Árangurinn sem aldrei varð

Ísland mæl­ist of­ar­lega og gjarna efst á ýms­um mæli­kvörðum sem við not­um þegar við ber­um okkur sam­an við önn­ur lönd. Það er oft ánægju­legt að mæl­ast efst en alla lista er þó ekki eftirsóknarvert að toppa. Þar á meðal er það hvaða lönd eru með flókn­asta eft­ir­lits­reglu­verkið en Ísland mæl­ist þar hæst allra OECD-þjóða. Á öll­um mælikvörðum list­ans um eft­ir­lits­reglu­verk er Ísland það hag­kerfi þar sem reglu­kerfið er mest.

Þetta er ekki já­kvæð þróun. Eft­ir­lit­s­kerfi er dýr­ara fyr­ir ís­lenskt at­vinnu­líf og hef­ur þannig tölu­verð áhrif á sam­keppn­is­hæfni okk­ar. Það hef­ur síðan bein áhrif á hag­vöxt og at­vinnu­tæki­færi. Þetta er þróun sem við þurf­um að snúa við. Það er ljóst að um­hverfið í dag hef­ur til­hneig­ingu til að of­reglu­væða hlut­ina og borið hef­ur til að mynda á því að gengið sé lengra við inn­leiðingu EES-gerða en nauðsyn kref­ur. Oft reyn­ist erfitt að greina hvaða hluti laga­frum­varps er á grund­velli EES-samn­ings­ins og hvaða hluti er að frum­kvæði ís­lenskr­ar stjórn­sýslu.

Ut­an­rík­is­mála­nefnd samþykkti fyrr á ár­inu breyt­ing­ar sem ein­falda en um­fram allt gera inn­leiðingu EES-reglu­gerða skil­virk­ari hér á landi. Það fel­ur meðal ann­ars í sér að ekki verði hægt að læða inn auka­reglu­gerðum eða íþyngj­andi ákvæðum eins og gjarn­an vill ger­ast. Ráðherr­arn­ir tveir í at­vinnu­vegaráðuneyt­inu hafa einnig sett af stað vinnu um ein­föld­un reglu­verks og það mættu fleiri ráðherr­ar taka sér til fyr­ir­mynd­ar. Það er sjálfsagt hægt að rétt­læta of­setn­ingu reglu­gerða með góðum til­gangi – líkt og svo mörg önn­ur af­skipti hins op­in­bera af ein­stak­ling­um og at­vinnu­lífi. Þegar upp koma mál, t.d. um vafa­sama viðskipta­hætti, er það yf­ir­leitt fyrsta verk að kanna hvort hið op­in­bera hafi verið búið að setja lög eða regl­ur um viðeig­andi starf­semi og í kjöl­farið kannað hvort hið op­in­bera hafi fylgt því eft­ir með nægu eft­ir­liti. Ef svo er ekki er mis­gjörðum manna oft velt yfir á ábyrgð hins op­in­bera.

Á móti kem­ur að við velt­um því sjald­an fyr­ir okk­ur hvaða fórn­ir við fær­um með eft­ir­liti í kjöl­far íþyngj­andi reglu­gerða. Það er að hluta til eðli­legt, því það er erfitt að mæla ár­ang­ur sem aldrei varð.

Við eig­um að búa til skýr­ar og góðar regl­ur í því um­hverfi sem at­vinnu­líf og al­menn­ing­ur starfar og lif­ir í. Á sama tíma og öfl­ugt eft­ir­lit er mik­il­vægt og að fyr­ir­tæki séu var­in fyr­ir ólög­mætri hátt­semi í at­vinnu­rekstri má um­hverfið ekki vera of íþyngj­andi og kostnaðarsamt. Það er hags­muna­mál okk­ar allra að búa þannig um hnút­ana að hinn frjálsi markaður fái að njóta sín. Um leið og hinn frjálsi markaður refs­ar skuss­un­um verðlaun­ar hann þá sem standa sig vel. Hið op­in­bera mun aldrei – og á aldrei – ná þannig utan um at­vinnu­lífið að það telj­ist full­komið á mæli­kv­arða reglu­gerða.

Greinin „Árangurinn sem aldrei varð” birtist í Morgunblaðinu 9. maí 2019.