Í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld var ein helsta krafan sú að æðsta dómsvaldið yrði flutt til landsins. Það var eðlileg og rökrétt krafa því sjálfstætt og óháð dómsvald er samofið kenningunni um þrískiptingu ríkisvaldsins sem lá að baki frelsishreyfinga 18. og 19. alda á Vesturlöndum. Hæstiréttur Danmerkur var stofnaður árið 1661 en skorið var á formleg tengsl við konungsvaldið þegar einveldi var lagt niður í Danmörku með grundvallarlögunum 1849. Dómstóllinn var almennt talinn traustur og góður dómstóll á þessum tíma en forystumenn Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni töldu þó að konungur færi áfram með endanlegt dómsvald í íslenskum málum þar sem grundvallarlögin hefðu aldrei öðlast gildi á Íslandi. Eftir að Íslendingar fengu stjórnarskrá 1874 var á hinn bóginn óumdeilt að Hæstiréttur Danmerkur færi með úrslitavald í íslenskum málum. Gilti sú skipan til ársins 1920 og þann tíma bjuggu Íslendingar því við þrjú dómstig.
Hæstiréttur Íslands var stofnaður á grundvelli sambandslaganna frá 1918 og er ein helsta táknmynd fullveldisins sem Íslendingar fengu á því ári. Þar kom efnislega fram að Hæstiréttur Danmerkur héldi stöðu sinni sem æðsti dómstóll í íslenskum dómsmálum uns Íslendingar tækju ákvörðun um að stofna eigin hæstarétt. Íslendingar biðu ekki boðanna. Frumvarp að lögum um Hæstarétt Íslands var samið úti í Kaupmannahöfn af Einari Arnórssyni, prófessor, vorið 1919 og var lagt fram á Alþingi strax um sumarið. Frumvarpið varð að lögum nr. 22/1919. Hæstiréttur tók til starfa 16. febrúar 1920.
Með lögunum um Hæstarétt Íslands urðu mikil kaflaskipti. Úrslitadómsvald í íslenskum málum var flutt til landsins; áfrýjunardómstóllinn, Landsyfirréttur, var lagður niður og ákveðið var að málflutningur fyrir hinum nýja dómstóli skyldi vera munnlegur. Þótt mikil samstaða væri um stofnun réttarins og menn litu á hann sem mikilsverðan áfanga í sjálfstæðisbaráttunni, þá er greinilegt af umræðum á Alþingi og í fjölmiðlum þess tíma að margir landsmenn voru nokkuð uggandi um stöðu hans. Greina má áhyggjur af því að dómstigin yrðu aðeins tvö og að hinn mikilvægi varnagli, Hæstiréttur Danmerkur, yrði ekki lengur til staðar. Hann hefði reynst traustur í ýmsum erfiðum málum. Stærsti kostur hans væri fjarlægðin frá mönnum og flokkadráttum á Íslandi. Dómendur dæmdu aðeins eftir lögunum og staðreyndum eins og þær væru settar fram af málsaðilum og millidómstiginu, hinum íslenska Landsyfirrétti.
En, fjarlægðin var reyndar einnig stæsti ókosturinn við að hafa æðsta dómstól íslenskra mála í Kaupmannahöfn. Það var bæði tafsamt og kostnaðarsamt. Dómendur höfðu ekki vald á tungumálinu á dómskjölunum sem varð því að þýða yfir á dönsku. Þá voru samgöngur stirðar á milli Íslands og Danmerkur og gat komið fyrir að 5-6 ár liðu frá dómi Landsyfirréttar til endanlegrar niðurstöðu Hæstaréttar. Staðreyndin var því sú, að mjög fáum málum var í raun skotið til Danmerkur. Þá naut Landsyfirréttur virðingar á meðal landsmanna. Síðasta mál frá Íslandi var dæmt í Landsyfirrétti 1. febrúar 1915. Dómur gekk í Hæstarétti Danmerkur 29. nóvember 1921. Var dómur Landsyfirréttar staðfestur.
Þegar umræða í fjölmiðlum á þessum tíma er skoðuð má greina efasemdir um hinn nýja dómstól. Var fyrirkomulagið ekki bara ágætt eins og það var? Aðeins væri verið að bæta tveimur dómurum við þrjá dómara Landsyfirréttarins og breyta nafninu. Þetta yrði veikburða æðsti dómstóll og mjög vanbúinn í samanburði við Hæstarétt Danmerkur. Í Kaupmannahöfn væru mun fleiri öflugir lögfræðingar, lögmenn og dómararar, og öll efni til að búa réttinum nauðsynlega aðstöðu og búnað við hæfi. Þá var því hreyft m.a. af Kristjáni Jónssyni, síðasta dómstjóra Landsyfirréttar og fyrsta forseta Hæstaréttar Íslands, að munnlegur málflutningur við réttinn væri varhugaverður. Nær væri að halda hinum gamla sið að málflutningur væri skriflegur.
Lárus H. Bjarnason, prófessor og varadómari í Landsyfirrétti, lýsti einnig miklum efasemdum um munnlega málfærslu í áliti við frumvarpið um Hæstarétt. Hann bar saman stöðuna að því leyti við aðstæður í Danmörku þar sem munnlegur málflutningur var reglan á æðsta dómstigi. Orðrétt sagði Lárus: „Þar er mikið úrval af málflutningsmönnum, svo full vissa er fyrir, að málflutningsmenn við hæstarétt séu eingöngu mikilhæfir menn bæði að viturleik, lagaþekkingu og vandvirkni. Hér á landi eru því ekki til staðar þau skilyrði fyrir munnlegri málfærslu sem þar.”
