur, fjölskylda eða fyrirtæki í einkarekstri hefði þolað slíkan kostnað eða umframkeyrslu á framkvæmd. Það virðist þó gilda önnur lögmál um hið opinbera þar sem alltaf er hægt að ganga lengra, seilast aðeins dýpra og virða að vettugi áætlanir og eðlilegan kostnað.
Enginn kostnaðarliður fór í útboð, það kemur lítið á óvart þegar rýnt er í sundurliðun á kostnaðinum við verkið. Auðvelt er að reka í rogastans þegar ástandsskoðun ein og sér kostar 27 milljónir króna, eða um það bil jafn mikið og lítil íbúð í einu af nágrannasveitarfélögum borgarinnar. Ef við gefum okkur að tímagjald verkfræðings sé um 18.600 kr. á klukkustund (15 þús.kr. + vsk) þá má ætla að um 1.450 klst hafi farið í verkefnið, eða rúmir átta mánuðir fyrir einn mann í fullri vinnu. Líklega hefur ekkert hús á landinu farið í gegnum jafn dýra ástandsskoðun.
Nú má einnig velta fyrir sér hvers vegna stjórnvöld í Reykjavík ákváðu að fara í þetta gæluverkefni á meðan önnur og brýnni verkefni bíða þess að kjörnir fulltrúar sinni þeim. Þessi óráðsía kemur þó lítið á óvart og þó þetta einstaka mál komist í umræðuna er afar líklegt að óskynsamleg fjárútlát og framúrkeyrsla vegna hinna ýmsu verkefna sé mun víðar en við áttum okkur á. Við sáum að uppbygging Mathallarinnar við Hlemm fór einnig langt fram úr áætlun og svo virðist sem kostnaðarvitund þeirra sem ráða ríkjum í Ráðhúsi Reykjavíkur sé lítil sem engin.
Til að bæta gráu ofan á svart, þá hefur meirihlutinn í Reykjavík hafnað því að óháð rannsókn verði gerð á málinu. Það eina sem hægt er að treysta á er að enginn innan borgarkerfisins mun bera ábyrgð á því sem undan er gengið, hvorki kjörnir fulltrúar né þeir embættismenn sem hafa það hlutverk að láta framkvæmdir standast áætlun.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október.