Sminkaða daman í menntakerfinu

Það er til svart og appelsínugult fiðrildi sem á ensku heitir European Painted Lady sem hægt er að þýða sem evrópska sminkaða daman. Fiðrildið forðast veturinn í Skandinavíu og flýgur fimmtán þúsund kílómetra til að komast í hitann í Mið-Afríku. Á leiðinni á áfangastað flýgur það meðal annars yfir tvö þúsund metra háa Alpana og þrjú þúsund kílómetrum seinna yfir Sahara-eyðimörkina þar sem hitinn getur farið upp í 50 gráður. Þetta gerir fiðrildið tvisvar á ári.

Það sem er svo magnað við þetta ferðalag er að í reynd getur fiðrildið ekki flogið nema um nokkur þúsund kílómetra. Hvernig fer evrópska sminkaða daman þá að því að fljúga til Mið-Afríku og til baka? Svarið er einfalt en um leið magnað.

Ferðalagið hennar er samspil nokkurra kynslóða því að litla daman lætur lífið á leiðinni en fjölgar sér um leið. Afkomendur hennar halda því ferðalaginu áfram og það eru í reynd barnabarnabarnabörnin hennar sem snúa til baka til Skandinavíu. Hvert fiðrildi gegnir mikilvægu hlutverki í þessu ferðalagi. Það er eitthvað í genaminninu sem leiðir til þess að pínulitlu fiðrildabörnin vita nákvæmlega hvert ferðinni er heitið bæði að hausti og vori.

Ég hef trú á því að íslenskt menntakerfi geti orðið eins og evrópska sminkaða daman. Það er að segja, sett sér markmið um miklu meiri gæði og mun meiri árangur. Og ég trúi því að við sem samfélag getum, eins og fiðrildið, komist þangað þó það sé ekki gert í einni lotu.

Við stöndum frammi fyrir alvarlegri stöðu. Árangur íslenskra nemenda í alþjóðlegri samanburðarmælingu PISA mælist undir meðallagi OECD-ríkja og Norðurlanda í öllum þáttum og fer hrakandi. Af mörgu er að taka og þessi staða er samspil margra þátta yfir langan tíma. Og þessu breytum við ekki með skyndilausnum og einstaka lestrar- eða stærfræðiátaki.

Veruleikinn er sá að við verðum að viðurkenna að langtímaárangur í menntun líkist meira ferðalagi evrópsku sminkuðu dömunnar. Það gerist í áföngum. Rétt eins og í tilviki fiðrildanna þarf hvert okkar að gera sitt til þess að við náum þeim árangri sem við viljum.

Það sem öllu máli skiptir er að ferðalaginu verði haldið áfram. Við sem samfélag berum öll ábyrgð á að bæta úr stöðunni og við megum engan tíma missa. Stjórnvöld, sveitarstjórnir, menntakerfið, foreldrar, atvinnulíf og samfélagið allt þarf að vera með það í genaminninu að eina leiðin til að auka lífsgæði og fjölga tækifærum er að við leggjum áherslu á aukin gæði menntunar. Séum ófeimin við að takast á við þau vandamál sem við okkur blasa og við erum meðvituð um. Við þurfum eins og evrópska sminkaða daman að leggja af stað í langferð svo komandi kynslóðir nái á áfangastað.

Pistillinn „Sminkaða daman í menntakerfinu” birtist í Morgunblaðinu 11. desember 2023.