Heimurinn er í kapphlaupi um fólk, kapphlaupi um sérhæfða kunnáttu fólks sem þörf er á svo vaxtatækifæri atvinnulífsins verði að veruleika. Samkeppnin er hörð og að mörgu leyti hefur Ísland staðið vel. Fólk vill koma hingað en erfitt hefur reynst að fá leyfi til að starfa til skemmri eða lengri tíma þar sem kerfið hefur verið of torvelt.
Á Iðnþingi í gær lýstu stjórnendur í fyrirtækjunum Controlant og Sensa þeim áskorunum sem fylgja því þegar skortur er á sérhæfðu starfsfólki. Fyrirtækin geta ekki stækkað og bæði eru þau þess vegna með verkefni á bið. Verkefni sem myndu skipta máli fyrir okkur öll og munu skapa auknar tekjur þjóðarbúsins samhliða auknum vexti. Controlant hefur stækkað hratt, hátt í 500 manns starfa hjá fyrirtækinu sem velti tæpum 19 milljörðum á síðasta ári. Þau þurfa að reiða sig á alþjóðlega sérfræðinga til þess og vegna flækjustiga í kerfinu hafa þau haft sérhæfða starfsmenn sem sinna því einu að fá þá hingað til lands. Minni fyrirtæki eiga ekki kost á því.
Það er því fagnaðarefni að við séum nú að stíga stór skref í róttækum breytingum á flóknu og þungu kerfi. Ríkisstjórnin hefur kynnt mikilvægar breytingartillögur á atvinnuréttindum útlendinga utan EES-svæðisins með það að leiðarljósi að nýtt kerfi verði skilvirkara, gagnsærra, hraðara og þjónustumiðaðra en umfram allt samkeppnishæfara. Alþjóðlegir sérfræðingar munu fá dvalarleyfi í fjögur ár í stað tveggja, kerfið verður einfaldað til muna, makar fá atvinnuleyfi, sjálfstæðir atvinnurekendur geta komið með fyrirtæki sín og starfað hér á landi, háskólanemendur fá dvalarleyfi í þrjú ár að námi loknu og svo mætti áfram telja. Tillögurnar eru fjölmargar sem nú er unnið að því að framkvæma.
Þessar breytingar munu hafa jákvæð og góð áhrif á íslenskt samfélag, hvort sem er í efnahagslegu eða félagslegu tilliti. Til að komast út úr sveiflukenndu hagkerfi þurfum við að nýta vaxtartækifærin í íslensku atvinnulífi og þetta er stór liður í því. Fyrirtækin vantar fólk í sérhæfð störf og þau ná ekki að stækka ef þau fá ekki fólk í þessi störf. Skortur á mannauði má ekki hamla vaxtartækifærum Íslands.
Ég mun vinna hörðum höndum að því að draga úr því að þekking flæði frá Íslandi. Í því eru fólgin ómetanleg verðmæti fyrir Ísland. Ég hef lagt á það mikla áherslu að við grípum vaxtartækifæri Íslands og auðveldum alþjóðlegum sérfræðingum og nemendum að koma hingað til lands svo íslenskt atvinnulíf og samfélag fái notið sérfræðiþekkingar þeirra og þeir miðli áfram sinni reynslu og þekkingu. Það hefur lengi verið til umræðu og loksins sjáum við raunverulegar breytingar sem munu gera það að verkum að við náum meiri árangri fyrir Ísland.
Pistillinn „Af hverju alþjóðlegir sérfræðingar?” birtist í Morgunblaðinu 10. mars 2023.