Frumkvöðlar í jafnrétti

Íslenskar konur lögðu niður störf haustið 1975, þegar 90% þeirra gengu út af vinnustöðum sínum eða heimilum til að vekja athygli á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði. Þær fóru fram á breytingar og gerðu kröfu um jafnrétti. Þær sýndu magnaða samstöðu og lömuðu íslenskt samfélag. Fyrir það náðu þær heimsathygli og engum duldist mikilvægi þeirra á vinnumarkaði. Þær létu í sér heyra.

Þessi árangur byggðist á því að konur stóðu saman, þvert á stétt og stöðu, og höfðu verið hvattar til þess af krafti á alþjóðlegu kvennaári Sameinuðu þjóðanna ári áður. Þar tóku Sjálfstæðiskonur forystu í veigamiklum málum og áttu, ásamt fjölbreyttum hópi kvenna, verulegan þátt í því að framkvæmd kvennafrísins tókst svo glæsilega.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf haft forystu í jafnréttismálum. Frelsi einstaklingsins er eitt af grunngildum Sjálfstæðisflokksins og hið frjálsa markaðshagkerfi, sem Sjálfstæðisflokkurinn talar fyrir, gerir ekki upp á milli fólks eftir húðlit, trú eða kyni. Það er því að öllu leyti skynsamleg ráðstöfun að stuðla að auknu jafnrétti, að nýta þá hæfileika sem konur búa yfir og að fjölga tækifærum þeirra til að láta til sín taka. Sjálfstæðisflokkurinn var fyrstur íslenskra stjórnmálaflokka til að veita konum brautargengi til setu á Alþingi og var jafnan í fararbroddi um skipun kvenna til trúnaðarstarfa í stjórnmálum. Ég er stolt af því að vera yngsti kvenráðherra Íslands og starfa í ríkisstjórn með fjármálaráðherra sem braut þann múr á undan mér. Í dag eru fleiri konur en karlar í ráðherraliði flokksins.

Við eigum að vera þakklát þeim konum sem ruddu brautina. Sú barátta sem þær háðu skiptir miklu máli. Í dag státum við af því að standa okkur þjóða best er kemur að jafnrétti kynjanna. Þótt við vitum öll að við getum gert enn betur þá er staða okkar góð í alþjóðlegum samanburði. Baráttunni er hvergi nærri lokið. Á Íslandi eiga enn stórir hópar kvenna undir högg að sækja. Konur búa enn við kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, enn eru konur í láglaunastörfum og fáar í hálaunastörfum og veruleiki kvenna af erlendum uppruna er annar og síðri en okkar sem fæddumst hér á Íslandi.

Við fengum aftur heimsathygli í gær, rétt eins og árið 1975. Aðrar þjóðir horfa til okkar þegar kemur að jafnréttismálum og því er ábyrgð okkar mikil. Við megum síst þjóða sofna á verðinum. Þetta er verkefni okkar allra.

Þess vegna er erum við stolt af þeim fjölda sem mætti í gær og heldur áfram að ryðja brautina. Margar mættu fyrir þær sem eru ómissandi. Við stöndum með þeim konum sem komust ekki frá vegna vinnu eða voru heima með börnum sínum. Líka þeim sem völdu það sjálfar að vera í vinnunni. Ég er stolt af því að tilheyra samfélagi sem vill, getur og þorir að gera alltaf betur.

Pistillinn „Frumkvöðlar í jafnrétti” birtist í Morgunblaðinu 25. október 2023.