Hæstv. forseti
Ég vil þakka málshefjanda, háttv.þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur og hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir þessa mikilvægu umræðu hér í þingsal.
Það er augljóst að þörf er á dýpri umfjöllun um utanríkis-, öryggis- og varnarmál. Bæði þurfa þau að fá meira rými í þjóðfélagsumræðunni en einnig á Alþingi.
Við erum þó sífellt minnt á það hversu mikilvægt það er að þekking og skilningur á öryggis- og varnarmálum sé til staðar hér á landi. Það á við um stjórnsýsluna, pólitíkina, fræðasamfélagið og loks í almennri umræðu. Staðan í alþjóðamálunum er oft á tíðum flókin og það eru ýmis mál sem skipta okkur meira máli en áður. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður sem við sjáum ekki alltaf fyrir.
Breytt öryggisumhverfi heimsins felur í sér að setja þarf öryggis- og varnarmál í forgang. Starf Þjóðaröryggisráðs, samstarf Norðurlandanna, aukin framlög í málaflokkinn og fleira kemur þar inn. NATO hefur m.a. brugðist við breyttum aðstæðum í heiminum með að beina athygli sinni og sjónum í vaxandi mæli til okkar heimshluta. Við höfum einnig aukið framlög okkar til varnarmála og þurfum að halda áfram á þeirri braut og leggja áherslu á aukna þátttöku á borgaralegum verkefnum innan Atlantshafsbandalagsins. Fjárlögin bera það með sér í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands.
Samstaða um þessi mál er lykilatriði - en virk þátttaka okkar í öryggismálum líkt og annarra landa Evrópu, er mikilvæg og við getum lagt mikið til málanna á þeim vettvangi.
Virðulegi forseti,
Virðing fyrir alþjóðalögum og virkt alþjóðasamastarf er einnig mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu Íslands. Við höfum lagt áherslu á að Ísland sé málsvari virðingar fyrir alþjóðalögum og að mannréttindi séu virt. Við höfum verið ófeimin við að láta í okkur heyra eins hæstv. Utanríkisráðherra kom inn á í ræðu sinni hér áðan. Að sama skapi höfum við látið til okkar taka í jafnréttismálum og það er ánægjulegt að sjá að um það ríkir pólitísk samstaða allra flokka hér á Alþingi, það er að Ísland sé í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum, ekki bara hér á landi heldur út um heim allan. Þetta er ekki síður mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu landsins.
Eitt vil ég þó nefna í lokin. Ég tel að Ísland eigi með sama hætti að vera öflugur málsvari frjálsra viðskipta í heiminum. Það er ljóst að vaxandi hagsæld í heiminum síðustu 200 árin eða svo er að langmestu leyti byggð á frjálsum viðskiptum milli ríkja. Frjáls viðskipti eru þó ekki sjálfgefin og þeim er stöðugt ógnað, hvort sem er vegna stríðsástands, vegna náttúruhamfara í víðu samhengi og síðast en ekki síst vegna ólíkra viðhorfa meðal stjórnmálamanna víða um heim svo tekin séu nokkur dæmi. Sem frjálst ríki sem byggir efnahag sinn að miklu leyti á frjálsum viðskiptum eigum við að vera í fararbroddi í umræðu um frjálsari viðskipti á milli landa, hvar sem er í heiminum.
Ræða flutt 5. nóvember 2018 í sérstökum umræðum á Alþingi um öryggis- og varnarmál.