Hugvitið er efnahagsmál

Hugvit Íslendinga vekur aðdáun langt út fyrir landsteinana og er orðið að mikilvægri útflutningsgrein. Útflutningstekjur af tækni- og hugverkaiðnaði hafa farið stigvaxandi síðustu ár og nema nú rúmlega 20 prósentum af útflutningi þjóðarinnar. Fyrirtækin sem byggjast á hugviti eru fjölbreytt og koma úr ýmsum áttum á sama tíma og þau stækka einnig gamalgrónar útflutningsgreinar okkar. Öll eiga þau það sameiginlegt að þau byggjast á stórhuga einstaklingum og hugmyndum þeirra.

Við höfum náð árangri við að fjölga stoðum atvinnulífsins. Þessi jákvæða þróun skiptir okkur öll máli ekki síst vegna þess að hagsveiflur hér á landi hafa gjarnan verið meiri en í löndunum sem við berum okkur saman við. Krónan sveiflast með sjávarútveginum, álverðinu, ferðaþjónustunni og vinnumarkaðsmódelinu sem síðan hefur áhrif á verðbólgu og vexti. Þess vegna skiptir það okkur miklu máli að skapa nýjar og sterkar stoðir í efnahagslífinu.

Þessi þróun er þó ekki sjálfgefin og ýmsar blikur eru á lofti. Það skiptir öllu máli að halda rétt á spilunum og efla innviði til að ýta undir áframhaldandi vöxt. Þar þarf að líta til aðgengis að mannauði og öflugri menntun, orku, umhverfis nýsköpunar og tækni svo að fyrirtækjum í tækni- og hugverkaiðnaði fjölgi hérlendis og fleiri hugmyndir verði að veruleika.

Samkvæmt nýjustu spám mun íslenskt atvinnulíf þurfa hátt í 14 þúsund sérfræðinga á næstu fimm árum. Það skiptir því máli að tryggja að hér sé fólk með hæfni í þessi spennandi störf. Það á sérstaklega við tækni- og iðnmenntað fólk. Þar er verk að vinna í öllu menntakerfinu og menntamálin þurfa að vera framar í forgangsröðun samfélagsins.

Allt snýst þetta um að hafa hagkerfi sem virkar og er til þess fallið að auka enn lífsgæði hér á landi. Við sjáum þann árangur sem við höfum náð í sjávarútvegi, í orkunýtingu og í ferðaþjónustu. Áhrifin eru áþreifanleg, við þekkjum flest störfin og vitum að þessar greinar ýta undir frekari vöxt hagkerfisins.

Hugvitið er í mörgum tilvikum fjær okkur, við skiljum ekki alltaf hvað er verið að gera í öllum þessum tölvum, inni á skrifstofum, rannsóknarstofum og þannig mætti áfram telja. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að þarna verða til fleiri stoðir sem við byggjum hagkerfið okkar á. Þannig sköpum við aukin verðmæti fyrir okkur og komandi kynslóðir, þannig fjármögnum við uppbyggingu innviða, öryggi íbúa, heilbrigðisþjónustu, menntun og þannig mætti áfram telja.

Umræða samfélagsins einkennist oft af daglegum úrlausnarefnum, auknum útgjöldum og viðbragði. Sjaldnar ræðum við hvernig við raunverulega tryggjum fleiri tækifæri og stækkum kökuna. Það er einungis þannig sem við getum haft svigrúm til að takast á við óvænta atburði. Það er því mikilvægt efnahagsmál að setja eggin í fleiri körfur.

Pistillinn „Hugvitið er efnahagsmál” birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2024.