Ekki þessi sálfræðingur

Á Austurlandi starfar kona, af erlendu bergi brotin, við ræstingar. Hún er þó menntaður sálfræðingur frá sínu upprunaríki. Á kvöldin aðstoðar hún, í sjálfboðastarfi, pólskumælandi Íslendinga. Hún má ekki starfa við sína sérgrein á Íslandi þar sem hún uppfyllir ekki þau skilyrði sem til þarf hér á landi. Hún hefur kallað eftir upplýsingum um það hvaða námi hún þurfi að bæta við sig hér á Íslandi til að fá fimm ára háskólanám sitt metið, en ekki fengið svör. Á sama tíma er skortur á pólskumælandi sálfræðingum í hennar heimabyggð, og reyndar víða um land.

Þetta er, því miður, saga margra kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

Staðan er þannig í dag að alltof margir sem koma frá öðrum löndum fá neitun þegar þeir sækja um að fá gráðuna sína metna hér á landi. Engar leiðbeiningar hafa fylgt um það hvað viðkomandi þarf að gera til að uppfylla þau skilyrði sem sett eru eða hvernig hægt sé að snúa sér í málinu.

Þessi staða hefur verið óbreytt í mörg ár. Hér er um að ræða ferla sem auðvelt er að breyta. Það mætti meira að segja kalla það kerfisbreytingu, alvöru kerfisbreytingu.

Við þurfum þó samhliða að kalla fram viðhorfsbreytingu. Sem þátttakendur í alþjóðasamfélagi fara margir Íslendingar utan í nám og sem betur fer nýtist sú menntum þeim þegar þeir snúa aftur heim. Það sama ætti að gilda í fjölmörgum tilvikum þegar um er að ræða erlenda einstaklinga sem flytja hingað til lands til að lifa og starfa. Eins og kerfið er nú uppsett eru einstaklingar að vinna störf á lægri launum í langan tíma vegna þess að kerfið hamlar því að fólk geti nýtt menntun sína og reynslu, oft í störf þar sem skortur er á fólki. Það á til dæmis við um heilbrigðisstarfsfólk sem hefur menntað sig utan Evrópu en fær ekki viðurkenningu á námi sínu hér á landi.

Við höfum búið til sérstaka hraðbraut fyrir alþjóðlega sérfræðinga til að auðvelda þeim að starfa við sitt fag hér á landi. Við þurfum þó að gera betur og búa til lausnir fyrir innflytjendur sem hér búa þannig að þeir geti nýtt menntun sína og reynslu – og fengið störf við hæfi.

Við höldum innflytjendum í láglaunastörfum ef við gerum ekki breytingar. Innflytjendur eru oft á tíðum ofmenntaðir fyrir þau störf sem þeir gegna. 42% innflytjenda hér á landi sinna störfum sem ekki krefjast sérstakrar menntunar þrátt fyrir að hlutfall þeirra sem hér búa og hafa ekki lokið sérstakri menntun sé 17%.

Það er mikilvægt að við bjóðum upp á leiðir fyrir fólk sem vill bæta við sig því námi sem vantar upp á þannig að það geti nýtt menntun sína og uppfyllt þau skilyrði sem þarf til að fá starfsréttindi. Að því vinnum við nú og stafrænni gátt til að einfalda leið innflytjenda að því að fá menntun sína viðurkennda.

Samfélagið allt tapar ef við metum ekki fólk að verðleikum og nýtum reynslu og hæfileika allra þeirra sem hér búa.

Pistillinn „Ekki þessi sálfræðingur” birtist í Morgunblaðinu 3. nóvember 2023.