Fyrir Nínu

Móðuramma mín gaukaði nýlega að mér blaðaúrklippu frá 1984. Hún hefur geymt hana í nær fjörutíu ár vegna þess að í blaðinu var umfjöllun um dótturina sem hún missti, móður mína, Kristínu Steinarsdóttur kennara. Umfjöllunin var um það að nokkrir kennarar ætluðu sér að fara um landið til að gefa landsbyggðarfólki kost á að kynnast tölvum og tölvunotkun.

Orðrétt sagði í greininni; „Aðstöðumunur milli landsbyggðarmanna og þeirra sem búa í þéttbýlinu við Faxaflóa er afar mikill hvað varðar tækifæri til tölvunáms. Tölvuskólarnir eru nær allir í Reykjavík og landsbyggðarmenn verða að leggja í tímafrekt og kostnaðarsamt ferðalag þangað, til þess að tileinka sér hina nýju tækni.“

Í viðtali við móður mína og samkennara hennar kom fram að ætlunin væri að bjóða fötluðu fólkið ókeypis aðgang að tölvunámskeiðum. Mamma mín vissi ekki þá að níu árum síðar á þessum degi, 6. október 1993, myndi Nína systir mín fæðast. Mamma gat heldur ekki vitað að Nína ætti eftir að glíma við fötlun. Vegna fötlunar sinnar hefur systir mín þurft að takast á við margar áskoranir en hefur þó, m.a. vegna fólks sem ruddi brautina í réttindamálum fatlaðra einstaklinga, farið í framhaldsskóla og stundað nám í háskóla.

Það er aðstöðumunur á milli einstaklinga með fötlun og annarra en einnig meðal þeirra sem búa úti á landi og höfuðborgarbúa. Í hvert sinn sem ég fer með skrifstofuna mína út á land kemur til mín fólk sem vill sækja sér aukið nám, tileinka sér nýja þekkingu og hæfni. Styrkja sig og efla. Og alls staðar er spurt: „Af hverju bjóða háskólarnir ekki upp á enn meira fjarnám?“

Fjarnám hefur aukist stórlega undanfarin ár. Nokkrir háskólar hafa eflt fjarnám, enn fleiri skólar eru nú að sækja fram, m.a. í gegnum Samstarf háskólanna. Nú í október verður aftur úthlutað fjármagni til Samstarfs háskólanna. Það er von mín að skólarnir sýni frumkvæði og metnað og sendi inn umsóknir sem opna skólana enn betur fyrir fólki í ólíkri stöðu víða að úr samfélaginu, m.a. í gegnum fjarnám sem ekki einungis nýtist fólki sem býr um allt land heldur líka þeim sem vilja eða þurfa sveigjanleika í námi. Þá hef ég einnig kynnt árangurstengda fjármögnun háskólanna. Þar eru farnar nýjar leiðir til að hvetja skólana til dáða og eitt af því sem ætlunin er að gera er að ýta undir enn meira fjarnám og nútímalegri kennsluaðferðir.

Margt er framúrskarandi gott í íslenskum háskólum en við getum gert enn betur. Allt skólakerfið þarf að stíga inn í nútímann enda eru nemendur með allt aðrar kröfur, væntingar, drauma og þrár en áður. Við verðum að mæta nýjum veruleika og nálgast nemendur á þeirra heimavelli. Alveg eins og mamma mín heitin lagði sig fram um að gera fyrir svo margt löngu fyrir fólk um allt land og fyrir fatlaða.

Innilega til hamingju með 30 ára afmælið í dag, elsku systir. Ég skrifa þessa grein fyrir þig.

Pistillinn „Fyrir Nínu” birtist í Morgunblaðinu 6. október 2023.