Baráttan við veiruna heldur áfram

Ríkisstjórnir víða um heim hafa á undanförum vikum og mánuðum sett á ferðatakmarkanir, samkomubann og á einstaka stöðum útgöngubann. Slíkar ákvarðanir um að takmarka frelsi einstaklinga á aldrei að taka af léttúð. Í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu er gert ráð fyrir heimild ríkisvaldsins til að setja skorður við frelsi einstaklinga og þá einvörðungu þegar almannahagsmunir krefjast þess.

Þrátt fyrir framangreindar heimildir er ljóst að þær eru vandmeðfarnar og stjórnvöldum eru settar ákveðnar skorður. Aðgerðir verða að eiga sér stoð í lögum, þær eiga ekki að ganga lengra en tilefni er til og vara ekki lengur en nauðsyn krefur. Þetta er mikilvægt. Á tímum Covid-19-faraldursins er til dæmis nauðsynlegt að engar takmarkanir séu settar á tjáningarfrelsi. Við þurfum alltaf að virða réttinn til skoðanaskipta, ekki aðeins meðal lækna eða annarra sérfræðinga heldur rétt alls almennings til að tjá mismunandi sjónarmið og rökræða um ráðstafanir stjórnvalda.

Skjót viðbrögð hér á landi í upphafi faraldursins leiddu til þess að ekki þurfti að grípa til jafn harðra ráðstafana og aðrar þjóðir hafa neyðst til að gera. Þjóðin stóð saman og allir lögðu sitt af mörkum til að halda fyrstu bylgju faraldursins í skefjum. Þegar ný bylgja fór af stað í lok júlí var ákveðið að herða til muna aðgerðir á landamærum. Sú ákvörðun var heldur ekki tekin af léttúð enda ljóst að kórónuveirufaraldurinn kemur harkalega niður á efnahagslífi landsins, þá sérstaklega ferðaþjónustunni. Eðli málsins samkvæmt gætir óþreyju og spurt er hvort of langt hafi verið gengið þar sem ljóst er að veiran mun halda áfram að skjóta upp kollinum þrátt fyrir þessar hertu aðgerðir á landamærunum.

Markmið okkar er óbreytt; að halda kúrfunni niðri og vernda þá sem eru í áhættuhópum. Þá þarf að taka ákvarðanir sem miða að því að verja rétt fólks til öryggis og heilsu. Samhliða þarf þó að vega efnahagslega þætti og gæta meðalhófs. Með öðrum orðum: Það þarf að meta afleiðingar takmarkana á líf og heilsu almennings og hagkerfið í samanburði við beinar afleiðingar veirunnar.

Ákvarðanir stjórnvalda hafa hvílt á mati á heilsu og heildarhagsmunum þjóðarinnar. Í því mati þarf ekki síst að horfa til efnahagslegra þátta sem og félagslegra. Það er stundum sagt að lækningin megi aldrei verða verri en sjúkdómurinn sjálfur. Það á ekki síður við nú. Í ástandi þar sem forsendur og veruleiki breytast frá viku til viku þurfa stjórnvöld þó að vera tilbúin til að endurskoða ákvarðanir ef gild rök liggja að baki þeim. Við höfum fram að þessu hugsað í lausnum og við munum halda því áfram í þessu ferli.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. september 2020.