Barið á bönkunum

Hvergi í hinum vestræna heimi er jafn stór hluti fjármálakerfisins í eigu hins opinbera og á Íslandi. Ríkið á tvo viðskiptabanka, rekur Íbúðarlánasjóð sem hefur kostað ríkið stórfé, að ógleymdri Byggðastofnun.
Umsvif ríkisins á fjármálamarkaði eiga sér að hluta eðlilegar skýringar. Í eftirleik falls bankanna eignaðist ríkið viðskiptabankana, bæði við endurreisn þeirra og sem hluta af stöðugleikaframlagi kröfuhafa. Hvað sem því líður þarf að taka ákvörðun um hvaða hlutverk ríkið ætlar að leika á fjármálamarkaði. Um það er meðal annars fjallað í hvítbók um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið sem kynnt var í þessari viku.

Ríkissjóður er nú með um 300 milljarða króna bundna í bankakerfinu. Áhættan er mikil og er á ábyrgð okkar allra. Þróunin í fjármálatækni er hröð og við vitum í raun ekki í hvernig bankar framtíðarinnar munu líta út, hvernig þeir starfa og veita nauðsynlega þjónustu. Bylting í greiðslumiðlun er þegar hafin og vonandi nýtur almenningur þess í formi lægri kostnaðar, vaxta og betri þjónustu. Tækniþróunin er áskorun sem bankarnir eiga takast á við en ekki skattgreiðendur. Þá er mikill fórnarkostnaður fólginn í því að binda fjármuni í bönkunum, sem gætu nýst betur, t.d. til að lækka skuldir ríkissjóðs, lækka skatta, styrkja innviðauppbyggingu eða á annan ábyrgan hátt.

Á meðal margra stjórnmálamanna ríkir skrýtið, jafnvel fordómafullt, viðhorf í garð fjármálafyrirtækja. Tíu árum eftir fall þriggja banka eru margir enn á þeirri skoðun að það eigi að refsa bönkunum með sköttum og setja á þá sérstakar reglulegðir og sérstaka skatta til að koma í veg fyrir annað hrun. Á sama tíma er ætlast til þess að þeir lækki vexti og veiti hagkvæma og góða þjónustu. Þeir sem benda á öfugmælin við þróun eru sakaðir um að vera málsvarar fjármálaafla og þeim gerðar upp annarlegar hvatir. Líklega þarf sú sem hér skrifað að sæta því eftir birtingu þessa pistils. Þetta er ekkert annað en ódýr popúlismi og það sjá allir skynsamir einstaklingar.

Við þurfum að horfa til framtíðar og tryggja að bankar og fjármálastofnanir – rétt eins og öll önnur þjónustufyrirtæki – geti starfað í eðlilegu umhverfi og boðið viðskiptavinum sínum góða þjónustu. Á komandi árum munu neytendur hafa enn meira val um það hvort og þá hvernig þeir nýta sér þjónustu hefðbundinna banka. Það er ekki hlutverk okkar sem störfum í stjórnmálum að ákveða hvort og þá hversu mikið ríkið ætlar að starfa í ákveðnum þjónustugreinum, heldur að skapa heilbrigt umhverfi þar sem nýsköpun, tækni, þjónusta og hagkvæmni fær að njóta sín. Það er heldur ekki hlutverk stjórnmálamanna að refsa einstaka fyrirtækum fyrir gamlar syndir, heldur að horfa til framtíðar og búa þannig í haginn að allir geti starfað eftir skýrum leikreglum og á jöfnum grundvelli.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. desember 2018.