Regluverkið sem enginn bað um

Flókið regluverk hér á landi felur í sér mikinn kostnað fyrir atvinnulífið. Á sama tíma vantar sveitarfélög sérhæft starfsfólk til að sinna vaxandi eftirlitshlutverki sínu. Íþyngjandi regluverk hækkar húsnæðisverð og hefur áhrif á skortstöðu á húsnæðismarkaði. Flókið regluverk eykur skriffinnsku og ýtir undir ótta við að gera mistök, það vill enginn brjóta lögin. Reglufarganið hefur þau áhrif að afgreiðslutími lengist og kostnaður eykst. Allt kemur þetta niður á efnahag landsins – og þar með á lífsgæðum fólks.

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa þúsundir reglugerða og tugir úreltra lagabálka verið felld á brott til einföldunar. Það dugir þó ekki til og við þurfum að gera mun betur. Í nýrri greiningu Viðskiptaráðs kemur meðal annars fram að íslensk fyrirtæki búa við meiri kostnað en fyrirtæki í öðrum Evrópulöndum vegna innleiðingar regluverks Evrópusambandsins. Það skýrist af því að samhliða innleiðingu á regluverki hefur átt sér stað svonefnd gullhúðun, sem felur það í sér að regluverk er innleitt með meira íþyngjandi hætti en þörf krefur. Innleiðing regluverks ein og sér er kostnaðarsöm og kostnaðarauki sem henni fylgir fer út í verðlag, sem á endanum bitnar á fyrirtækjum og heimilunum í landinu.

Við stuðlum að auknum lífsgæðum hér á landi með því að einfalda kerfið, skapa kerfi með minni yfirbyggingu og meiri skilvirkni. Slíkar breytingar fela í sér meiri árangur þótt áfram sé gætt að fagmennsku við setningu laga og reglna. Það er ráð að einfalda regluverkið í stað þess að fjölga fólki til að fylgja regluverkinu eftir. Höfum í huga að lög og reglugerðir eru mannanna verk.

Fámenn þjóð á ekki að ganga lengra en þörf krefur þegar kemur að innleiðingu á reglum úr gríðarstóru og flóknu neti sem regluverk Evrópusambandsins er. Það skerðir einnig samkeppnishæfni okkar og það í samkeppni við ríki sem fylgja sama regluverki án íslenskrar gullhúðunar. Tíma atvinnurekenda er betur varið í það að sinna rekstrinum en að ganga á milli stofnana til að fá réttu stimplana.

Ábyrgð okkar stjórnmálamanna er að vinna að því að einfalda allt regluverk, auka frelsi og minnka afskipti hins opinbera. Við sem sitjum á Alþingi eigum að staldra við í hvert sinn sem til stendur að samþykkja lög og reglugerðir sem gera kerfið flóknara, hægara og kostnaðarsamara. Íþyngjandi regluverk má ekki sliga atvinnulífið og hamla atvinnusköpun.

Þarna höfum við því miður sofnað á verðinum, og þar er Sjálfstæðisflokkurinn ekki undanskilinn. Á forsendum einfaldara lífs, frelsis og samkeppni þurfum við að efla atvinnulífið og samfélagið allt. Verkefnið snýst að miklu leyti um að leysa krafta úr læðingi í staðinn fyrir að vera fastur í skrifræði eða flókinni reglugerða- og lagasetningu.

Pistillinn „Regluverkið sem enginn bað um” birtist í Morgunblaðinu 30. ágúst 2023.