„Í heimi íþróttanna er stundum talað um mikilvægi þess að hrista upp í liðinu.“ Svona hófst Morgunblaðsgrein mín um nýtt ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar fyrir ári. Við eigum hvort sem það er í íþróttum eða stjórnmálunum að hugsa í nýjum lausnum og tækifærum, hlaupa hratt um leið og við höldum fókus og sækjum fleiri sigra.
Við eigum að horfa til þess að stækka kökuna áður en við skiptum henni. Það gerum við með stefnumörkun, forgangsröðun og vandvirkni í ákvarðanatöku. Ég er sannfærð um það að málaflokkarnir sem heyra undir ráðuneytið séu þeir sem geta skapað mestu tækifærin til vaxtar í íslensku hagkerfi. Segja má að ráðuneytið haldi utan um stærsta efnahagsmálið, það tengir háskólana, vísindin, nýsköpun og þekkingariðnað til að skapa ný störf, ný tækifæri um leið og þau færa gamalgrónum atvinnugreinum og opinberri þjónustu ferska vinda. Við höfum séð hvernig iðnaður sem byggist á nýrri þekkingu hefur vaxið sem útflutningsgrein og það eru tækifæri fyrir hendi til að gera enn betur, búa til frekari verðmæti og stækka kökuna.
Á forsendum einfaldara lífs, frelsis og samkeppni hefur okkur tekist að leysa ýmis mál á þessu eina ári. Verkefnið snýst að miklu leyti um að leysa krafta úr læðingi í staðinn fyrir að vera fastur í skrifræði eða flókinni lagasetningu. Það blasa við ýmsar áskoranir í samfélaginu og meðal annars hefur verið kallað eftir auknum slagkrafti og sveigjanleika gagnvart landsbyggðinni, auknu fjarnámi, betra aðgengi alþjóðlegra sérfræðinga, fleira heilbrigðisstarfsfólki og leikskólakennurum auk stuðnings við innleiðingu nýsköpunar. Öll þessi verkefni eru komin í framkvæmd á þessu eina ári.
Slíkur árangur hefði ekki náðst nema með breyttu hugarfari og skýrri sýn og forgangsröðun á hverju við ætlum að ná fram. Breytt vinnulag ásamt ýmsum aðgerðum til að skapa ráðuneyti með minni yfirbyggingu og meiri skilvirkni. Meiri árangur á skemmri tíma en á sama tíma er lögð áhersla á málefnaleg og gagnsæ vinnubrögð.
Ég hef stundum verið hvött til þess að búa til besta ráðuneytið á Íslandi, en svara því yfirleitt þannig að ég vildi búa til besta ráðuneytið fyrir Ísland. Ráðuneyti sem tryggir og styður við að við náum árangri fyrir Ísland til skemmri og lengri tíma. Því framtíðin er jú það sem þetta snýst allt saman um.
Íslenskt samfélag er nú í kjörstöðu til þess að horfa til framtíðar og sækja fram í þágu vaxandi velsældar.
Það liggur fyrir að stjórnkerfið þarf að vera í stakk búið til að leiða þá þróun sem hið opinbera þarf að leiða og sinna því þjónustuhlutverki sem það þarf að sinna. Þess vegna þarf stundum að hrista upp í liðinu eins og á íþróttavellinum. Þannig sækjum við fleiri sigra og stækkum kökuna.
Pistillinn „Stækkum kökuna” birtist í Morgunblaðinu 1. febrúar 2023.