Verðbólgan er stóra verkefnið

Umræðan um ríkisstjórnina síðustu daga hefur að mestu snúist um breytingu á ráðherrastólum, sem nú er búið að kynna. Slíkt vekur öllu jafna athygli, sem er eðlilegt.

Það eru þó mikilvægari mál sem bíða okkar allra – og það er ríkisstjórnin meðvituð um. Helsta forgangsmál okkar er að ná tökum á verðbólgunni enda er hún sá óvinur sem kemur niður á lífsgæðum allra. Þau sem eldri eru muna eflaust vel þegar hér ríkti óðaverðbólga og fengu því miður að kynnast afleiðingum hennar. Þau sem yngri eru hafa, sem betur fer, ekki fengið að finna fyrir því með sama hætti. Við getum þó ekki látið eins og ekkert sé og að sá vandi sem nú blasir við hagkerfinu leysist að sjálfu sér, því hann gerir það ekki.

Við getum haft ýmsar skoðanir á því í hvernig samfélagi við viljum búa og hverjar áherslur stjórnmálanna eiga að vera hverju sinni. Aftur á móti er til lítils að velta vöngum yfir því sem mögulega mætti kalla dægurþras stjórnmálanna ef við búum ekki við efnahagslegan stöðugleika. Það ætti að vera sameiginlegt markmið okkar allra, hvar sem stöndum, að tryggja þann stöðugleika og byggja þannig grunn að aukinni hagsæld á Íslandi.

Þess vegna þurfum við að sýna aðhald í ríkisfjármálum til að kæfa verðbólgubálið. Það á einnig við um skattheimtu sem stilla þarf í hóf til að bæði fólk og fyrirtæki getið notið afraksturs af erfiði sínu. Þá þarf að að taka skynsamar ákvarðanir við gerð kjarasamninga. Það má öllum vera ljóst að framleiðnin í landinu þarf að standa undir launakostnaði og að efnahagsleg staða verður ekki bætt með því einu að hækka tölurnar á launaseðlinum ef sú tala brennur upp í verðbólgu og minni kaupmætti.

Verðbólga kemur illa við alla. Ef við tökum dæmi af ungu fólki þá hamlar hún því að fólk komist inn á húsnæðismarkaðinn. Til að taka einfalt dæmi má nefna einstakling sem hafði safnað sér fimm milljónum í upphaf árs 2021 og vantaði þá eina milljón til að eiga fyrir útborgun á 40 milljóna króna íbúð. Hann á í dag aðeins 4,4 milljónir í banka og vantar 2,7 milljónir í útborgun á sömu fasteign. Einstaklingur sem aftur á móti var kominn í eigin íbúð og átti 5 milljónir króna í eigið fé, á sama tíma á nú átta milljónir í eigið fé. Aftur á móti hefur húsnæðisverð hækkað þannig að sá einstaklingur getur átt erfitt með að stækka við sig. Einnig mætti nefna fyrirtæki sem þurfa að fjármagna sig á háum vöxtum á sama tíma og þau þurfa að stilla verðlagi og launakostnaði í hóf.

Það er engin ein lausn í baráttu við verðbólgu. Það má þó draga þann lærdóm af henni að lífsgæði þurfa að byggjast á stöðugleika og á traustum efnahagslegum grunni. Hvorugt er skapað með loforðaflaumi stjórnmálamanna um fallega framtíðarsýn og stóraukin útgjöld, svo tekið sé nærtækt dæmi.

Pistillinn „Verðbólgan er stóra verkefnið” birtist í Morgunblaðinu 16. október 2023.