Aldrei fleiri verið 100 ára

Þegar horft er yfir árið 2018 eru marg­ir sem minn­ast nei­kvæðra frétta bæði úr alþjóðamál­um og inn­an­lands­mál­um. Það er að mörgu leyti skilj­an­legt því þær eru fyr­ir­ferðarmeiri. Stríð og hung­ur eru frétt­næm­ari en friður og vel­meg­un.

Það er oft gott að skoða hlut­ina í víðara sam­hengi og láta staðreynd­ir tala sínu máli. Það sem við feng­um litl­ar eða eng­ar frétt­ir af á ár­inu sem nú er liðið er að enn eitt árið juk­ust lífs­lík­ur manna í heim­in­um, ung­barnadauði hélt áfram að minnka, þeim sem lét­ust í stríði eða hryðju­verk­um fækkaði frá fyrri árum, mennt­un stúlkna í sam­an­b­urði við mennt­un drengja hélt áfram að aukast og þeim sem búa við fá­tækt fækkaði dag­lega um 127.000 í heim­in­um öll­um. Við þetta má bæta að í vik­unni var greint frá því að aldrei hefðu fleiri náð 100 ára aldri hér á landi. Það er lít­il frétt um stóra fram­vindu til hins betra.

Upp­lýst umræða þarf að byggja á staðreynd­um. Við sjá­um fjöl­mörg dæmi er­lend­is af hóp­um sem hafna staðreynd­um og ógna þar með upp­lýstri umræðu. Án henn­ar er og og verður erfitt að taka skyn­sam­ar ákv­arðanir og meta með raun­sæj­um hætti hvað framtíðin ber í skauti sér.

Þróun starfa er eitt dæmi. Í dag eru til störf sem voru ekki til fyr­ir tíu árum og eft­ir önn­ur tíu ár verða til enn fleiri störf sem eru ekki til í dag. Á sama tíma hafa önn­ur störf lagst af og við vit­um að á kom­andi árum mun sú þróun halda áfram. Við höf­um enn þá tæki­færi til að þróa mennta­stofn­an­ir sem taka mið af þess­ari þróun en verk­efnið er öllu erfiðara fyr­ir þá sem eru fyr­ir á vinnu­markaði. Þar þurfa all­ir að leggj­ast á eitt til að finna lausn­ir, fjölga tæki­fær­um og þannig mætti áfram telja.

Það er vissu­lega sárs­auka­full þróun á meðan hún geng­ur yfir. Í stað þess að horfa fram­an í þann veru­leika sem við blas­ir kjósa marg­ir stjórn­mála­menn þó að setja kík­inn á blinda augað og boða frek­ari viðskipta­höml­ur, tolla og annað til að minnka alþjóðavæðingu og viðskiptafrelsi. Það er sagt og gert í nafni þess að vernda störf heima fyr­ir án þess að skoða hverj­ar af­leiðing­arn­ar kunna að verða til lengri tíma. Sá stjórn­mála­maður sem set­ur á aukn­ar höml­ur á viðskiptafrelsi í dag verður að öll­um lík­ind­um ekki til staðar eft­ir 20 ár til að taka af­leiðing­un­um.

Aft­ur kom­um við að því sem ég nefndi hér í upp­hafi. Þró­un­in í heim­in­um er ekki alltaf sú sem við fáum að sjá í frétt­um. Heim­ur­inn er sí­fellt að verða betri sem að stór­um hluta skýrist af auk­inni alþjóðavæðingu og milli­ríkjaviðskipt­um. Við vit­um samt að hag­sæld síðustu 200 ára eða svo bygg­ir að mestu leyti á vax­andi viðskiptafrelsi og um leið vax­andi viðskipt­um milli landa. Við þurf­um að finna leiðir til að taka á móti framtíðinni, ekki leiðir til þess að stöðva hana.

Greinin „Aldrei fleiri verið 100 ára” birtist í Morgunblaðinu 5. janúar.