Aukum við gæðin með meiri miðstýringu eða heilbrigðri samkeppni?


Árið 1955 birti Milton Friedman ritgerðina Hlutverk hins opinbera í menntun, þar sem hann færir rök fyrir því af hverju opinber afskipti af fjármögnun menntunar eru réttlætanleg. Þar lagði hann til að hið opinbera ætti að láta foreldra fá ávísun fyrir menntun barnanna og svo hefði fjölskyldan frjálst val um skóla. Friedman hafði miklar áhyggjur af stöðu menntakerfisins á öllum skólastigum og taldi að skilvirkasta leiðin til að bæta menntun væri heilbrigð samkeppni á milli skóla um nemendur. Skólinn sem yrði fyrir valinu fengi ávísunina frá hinu opinbera og því yrði það keppikefli skóla að laða til sín nemendur.

Friedman færði sterk rök fyrir því að gæði myndu aukast meira með heilbrigðri samkeppni en miðstýringu hins opinbera í formi laga, reglna eða skólanámskráa. Hugmyndir um „ávísanakerfið“ hafa verið umdeildar í áratugi og Ronald Reagan var harðlega gagnrýndur fyrir að gera þær að sínum. Frá þeim sem voru lengst til hægri kom sú gagnrýni að öll ríkisútgjöld, líka til menntamála, væru af hinu illa og þeir sem voru lengst til vinstri gagnrýndu það að markaðslögmál og samkeppni ættu að stýra menntakerfinu.

Lykillinn að auknum lífsgæðum

Því miður er það svo að staðan í menntakerfinu hér á landi er ekki ósvipuð og í Bandaríkjunum árið 1955. Það er mikið áhyggjuefni að öll skólastig hér á landi glíma við þann vanda að gæðin eru ekki ásættanleg og leita verður nýrra leiða til að auka gæði náms.

Sem háskólaráðherra er það mitt hlutverk að gera það sem ég get til að auka gæði háskólanáms. Ég hef meðal annars tekið þá ákvörðun að ríkið skuli ekki gera upp á milli nemenda á grundvelli þess í hvaða háskóla þeir fara. Mikil mismunun og ríkisforsjá hefur ríkt, sem hefur falist í því að fari nemandi í opinberan skóla fylgir honum 100% ríkisframlag en velji hann sjálfstætt starfandi skóla er framlagið einungis 75% af fullu framlagi. Með því að mismuna nemendum hefur ríkið komið í veg fyrir heilbrigða samkeppni og ýtt nemendum í opinbera skóla.

Hvergi færri strákar

Hafa ber í huga að sjálfstætt starfandi háskólarnir, HR, HB og LHÍ, voru dýrmæt viðbót á sínum tíma og nemendum þar fjölgaði frá því að vera 12% af öllum háskólanemum árið 2000 í það að vera mest 26% árið 2007. Frá þeim tíma, eða í 17 ár, hefur hlutfall nemenda í einkaskólum verið fast í því að vera u.þ.b. 23% af öllum háskólanemum. Æskilegt hefði verið að sjá skólana vaxa enn frekar, því þá hefðum við betur mætt þörfum atvinnulífsins með fleiri nemendum, sérstaklega fjölda karla. Einungis 14% karla á aldrinum 25-34 ára hafa lokið háskólanámi hér á landi samanborið við 20% í OECD-ríkjunum. Mun færri karlar sækja háskólanám á Íslandi en í öðrum Norðurlandaríkjum, sem öll eiga það sameiginlegt að háskólar innheimta ekki skólagjöld fái þeir fullt ríkisframlag. Við sjáum að þau ná betri árangri en við, mennta fleiri drengi og nýta sér einkarekstur enn frekar en við til að bjóða upp á öflugt menntakerfi.

Sanngirni

Jöfn tækifæri nemenda til náms, valfrelsi og heilbrigð samkeppni á milli skóla er sanngirnismál. Ég vil því innleiða nokkurs konar „ávísanakerfi“ á háskólastigi sem felur í sér að ríkið greiðir jafn mikið með öllum nemendum óháð því hvað þeir velja, að því gefnu að skólarnir innheimti ekki skólagjöld. Einkareknu skólunum er í sjálfsvald sett hvort þeir þiggja þetta eða taka áfram við skertu framlagi og innheimta skólagjöld. Þetta er hluti af stórri kerfisbreytingu um fjármögnun háskólastigsins sem er orðin árangurstengd, ýtir undir gæði, að nemendur ljúki námi og mæti samfélagslegum áskorunum.

Heildarfjármögnun ríkisins til háskólanna er um 40 milljarðar króna á ári, en tæpir þrír milljarðar að auki koma inn í háskólastigið af skólagjöldum fárra nemenda. Með þessari breytingu er ekki verið að auka fjármagn, heldur tryggja það að fjármagninu sem þegar hefur verið úthlutað til háskólastigsins sé dreift með sanngjarnari hætti.

Markaðsöfl eða miðstýring?

Á Íslandi ríkir samfélagsleg sátt um jafnt aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Menntun er öflugasta og skilvirkasta verkfærið í að tryggja öllum jöfn tækifæri. Verkfærið nýtist þó illa ef við tryggjum ekki jafnræði milli rekstrarforma. Breytt fjármögnun háskóla er áfangi á langri leið sem er fyrir höndum til að auka gæði menntunar, fjölga nemendum – ekki síst í tæknigreinum – og auka fjölbreytileika sem aldrei næst með einsleitu ríkisreknu menntakerfi.

Ég hef sagt það frá mínum fyrsta degi sem ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar að ein stærsta áskorun okkar sé að fjölga stoðum efnahagslífsins, auka verðmætasköpun, efla samkeppnishæfni Íslands og sækja þannig fram til bættra lífskjara. Til að svo megi verða þurfum við ekki frekari ríkisafskipti eða miðstýringu. Við þurfum ekki fleiri reglugerðir, lög eða gullhúðun. Það sem við þurfum er öflugt einstaklingsframtak og heilbrigð samkeppni á milli háskóla sem þurfa að leggja sig alla fram til að laða til sín ungt fólk sem fær nú loks raunverulegt valfrelsi óháð efnahag.

Pistillinn „Aukum við gæðin með meiri miðstýringu eða heilbrigðri samkeppni?” birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2024.