Eitt mikilvægasta skref sem stigið hefur verið í þeim tilgangi að hjálpa ungu fólki að eignast húsnæði sem og að létta undir með fólki er að veita almenningi kost á því að nýta séreignarsparnað sinn skattfrjálst til þess að lækka höfuðstól húsnæðislána og fyrir fyrstu kaupendur til að nýta í útborgun. Þessar leiðir tóku gildi árin 2014 og 2017, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði sett þetta á dagskrá á landsfundi flokksins árið 2013 undir forystu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra.
Heimildin fyrir fyrstu kaupendur til að nýta séreignarsparnaðinn í útborgun hefur verið framlengd til frambúðar. Heimildin til að greiða niður húsnæðislán, sem upphaflega náði til ársins 2017, var framlengd til ársins 2019 og mun því renna út í lok júní nk. Nú hefur Bjarni Benediktsson þó lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem heimildin til að nýta séreignarsparnað inn á húsnæðislán er framlengd um tvö ár, eða fram á mitt ár 2021.
Framlengingin er liður í aðkomu ríkisins að nýlegum lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Þó ber að geta þess að það hafði verið nokkuð um það rætt að framlengja þessa heimild engu að síður þar sem ljóst er að hún nýtist almenningi vel.
Árangurinn talar sínu máli. Frá árinu 2014 hafa heimilin í landinu nýtt um 56 milljarða króna skattfrjálst til að greiða hraðar niður húsnæðislán sín. Hér er um að ræða samanlögð framlög einstaklinga sjálfra og mótframlög launagreiðenda. Að jafnaði var iðgjöldum ráðstafað inn á lán um 23 þúsund einstaklinga í hverjum mánuði á síðasta ári. Ef horft er aftur til ársins 2014 er um að ræða mun fleiri einstaklinga samtals, en á þeim tíma sem liðinn er hafa margir gert upp lán sín og um leið létt almenna greiðslubyrði heimilisins.
Stór hluti af því unga fólki sem er að koma sér upp húsnæði er í þeirri stöðu að eiga lítið eigið fé og hefur jafnvel nýlokið námi, en er þó komið út á vinnumarkaðinn og á þess kost að hafa reglulegar tekjur. Það að leyfa fólki að nýta séreignarsparnaðinn sinn skattfrjálst með þessum hætti er mikið framfaraskref. Þessi lausn snýr að frelsi fólks að ráðstafa sínum eigin sparnaði og eignast sitt eigið húsnæði. Með þessu móti koma stjórnmálamenn meðal annars til móts við ungt fólk í þeim tilgangi að gera þeim kleift að eignast húsnæði.
Fyrir flesta er fjárfesting í eigin húsnæði stærsta fjárfestingin í lífinu. Það er mikill hagur í því fyrir samfélagið að sem flestir eigi þess kost að eignast sitt eigið húsnæði og öðlast þannig fjárhagslegt sjálfstæði og öryggi. Það er því til mikils unnið þegar hægt er að bjóða upp á skattfrjálsar leiðir eins og þessa. Við þurfum að hugsa í lausnum sem gagnast almenningi og hér er gott dæmi um slíka lausn.
Greinin „Lausn sem virkar” birtist í Morgunblaðinu 18. maí 2019.