Staða iðnnáms

Ég var málshefjandi að umræðu um stöðu iðnnáms við menntamálaráðherra í haust.

Ræðuna má sjá í myndbandsformi hér:

https://www.facebook.com/aslaugarna/videos/327989987981257/

Hér má einnig lesa ræðuna:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra að taka hér til umræðu í þingsal stöðu iðnmenntunar og annarrar starfs-, verk-, og tæknimenntunar. Ég held að fæstir átti sig á hversu alvarleg staðan er. Hér er ekki um neinn framtíðarvanda að ræða heldur raunverulegan vanda sem við búum við í dag og bitnar á þeim sem síst skyldi.

Að mínu mati þarf að bregðast almennilega við. Of lengi og of oft hefur verið rætt um stöðu þessara námsgreina en það verður að segjast eins og er að það hafa iðulega verið orðin tóm. Það þykir fínt að nefna þetta í kosningabaráttu og allir virðast oft og tíðum sammála um að eitthvað þurfi að gera en að bæta raunverulega iðn- og tæknimenntun hefur því miður orðið að frasa sem ekki hefur verið fylgt eftir með verkum.

Ísland á mikið undir því að menntakerfið sé framúrskarandi og þessi umræða hefur of oft verið tekin án þess að raunverulegar breytingar hafi orðið. Menntun og mannauður er grundvallarforsenda góðra lífskjara. Þrátt fyrir að það gangi vel á ýmsum sviðum eru áskoranirnar í menntakerfinu stórar, mikilvægar og alvarlegar. Skortur á iðnmenntuðu fólki er gríðarlegur. Hátt í 80% meðlima í Samtökum iðnaðarins vantar iðnaðarmenn svo dæmi sé tekið. Eftirspurn eftir starfsmönnum með grunn í iðn- og verkgreinum hefur aukist með hverju ári og á sama tíma og iðnaður skapar fjórðung landsframleiðslunnar skrá aðeins 16% nýnema sig í iðn og verknám á meðan 70% skrá sig í bóknám til stúdentsprófs. Þrátt fyrir aukna þörf rata of fáir nýnemar á verk- eða starfsnámsbrautir þótt hlutfallið hafi hækkað milli ára.

Atvinnulífið þróast hratt og sú þróun mun halda áfram. Menntakerfið og áherslur þess mega ekki sitja eftir. Þrátt fyrir stafræna byltingu og frekari byltingu í störfum í framtíðinni verður áfram mikil þörf fyrir iðn- og tæknimenntað fólk. Störfin munu sum hver breytast en alltaf verður þörf fyrir færni, þekkingu og aðra þætti en hefðbundið bókvit. Iðnaðarmaðurinn verður ekki leystur frá störfum með vélmennum en hann mun þurfa að breytast í takt við tímann.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra þeirrar einföldu spurningar hvort hún sé raunverulega tilbúin að gera starfs-, iðn-, tækni- og verkmenntun jafn hátt undir höfði og stúdentsprófi. Iðnnámið verður að sama skapi að þróast í takt við tímann. Frá sjónarhóli nemandans er hann í dag líklegri að velja bóknám fram yfir iðnnám vegna kerfislægrar mismununar á brautunum, vegna óvissu um samning til reynslu og vera því í óvissu um útskrift frá skólanum. Á Íslandi verður það einfaldlega að vera vænlegur kostur að fara í þetta nám og að nemendur hafi að sama skapi fleiri vegi færa að loknu námi en nú er.

Virðulegur forseti. Kerfislægi vandinn er víða. Það er óásættanlegt að einstaklingar sem skrá sig í nám séu ekki með vissu fyrir því að útskrifast þótt þeir leggi hart að sér. Það veltur á möguleika þeirra á samningstíma utan skólans, í 56 vikur. Það er algjör grunnforsenda að nemendur sem hefja nám. viti að þeir eigi möguleika á útskrift frá sama skóla. Þetta óöryggi er ólíðandi og veldur að sjálfsögðu minni aðsókn í námið.

Stærsta verkefnið er að fjölga nemum í grunnnámi þessara greina. Einnig þarf að huga að því að þeir sem velja þessa leið eigi möguleika á aukinni menntun og þeim séu ekki settar of þröngar skorður. Að fjölga háskólamenntuðum með annan bakgrunn eins og iðn- og tæknimenntun mun reynast dýrmætt fyrir samfélagið í heild sinni.

Ég hef lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um opinbera háskóla og lögum um háskóla, með það markmiða að skýrt verði kveðið á um það í lögum að iðn-, verk-, og starfsnámi verði gert jafn hátt undir höfði og bóknámi. Með því er verið að opna dyr nemenda úr iðnnámi að háskólanámi. Það eru of mörg dæmi þess að aðilar sem hafa lokið iðnnámi en vilja auka við sína menntun komist ekki að í háskólanám. Það mætti taka dæmi um iðnaðarmann sem rekur sitt eigið fyrirtæki og vill bæta þekkingu sína á viðskiptum eða reikningshaldi eða aðila sem er orðinn meistari í sinni iðngrein. hefur lokið iðnnámi, samningstíma, sveinsprófi meistaraskóla og fengið meistararéttindi. Þeir eru samt samkvæmt kerfinu ekki til þess bærir að mennta sig frekar þar sem þeir hafa ekki lokið stúdentsprófi.

Í grunnskólanum er okkur einnig vandi á höndum. Þar er list- og verkgreinum alls ekki nægilega vel sinnt þrátt fyrir nokkuð skýrt og bætt lagaákvæði um lágmarksviðmið. Við munum ekki kenna þessar greinar á bókina, ekki frekar en við getum kennt krökkunum að synda með bókinni. Grunnskólarnir standa sig margir hverjir svo illa að t.d. virða 80% grunnskóla í Reykjavík ekki þessi viðmið í 5.–7. bekk.

Hvernig eigum við að auka áhuga á einhverju sem börn þekkja einfaldlega ekki? (Forseti hringir.) Að efla iðn-, verk-, og starfsnám í þágu öflugra og fjölbreyttara samfélags sem á þess kost að takast á við nýjar áskoranir, að taka stór skref til að breyta áherslum kerfisins og gera iðnnámi (Forseti hringir.) jafn hátt undir höfði og bóknámi, bæði í löggjöf og í raunverulegri framkvæmd er mikilvægt skref til (Forseti hringir.) aukinna framfara og hagsældar. Atvinnulífið þróast hratt og menntakerfið má ekki sitja eftir.