Stofnun Endurupptökudóms er eitt af fyrstu málum vorþingsins. Með stofnun dómsins verða tekin af öll tvímæli um að dómsvaldið sé einvörðungu á hendi dómara í samræmi við stjórnarskrá. Úrlausnir dómsins verða endanlegar.
Sá galli er á núverandi fyrirkomulagi að nefnd á vegum framkvæmdavaldsins, endurupptökunefnd, hefur vald til að heimila endurupptöku mála sem dómstólar hafa leyst endanlega úr og hrófla þannig við úrlausn handhafa dómsvaldsins. Þetta fyrirkomulag stríðir gegn þrígreiningu ríkisvaldsins.
Endurupptökudómur verður skipaður fimm dómurum. Að meirihluta verður hann skipaður embættisdómurum frá hverju hinna þriggja dómstiga. Tveir dómarar verða skipaðir að undangenginni auglýsingu. Þeir síðarnefndu munu dæma í öllum málum sem koma inn á borð dómstólsins ásamt einum embættisdómara.
Með frumvarpinu er stefnt að rýmkun skilyrða til endurupptöku einkamála. Samkvæmt gildandi lögum þurfa þrjú skilyrði að vera uppfyllt til þess að mál fáist endurupptekið. Tvö þessara skilyrða eru sérstaks eðlis þar sem leiða verður sterkar líkur að því annars vegar að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og hins vegar að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Þriðja skilyrðið vísar til þess að önnur atvik mæli með því að leyfi verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
Með frumvarpinu er lagt til að nægilegt sé að öðru hvoru sérstöku skilyrðanna sé fullnægt til að mál fáist endurupptekið, enda séu hin almennu skilyrði jafnframt fyrir hendi. Skilyrðin taka annars vegar til þeirra tilvika þegar sterkar líkur eru að því leiddar með nýjum gögnum eða upplýsingum að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verði ekki um það kennt. Hins vegar taka skilyrðin til annarra tilvika en þeirra sem varða málsatvik. Samkvæmt því nægir að fram hafi komið ný gögn eða upplýsingar sem sterkar líkur mæla með að muni breyta fyrri niðurstöðu dómsmálsins. Með nýjum gögnum eða upplýsingum í þessum skilningi geta verið úrlausnir alþjóðlegra dómstóla á borð við Mannréttindadómstól Evrópu og EFTA-dómstólinn.
Þó að ný gögn eða upplýsingar liggi fyrir mun það ekki leiða sjálfkrafa til þess að mál verði endurupptekið. Alltaf þarf að fara fram gaumgæfilegt mat á því hvort skilyrði til endurupptöku séu uppfyllt enda dæma íslenskir dómstólar eingöngu á grundvelli íslenskra laga.
Með frumvarpinu um Endurupptökudóm er meginreglan um þrískiptingu ríkisvaldsins fest í sessi og skilyrði um endurupptöku dómsmála rýmkuð. Það mikilvægasta er að í þessu felst mikil réttarbót fyrir almenning í landinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2020.