Verðmætasköpun í dag – og á morgun

Af einhverjum ástæðum hefur samtal okkar um verðmætasköpun vikið fyrir öðrum þáttum þjóðfélagsumræðunnar. Við verjum – eða eyðum – miklum tíma í að ræða ýmis mál, sem þó missa marks ef við hugum ekki að verðmætasköpun. Þarna beini ég spjótum mínum að öllum stjórnmálamönnum og ég er ekki undanskilin. Auðvitað er almennt vilji til að gera betur og það er almenn reynsla mín að bæði stjórnmálamenn og aðrir sem taka þátt í þjóðfélagsumræðu vilji láta gott af sér leiða og bæta samfélagið. Það er engin ástæða til að gera lítið úr því.

Aftur á móti gerist lítið ef við hugum ekki að verðmætasköpun. Og það er í raun ekki nóg að huga að henni, við þurfum að beita okkur fyrir því að skapa hér verðmæti. Við erum svo heppin að búa í velmegunarsamfélagi, þar sem okkur hefur tekist að virkja og nýta auðlindir, hugvitið og sköpunarkraftinn í samfélaginu. Þess vegna er Ísland eitt besta land í heimi þegar horft er til lífsgæða.

Ekkert af þessu er þó sjálfsagt og það er í raun auðveldara að klúðra þessu en hitt. Of háir skattar geta til að mynda dregið úr dugnaði, of þungt regluverk getur hindrað nýsköpun og framsækni og óskilvirkt kerfi hins opinbera getur dregið úr nýjum tækifærum í atvinnulífinu – svo nokkur dæmi séu tekin. Allt dregur þetta úr verðmætasköpun, því það er atvinnulífið sem skapar verðmætin og gerir það að verkum að hér ríkir hagsæld. Það er verðmætasköpunin sem tryggir að hér sé til staðar heilbrigðis- og menntakerfi, að hægt sé að tryggja öryggi íbúa og að hægt sé að veita þeim aðstoð sem þurfa á henni að halda. Ekkert af þessu gerist án verðmætasköpunar. Það er ekki skoðun, heldur staðreynd.

Hér ríkir samfélagsleg sátt um jafnt aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Menntun er öflugasta og skilvirkasta verkfærið í að tryggja öllum jöfn tækifæri og aðgengi að heilbrigðisþjónustu og eykur lífsgæði þeirra sem hér búa. Samhengi verðmætasköpunar og velferðar verður ekki rofið.

Í fjármálaáætlun boðum við stuðning við verðmætasköpun framtíðar. Fjármagni til háskóla er úthlutað í gegnum nýja árangurstengda fjármögnun með skýrum hvötum til aukinna gæða. Fjárfest er áfram í stuðningi við rannsóknir og þróun íslenskra nýsköpunarfyrirtækja. Efling nýsköpunar í atvinnulífinu er stór liður í áformum stjórnvalda um stuðning við vaxtargetu hagkerfisins til að örva framleiðniþróun, auka stöðugleika og ýta undir verðmætasköpun til framtíðar.

Við verðum að tileinka okkur langtímahugsun í stað þess að hugsa bara í kjörtímabilum. Horfa til framtíðar, ekki aðeins fyrir okkur sjálf heldur einnig fyrir þær kynslóðir sem á eftir okkur koma. Verkefnið er að tryggja hér hagsæld, ekki bara í dag heldur líka á morgun.

Pistillinn „Verðmætasköpun í dag – og á morgun” birtist í Morgunblaðinu 26. apríl 2024.