Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hef ég verið þeirrar skoðunar að það eigi ekki að refsa einstaklingum fyrir notkun vímuefna. Ég er enn þeirrar skoðunar og mun, hér eftir sem hingað til, halda áfram að beita mér fyrir því sem kallað er afglæpavæðing fíkniefna. Með auknum upplýsingum og þekkingu um málið hafa sífellt fleiri tekið undir þá skoðun.
Sjálfstæðisflokkurinn setti málið á dagskrá í heilbrigðisráðuneytinu þegar þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, lét árið 2015 vinna ítarlega skýrslu, sem getur verið grunnur þeirrar vinnu sem nauðsynlegt er að ráðast í, eftir ályktun Alþingis þess efnis. Þar var meðal annars lagt til að hætt yrði að refsa einstaklingum fyrir neysluskammta. Síðan þá höfum við stigið rétt skref í þessa átt. Sem dæmi má nefna að það var fyrir atbeina Sjálfstæðisflokksins að breyting var gerð á reglum um sakarvottorð, þannig að hætt var að skrá minniháttar fíkniefnalagabrot. Það var það verkefni sem sneri að dómsmálaráðuneytinu.
Það er hægt að ræða þessi mál vel og lengi - og það er full ástæða til. Þótt flestir af þeim sem í dag sitja í fangelsum séu eða hafi verið neytendur fíkniefna þá varða dómar þeirra oftast aðra hegðun sem henni tengist, svo sem rán, innbrot, akstur undir áhrifum o.s.frv. Í einhverjum tilvikum eru brotin endurtekin en í grunninn má segja að í of mörgum tilvikum séu brotin tengd því að fíklar eru að reyna að fjármagna neyslu sína. Vandinn sem við eigum því við að etja er því svo miklu stærri en neysluskammtarnir einir og sér. Hið svokallaða stríð gegn fíkniefnum hefur að öllum líkindum kallað yfir okkur meiri hörmungar en neyslan sjálf. Augljósustu dæmin má sjá í Mið- og Suður Ameríku en við sjáum líka afleiðingarnar hér á landi.
Þetta vitum við allt og erum flest sammála því að vilja breyta þessu. En það er ekki nóg að gera bara eitthvað og kalla það afglæðavæðingu.
Síðustu daga hefur nokkuð verið rætt um frumvarp Pírata þess efnis sem fellt var á Alþingi við þinglok á mánudag. Þó að ég sé í grunninn sammála markmiðum frumvarpsins þá verður að segjast eins og er að það var ekki nægilega vel unnið. Þetta er ekki ályktun félagssamtaka eða stjórnmálaflokks, heldur landslög sem fela í sér refsiheimild. Því er enn meiri ástæða til að vanda sig þegar gera á breytingar á þeim.
Það voru ýmsir alvarlegir gallar á frumvarpi Pírata. Í stað þess að greiða atkvæði um gallað frumvarp hefði verið réttara að vanda til verka og halda vinnunni áfram. Sem dæmi má nefna að það er ekkert í frumvarpinu sem skilgreinir neysluskammt. Það er ekki hægt að búa til eða afnema refsiramma um einhver matskennd atriði sem ekki eru skilgreind í lögum. Hér er um að ræða líf fólks, viðkvæmt málefni og flókin sjúkdóm. Þess heldur er mikilvægt að lögin séu skýr. Ef ráðast á í sambærilegar breytingar og gerðar voru í Portúgal þarf að líta á þær aðgerðir í heild, t.d varðandi aðstoð við fíkla, meðferðarúrræði, félagsráðgjöf og fleira. Þetta þarf að fara saman.
Það er eðlilegt að frumvörp sem breyta framkvæmd séu unnin í samstarfi við sérfræðinga og þá aðila sem beita lögunum, t.d. refsiréttarnefnd, rikissaksóknara og lögreglu. Í kjölfarið er eðlilegt að frumvarpið fari í opið samráð. Það er rétt að ráðast í þetta ferli sem fyrst.
Önnur atriði eru tæknileg og eftir tilvikum flókin, en ekkert sem ekki er hægt að leysa með réttum og vönduðum vinnubrögðum. Ég mun taka þátt í þeirri vinnu af heilum hug.