Fjöll og framsýnt fólk

Mjóifjörður er sennilega einn af afskekktustu stöðum landsins. Mjóifjörður ber nafn með rentu, hann er mjór og 18 kílómetra langur. Leiðin þangað er stórfengleg og aðeins fær nokkra mánuði á ári en annars er einungis hægt að komast þangað sjóleiðina.

Ég er svo heppin að hafa heimsótt flesta staði á Íslandi en nýverið fór ég til Mjóafjarðar í fyrsta sinn ásamt ríkisstjórninni. Við funduðum þar en komum líka við á Norðfirði, Fáskrúðsfirði og Egilsstöðum. Vinnufundur ríkisstjórnarinnar var gagnlegur en það sem situr eftir er ekki aðeins náttúrufegurðin á Austfjörðum heldur líka fólkið. Fólkið sem þar býr og hefur byggt upp öflugt og samheldið samfélag.

Við funduðum með fjórum sveitarfélögum og samstaðan var eftirtektarverð. Slík samheldni skiptir miklu máli fyrir svæðið og er að ég tel einn af lykilþáttum þess árangurs sem þau hafa náð. Árangri þar sem áskoranir eru margar og vegalengdir langar.

Austfirðingar eru fyrstir íbúa dreifbýlislandshluta utan höfuðborgarsvæðisins sem skipuleggja sameiginlegt svæðisskipulag um sameiginlega framtíðarsýn í hinum ýmsu málaflokkum og samstarfið því víðtækt.

Austurbrú er frábært dæmi þar sem nám, nýsköpun, atvinnuþróun, rannsóknir og fleira fléttast saman. Tæknin er nýtt með neti starfsstöðva og dreifðri þjónustu þar sem tækifærin eru gripin.

Nemendur á Austurlandi geta nú stundað tölvunarfræði í sinni heimabyggð vegna samstarfs Austurbrúar, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri og í kjölfarið kemur tæknifræðin. Í þessu samstarfi hefur verið lögð áhersla á STEAM-greinar, þ.e. greinar sem byggja á vísindum, tækni, verkfræði, listum og stærðfræði.

Atvinnulífið hefur einmitt verið með ákall til stjórnvalda um fjölgun nemenda í slíku námi enda vantar fólk í störf sem tengjast þessum greinum. Þannig hafa Austfirðingar leyst enn meiri kraft úr læðingi og vonandi mun atvinnutækifærum fjölga þegar fjölbreyttari störf skapast með nýjum atvinnugreinum.

Það eru verðmæti fólgin í því að geta stundað nám í sinni heimabyggð og fjarnám gegnir þar oft lykilhlutverki. Mikilvægi fjarnáms hefur ekki farið fram hjá mér á ferðum mínum um landið þar sem ég funda með fólki á landsbyggðinni. Ljósleiðaravæðingin hefur einnig verið mikilvæg fyrir svæðin.

Austfirðingar geta vissulega verið stoltir af þeim verkefnum sem þeir hafa komið á laggirnar. Staðan væri allt önnur og lakari ef ekki hefði verið fyrir öfluga heimamenn og traust atvinnulíf sem hafði metnað fyrir sína heimabyggð og skýra framtíðarsýn.

Hlutverk okkar sem sitjum í ríkisstjórn er að styðja við öflug samfélög um land allt og tryggja að innviðir standist kröfur samtímans. Þannig tryggjum við sanngjarnara samfélag og náum betri árangri um land allt.

Pistillinn „Fjöll og framsýnt fólk” birtist í Morgunblaðinu 8. september 2023.