Ég var ekki alveg að hlusta á þig því að ég var að fá smá tíðindi í eyrun, það er víst byrjað eldgos á Reykjanesskaga,“ sagði Bergsteinn Sigurðsson, þáttastjórnandi Silfursins í fyrrakvöld, þegar við sátum í beinni útsendingu í settinu á RÚV. Þátturinn hélt áfram á meðan fréttastofan gerði sig klára á sama tíma og viðbragðsaðilar, vísindamenn og aðrir sérfræðingar ræstu sínar áætlanir.
Ég mun seint gleyma þessu augnabliki. Þennan sama dag, nokkrum klukkustundum áður en ég mætti í útsendingu, var ég í heimsókn í Grindavík ásamt formanni Sjálfstæðisflokksins þar sem við skoðuðum varnargarðinn og stöðuna í bænum. Þar hefur fólk unnið sleitulaust við að bæta tjón og verja svæðið síðustu vikur.
Í Silfrinu var upphaflega áætlunin að ræða verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra – sem nú hafa frestað sínum aðgerðum vegna eldgossins. Það stóð líka til að ræða orkumál, fjárlögin, PISA, sameiningar háskóla, vísindi, Menntasjóð námsmanna og stjórnarsamstarfið. Það var af mörgu að taka eftir að þingstörfum lauk um síðustu helgi.
Allt eru þetta mikilvæg mál en verða fljótt smávægileg í samanburði við stöðuna í Grindavík. Síðustu daga og vikur höfum við skynjað sterkt samtakamátt þjóðarinnar. Hugur okkar allra hefur verið hjá Grindvíkingum. Það er mikið áfall að þurfa að yfirgefa heimili sitt og verðmæti og lífsviðurværi getur horfið á svipstundu. Jarðhræringar og nú eldgos minnir okkur á að krafturinn í íslenskri náttúru getur verið ógnvænlegur og afleiðingar alvarlegrar.
Við eigum magnaða viðbragðsaðila, vísindamenn og aðra sérfræðinga sem hafa staðið vaktina allan sólarhringinn síðustu vikur, og í raun árin. Atburðir síðustu ára hafa sýnt okkur hversu vel almannavarnakerfi landsins er í stakk búið til að takast á við fjölbreyttar áskoranir í landi þar sem krafturinn er mikill í veðri og náttúru. Líka mikilvægi öflugs vísindastarfs og rannsókna.
Náttúran er óútreiknanleg og það var ekki langur viðbragðstíminn þegar gosið hófst. Það skiptir máli þegar við horfumst í augu við slíka náttúruvá að allar ákvarðanir séu vel ígrundaðar. Það var mikil gæfa að enginn var í bænum þetta afdrifaríka kvöld og búið var að bjarga helstu verðmætum. Nú mun reyna á varnargarðana sem ríkisstjórnin tók ákvörðun um að reisa og geta skipt sköpum við að vernda mikilvæga innviði.
Vonir og væntingar Grindvíkinga um að halda jólin heima eru nú orðnar að engu en það má þakka fyrir að byggð í Grindavík er enn ekki í hættu. Vonandi mun það ekki breytast. Við stöndum öll með Grindvíkingum á þessum tímum, það er erfitt að setja sig í spor þeirra sem hafa verið fjarri heimili sínu í lengri tíma og ástandið í mikilli óvissu, sérstaklega þegar jólin nálgast. Ég sendi hlýjar jólakveðjur til ykkar allra.
Pistillinn „Ég var ekki að hlusta – það er komið eldgos!” birtist í Morgunblaðinu 20. desember 2023.