Á mánudag verður ferðafólki frá þeim Evrópuríkjum sem eiga aðild að Schengen gefinn kostur á að fara í skimun fyrir COVID-19 veirunni fremur en að fara í 14 daga sóttkví. Í þessu felst veruleg rýmkun skilyrða og leiðir vonandi til þess að landamærin opnist að fullu. Ferðaþjónustan er mikilvæg undirstaða atvinnu- og efnahagslífs þjóðarinnar og tímabært að skapa skilyrði fyrir komu erlendra ferðamanna á nýjan leik.
Til stóð að hafa sama háttinn á varðandi ferðamenn frá ríkjum utan Schengen en nauðsynlegt hefur reynst að fresta þeim áformum þar til fyrir liggja ákveðnar upplýsingar. Þar er einkum um að ræða áform ríkja eins og Bandaríkjanna um opnun landamæra og síðan einnig hvort og þá hvernig best verði staðið að svokölluðu „brottfarareftirliti“ gagnvart öðrum Schengen-ríkjum. Upp hefur komið ákveðin óvissa í því sambandi bæði hvað varðar lagaleg og praktísk atriði. Þetta er flókið verkefni sem við viljum leysa vel af hendi.
Af þessum sökum hef ég talið rétt að gera öðrum Schengen-ríkjum grein fyrir sérstöðu Íslands varðandi þau áform sem hér hafa verið uppi um opnun ytri landamæranna áður en endanleg ákvörðun verður tekin um framkvæmdina. Beðið er viðbragða framkvæmdastjórnar ESB við fyrirspurn okkar hvað það varðar. Vonir standa eigi að síður til þess að ytri landamæri Íslands verði opnuð miðvikudaginn 1. júlí með skimunum.
Í samskiptum við Evrópusambandið hef ég lagt áherslu á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir efnahag okkar. Þar hef ég bent á að skimun farþega er eins og stendur öflugasta vörnin ásamt smitrakningu, sóttkví og almennum smitvörnum. Ég hef undirstrikað í þessum samskiptum að þessar öflugu varnir og eftirlit ættu að tryggja að koma ferðamanna frá löndum utan Schengen auki ekki hættu annarra ríkja í samstarfinu.
Hafa ber hugfast að þessi mál eru í sífelldri endurskoðun og dagsetningar geta færst til. Gildir það raunar ekki aðeins um ákvarðanir okkar hér á Íslandi heldur eru stjórnvöld um allan heim í svipuðum sporum.
Við vildum öll að hægt væri að gefa afgerandi svör til þeirra sem hyggja á ferðir til Íslands eða sjá um að skipuleggja slíkar ferðir. Mikilvægt er að aflétta óvissunni sem allra fyrst. Ég mun beita mér fyrir því að allra leiða verði leitað til að móta skýr og skynsamleg skref við opnun landsins með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Markmiðið er að endurheimta frelsi til ferðalaga yfir landamæri Íslands en standa ber þannig að málum að sem best fari saman annars vegar uppbygging ferðaþjónustu og atvinnulífs og hins vegar sóttvarnaraðgerðir sem hindra útbreiðslu kórónuveirunnar.