Er þetta alvöru pistill?

Á hverjum degi dynur á okkur gríðarlegt magn af efni og upplýsingum. Til dæmis í formi greinaskrifa, tölvupósta, bréfa, smáskilaboða og í gegnum samfélagsmiðla. Við nýtum símann til að nálgast fleiri og fleiri upplýsingar. Fleiri lesa þennan pistil af snjallsímanum í dag en lásu pistil minn fyrir ári á blaðsíðum Morgunblaðsins. Tækninni fleygir fram og stafræn þróun hefur aldrei verið hraðari. Því fylgja ómæld tækifæri en líka áskoranir.

Ein af stóru áskorununum er að gæta að öryggi á netinu meðal annars með því að átta sig á því hvaða efni er alvöru. Um þessar mundir gengur holskefla netsvika yfir almenning með markvissum tilraunum til að fá einstaklinga til að veita öðrum aðgang að stafrænni þjónustu á borð við netbanka. Tilraunir til netsvika teljast til netárása og geta komið fram á ýmsa vegu. Svikin byggja á því að ná sambandi við einstakling, jafnan með tölvupósti, smáskilaboðum eða símtali, og veita þar rangar en þó trúverðugar upplýsingar sem verða þess valdandi að einstaklingurinn, í góðri trú, er blekktur til að nota rafræn skilríki, aðrar auðkenningarleiðir eða kortaupplýsingar.

Þessi tegund netárása er ekki ný af nálinni. Netsvik hafa þó stóraukist síðustu misseri og eru netsvikin oftar en ekki svo vönduð að erfitt er að draga trúverðugleika þeirra í efa. Það hefur gerst meðal annars vegna getu tækninnar til að nota íslensku. Vandasamara er því að greina hvað eru alvöru skilaboð og hvað ekki.

Fjöldi fólks hefur orðið fyrir fjárhagslegum eða öðrum persónulegum skaða af völdum netsvika. Þessu fylgir sú hætta að tiltrú almennings á öryggi stafrænnar þjónustu bíði hnekki. Við því verður að bregðast. Varnir okkar við netsvikum eru ágætar og langflestar tilraunir eru stoppaðar áður en þær ná til fólks, magnið er aftur á móti orðið miklu meira.

Vegna þessa erum við að styrkja aðgerðaáætlun um netöryggi til að treysta varnir
okkar. Vitundarvakning er ekki síður mikilvæg því við komum aldrei í veg fyrir að óprúttnir aðilar nálgist fólk með fjölbreyttum leiðum. Við þurfum öll að vera vakandi fyrir því hver sé sendandi skilaboðanna, hverjir það séu sem óska eftir rafrænum skilríkjum eða öðrum viðkvæmum upplýsingum. Gott er að hafa samband við raunverulega aðilann til að athuga hvort það sé í raun bankinn, lögreglan, pósturinn eða fyrirtækið sem þú heldur sem er að hafa samband við þig. Þá er mikilvægt að gæta sín á símtölum þar sem beðið er um fjárhagsupplýsingar. Það geta allir lent í netsvikum og við þurfum öll að vera á varðbergi. Við náum ekki árangri nema með samstilltu átaki, netöryggi skiptir fólk, atvinnulífið og samfélagið allt miklu máli.

Pistillinn „Er þetta alvöru pistill?” birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember 2023.