Margt bendir til þess að aðgerðir almannavarna gegn heimsfaraldrinum, COVID-19, séu að bera árangur hér á landi. Þjóðin er samhent í viðbrögðum sínum og langflestir hlýða fyrirmælum sóttvarnalæknis um breytt hegðunarmynstur. Þríeykið Víðir, Alma og Þórólfur stendur í stafni og miðlar upplýsingum og fræðslu á daglegum blaðamannafundum. Allt er þetta uppörvandi og til fyrirmyndar. Þau, sem og aðrir framlínustarfsmenn og almenningur, eiga hrós skilið fyrir árangurinn fram að þessu.
Við megum þó ekki missa sjónar á markmiðinu, sem er að komast sem fyrst út úr þessari vá. Ekki verður framhjá því horft að á annað þúsund manns hafa smitast, meira en þúsund eru í einangrun og fjöldi fólks hefur veikst mjög alvarlega og liggur þungt haldinn á sjúkrahúsum. Fimm hafa látið lífið hér á landi af völdum faraldursins. Því er mjög mikilvægt að fara að ráðum sóttvarnalæknis um handþvott, að halda sig í minnst tveggja metra fjarlægð frá öðrum og virða takmarkað samkomuhald.
Við höfum verið hvött til þess að halda okkur sem mest heima og forðast ferðalög um páskana. Þetta eru mikilvægar ábendingar og ástæða til að fara eftir þeim. Ef það er eitthvað sem við Íslendingar kunnum vel þá er það að taka hlutunum af þraustseigju og gera það besta úr aðstæðum hverju sinni. Það er ekki auðvelt að hitta ekki sína nánustu, til dæmis ömmur og afa, það er ekki auðvelt að hafa ofan af fyrir börnum sem eru vön sinni rútínu og þannig mætti áfram telja. Lífið er í öðrum farvegi en við eigum að venjast.
Við þurfum aftur á móti að fara í gegnum þennan skafl saman og af okkar íslenska æðruleysi. Við höfum þegar séð fjölmarga brydda upp á ýmiss konar afþreyingu. Fjölskyldur spila meira en áður, horfa saman á skemmtilegt sjónvarpsefni, fara saman út í göngutúra og svo framvegis. Við höfum sett okkur það skemmtilega markmið að slá heimsmet í lestri og möguleikarnir á annarri afþreyingu eru margir þótt aðrir séu takmarkaðir.
Við eigum líklega aldrei eftir að gleyma þessu ári, árinu sem fermingunum var frestað, íþróttirnar fóru í langa pásu og við gátum ekki farið neitt um páskana. Fyrir suma verða minningarnar erfiðari, til dæmis vegna heilsufarsbrests og atvinnumissis. En við getum vonandi öll munað eftir því hvernig við fórum í gegnum þetta. Því með okkar mikla baráttuanda munum við fara í gegnum þetta. Hagkerfið mun taka við sér á ný, við getum hugað að ferðalögum, við munum meta hlutina öðruvísi, við munum meta okkar nánustu enn betur og við munum kunna að meta lífið með öðrum hætti.
Í bili skulum við hlýða Víði og vera heima um páskana. Það er eitt af fyrstu skrefunum í átt að markinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 2020.