Vissulega verður því ekki í móti mælt að Hæstiréttur Íslands bjó við erfið skilyrði fyrstu áratugina. Dómurum var fækkað niður í þrjá í sparnaðarskyni aðeins örfáum árum eftir stofnun og urðu aftur fimm talsins um miðjan fimmta áratug síðustu aldar. Rétturinn bjó við þröngan húsakost á annarri hæð Hegningarhússins við Skólavörðustíg í rúman aldarfjórðung og þar var alls ófullnægjandi aðstaða fyrir dómara og málflytjendur og mjög fátæklegur bókakostur. Samt ávann rétturinn sér álit og virðingu landsmanna þegar fram liðu stundir. Ótti lærðra manna við munnlegan málflutning reyndist ástæðulaus. Hæstiréttur flutti í nýtt dómhús við Lindargötu árið 1949 og þar var hann staðsettur til ársins 1995.
Þegar við fögnum 100 ára afmæli Hæstaréttar Íslands 16. febrúar 2020 hefur sú meginbreyting orðið á stöðu hans að dómstigin eru aftur orðin þrjú í íslensku réttarkerfi líkt og þau voru fyrir stofnun hans. Dómstigin eru, héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur. Nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur, tók til starfa 1. janúar 2018 en lögin um hann voru sett í tíð Ólafar Nordal, innanríkisráðherra. Þó að hugmyndin um þriðja dómstigið skyti upp kollinum öðru hvoru í gegnum tíðina þá náði hún aldrei fram að ganga fyrr en á árunum eftir efnahagshrunið 2008. Þá var álagið orðið slíkt á réttinum að fjölga varð dómurum tímabundið. Voru þeir 12 talsins þegar málaþunginn var hvað mestur. Mikið var rætt um nauðsyn millidómstigs á áttunda áratug síðustu aldar og Ólafur Jóhannesson, dómsmálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi þar að lútandi árið 1976 og aftur árið 1978. Millidómstiginu var þá gefið nafnið „Lögrétta” en ekkert varð úr þeim áformum.
Frá stofnun hefur Hæstiréttur sinnt hlutverki hefðbundins áfrýjunardómstóls og því dæmt í málum sem ekki hefðu komið til meðferðar æðstu dómstóla annars staðar á Norðurlöndum. Með stofnun Landsréttar og strangari kröfum um áfrýjun til Hæstaréttar var honum skapað svigrúm til að gegna hlutverki sem æðsti dómstóll þjóðarinnar. Í því felst að hann tekur til meðferðar mál þar sem mikilvæg og vandasöm lögfræðileg viðfangsefni eru til úrlausnar. Annað markmið með stofnun Landsréttar var að bregðast við veikleika í íslensku dómskerfi er sneri að endurskoðun dóma á áfrýjunarstigi vegna meginreglunnar um beina og milliliðalausa sönnunarfærslu.
Ekki verður hjá því komist að víkja nokkrum orðum að því hve seint og illa hefur reynst að tryggja konum og körlum jafna stöðu meðal dómenda í Hæstarétti Íslands. Dómurinn hafði starfað í meira en 65 ár áður en fyrsta konan var skipuð dómari við réttinn, en það var Guðrún Erlendsdóttir árið 1986. Nú, 34 árum síðar, á hundrað ára afmæli réttarins, eru aðeins 2 dómarar af 7 konur. Þetta er óásættanlegt. Það hlýtur að vera metnaðarmál allra Íslendinga að breyting verði á í þessu efni og fullt jafnræði verði tryggt á milli kynjanna hvað varðar dómaraskipun við æðsta dómstól þjóðarinnar.
Þegar skyggnst er um öxl og staða réttarkerfisins virt í ljósi þeirrar sögu sem hér hefur verið rakin að nokkru þá blasir við sá mikli aðstöðumunur sem er hjá æðsta dómstól landsins í samanburði við aðstæður réttarins fyrir hundrað árum.
Ég átti þess nýlega kost að skoða glæsileg húsakynni Hæstaréttar Íslands í dómhúsinu við Arnarhól í fylgd Þorgeirs Örlygssonar, forseta réttarins, en hornstein að húsinu lagði Þorsteinn Pálsson, dómsmálaráðherra, á 75 ára afmæli réttarins 16. febrúar 1995. Hvergi var til sparað við byggingu hússins. Mér varð í heimsókn minni, þegar ég skoðaði hús Hæstaréttar í fylgd forseta réttarins, hugsað til hinna fyrstu dómenda við réttinn og málflytjendanna og aðbúnað þerra fyrir hartnær 100 árum. Við hljótum að vera þeim þakklát sem mörkuðu upphafið og unnu þrekvirki við erfiðar aðstæður og þröng efni. En, þegar umbúnaðurinn hefur tekið slíkum stakkaskiptum sem raun ber vitni hljóta þá ekki kröfurnar einnig að vaxa til dómara og málflytjenda um „viturleik, lagaþekkingu og vandvirkni” svo vitnað sé til áðurgreindra orða Lárusar H. Bjarnasonar? Innlendri lagamenntun hefur fleygt fram, lagadeildirnarnar eru orðnar fjórar og æ fleiri lögfræðingar afla sér framhaldsmenntunar erlendis. Útlitið hlýtur því að teljast bjart á þessu sviði þegar horft er til framtíðar.
Hæstiréttur Íslands er sem fyrr táknmynd fullveldis þjóðarinnar en hann er um leið táknmynd réttaröryggis, frelsis og friðhelgi borgaranna.
Greinin birtist í hátíðarriti Orators 14. febrúar 2020.